154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Markmið Íslands vegna COP 28, munnleg skýrsla umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra.

[16:27]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Þegar loftslagsmál ber á góma er oft talað eins og þetta sé bara alger dauði og djöfull, við séum algerlega brenna upp og það er allt að fara til fjandans, á meðan við gætum auðvitað nálgast verkefnið frekar þannig að við erum að fara í gegnum umbreytingar. Við þurfum að fara í gegnum aðlögun og við þurfum að breyta lífsháttum okkar og það þarf ekkert endilega að vera slæmt. Við höfum sem betur fer breytt lífsháttum okkar svakalega bara á síðustu 100 árum og það hefur allt verið til bóta fyrir mannskepnuna en í einhverjum tilfellum ekki svo gott fyrir jörðina. Ég er alveg sannfærð um að við getum gert bæði með því einmitt að hlusta á vísindamenn — og nú ætla ég ekki að flokka hv. þingmenn Flokks fólksins sem sérstakra vísindamenn. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að hlusta á vísindamenn sem eru að skoða þetta, hlusta á fyrirtæki sem eru að þróa lausnir vegna þess að tæknibreytingar og nýsköpun eru auðvitað lykill út úr þessu vandamáli. En með því er ég ekki að segja að við eigum að halda óbreyttri hegðun. Við eigum bara að horfa á hvað amma gamla gerði í eldhúsinu þegar hún tók plastpokann utan af brauðinu og dustaði brauðmylsnurnar úr og notaði svo plastpokann aftur. Við eigum auðvitað að hætta að nota hluti sem fara beint í ruslið og þó að við höldum að það fari í einhvers konar endurvinnslu, sem það vonandi gerir, þá er auðvitað alltaf best að endurnýta hlutina.

En að þessu sögðu þá held ég að stóra nálgunin hjá okkur varðandi þessi mál þurfi líka að vera í gegnum samfélagið sjálft, í gegnum fyrirtækin okkar. Við þurfum að koma á raunverulegu hringrásarhagkerfi, að fyrirtækin okkar sem eru að framleiða vörur sjái akkur í því að það sé hvati í kerfinu til að tryggja að vörur hafi langan líftíma, þær hafi endingu, að það sé hægt að endurnýta þær og endurvinna eins og kostur er. Og svo þurfum við auðvitað að vera með alvöruúrgangsáætlun þannig að þegar því verður ekki við komið þarf að fara varlega með þessa hluti og tryggja það.

En stóra málið okkar á Íslandi — og ég hef stundum sagt að við erum að einhverju leyti í þessu að glíma við ákveðið lúxusvandamál. Við búum í ofboðslega fallegu landi með mikið af ósnertri náttúru sem við þurfum að varðveita og við þurfum að passa. Svo búum við við það tækifæri að geta framleitt hér ofboðslega mikið að grænni orku sem er lausn heimsbyggðarinnar við þessu vandamáli. Það eina sem við þurfum að gera er að finna skynsamlegt jafnvægi á þessu, hvað við ætlum að vernda og hvað við ætlum að virkja vegna þess að það gengur ekki að á Íslandi, þar sem við höfum aðgengi að grænni og góðri orku, séum við með olíuorkuver, við séum að brenna dísilolíu til að framleiða rafmagn sem við getum gert með öðrum hætti. Það er auðvitað þar sem fókusinn okkar á að vera.

En að þessu sögðu þá ætla ég að óska hæstv. ráðherra góðs gengis á COP-ráðstefnunni. Ég hef nú sjálf verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fara á tvær slíkar ráðstefnur og það er ofboðslega lærdómsríkt og skemmtilegt. Það er ekki síst gaman að sjá hvað atvinnulífið er orðið virkur þátttakandi í ráðstefnunni sjálfri. Auðvitað á sér stað fullt af samningafundum þar sem ríkin taka þátt og reyna að ná saman um hlutina. En básarnir, allar þessar ráðstefnur og allir þessir tvíhliða fundir — síðast átti ég einmitt gott samtal við fulltrúa frá íslensku atvinnulífi sem tóku þátt og sáu svo mörg tækifæri. Það er nefnilega málið að fyrir land eins og Ísland sem getur framleitt mikið af grænni orku og hefur aðgengi að góðri þekkingu, og við erum nýsköpunardrifið samfélag, þá liggur líka mikið af tækifærum í þeirri ógn sem okkur stafar af loftslagsbreytingunum. Reynum bara að muna það.