154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

landsskipulagsstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

535. mál
[17:12]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024–2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028, þ.e. næstu fimm ár. Það má segja að skipulagsmál séu yfir og allt um kring. Þau taka mið af samfélaginu hverju sinni og snerta alla þætti þess á einn eða annan hátt. Landsskipulagsstefna tekur á vernd og ráðstöfun lands á hálendi Íslands, í þéttbýli og dreifbýli og sjálfbærri nýtingu haf- og strandsvæða. Stefnunni er einnig ætlað að tryggja heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana og stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga um þróun byggðar og landnotkunar.

Fyrsta landsskipulagsstefnan var samþykkt á Alþingi árið 2016. Samþykkt hennar fól í sér að í fyrsta sinn lá fyrir samræmd stefna um skipulagsmál á landsvísu til leiðbeiningar fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga og aðra áætlanagerð um landnotkun og byggðaþróun. Nú tæpum átta árum síðar er komið að endurskoðun landsskipulagsstefnu. Margt í samfélaginu okkar hefur breyst á þessum tíma og eru viðfangsefni skipulagsgerðar nú fleiri en þegar gildandi landsskipulagsstefna var mótuð. Ísland hefur t.d. undirgengist ýmsar alþjóðaskuldbindingar sem hafa þýðingu fyrir skipulagsmál, svo sem loftlagsmál.

Sú stefna sem nú er sett fram tekur mið af stefnum og áætlunum sem varða landnotkun og eru þær orðnar fleiri nú en þegar gildandi stefna var unnin. Stefnan setur því ný viðfangsefni í samhengi við skipulag landnotkunar og haf- og strandsvæða. Stefnumótunin tekur einnig á samhæfingu áætlana í innviðaráðuneytinu á sviði samgangna, sveitarfélaga-, húsnæðis- og byggðarmála. Grunnur samhæfingar þessara áætlana felst í sameiginlegri framtíðarsýn og meginmarkmiðum áætlananna. Þá vinna þær saman í gegnum samhæfðar aðgerðir og áherslur með viðmið um búsetufrelsi að leiðarljósi.

Landsskipulagsstefna var unnin í samræmi við stefnumótunarferli Stjórnarráðsins, svokallaðan sporbaug stefnumótunar, og er það í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á ferli landsskipulagsstefnu með lögum um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðarmála. Meginafurðir þess ferlis eru stöðumat og valkostir sem sett var fram í grænbók um skipulagsmál, þar á eftir var unnin drög að stefnu sem gefin var út sem hvítbók um skipulagsmál.

Samráð og samhæfing hafa verið leiðarljós í allri vinnu, bæði grænbókar og hvítbókar. Samhliða vinnu við grænbók og hvítbók var unnin greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála á Íslandi samkvæmt 10. gr. skipulagslaga og er hún lögð til grundvallar við gerð landsskipulagsstefnu. Um er að ræða greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála í landinu ásamt yfirliti yfir stefnu stjórnvalda í einstökum málaflokkum sem varða skipulag. Samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana skal vinna umhverfismat fyrir landsskipulagsstefnu þar sem hún markar stefnu fyrir leyfisveitingar til framkvæmda. Umhverfismat landsskipulagsstefnu var unnið samhliða til að tryggja að horft væri til umhverfisáhrifa við gerð stefnunnar og neikvæðum áhrifum haldið í lágmarki.

Landsskipulagsstefna er nú lögð fram til 15 ára ásamt fimm ára aðgerðaáætlun. Í stefnunni eru lögð fram þrjú markmið í skipulagsmálum og eru þau vernd umhverfis og náttúru, velsæld samfélags og samkeppnishæft atvinnulíf. Til að ná settum markmiðum þarf að horfa til fjölmargra þátta, því líkt og ég nefndi hér fyrr í máli mínu tekur landsskipulagsstefna á vernd og ráðstöfun lands á hálendi Íslands, í þéttbýli og dreifbýli og sjálfbærri nýtingu haf- og strandsvæða. Fyrir hvert markmið eru settar fram áherslur og tilmæli um hvernig framfylgja skuli viðkomandi áherslu í skipulagsgerð, hvort sem er á landi eða á haf- og strandsvæðum.

Áherslurnar fylgja bæði eftir stefnu sem fram kemur í öðrum áætlunum stjórnvalda en einnig þeim lykilviðfangsefnum sem lögð voru til grundvallar við endurskoðun stefnunnar. Landsskipulagsstefnu er fyrst og fremst framfylgt með skipulagsáætlunum sveitarfélaga þar sem þau byggja á stefnunni við gerð aðal- og svæðisskipulags. Ásamt stefnu til 15 ára er einnig lögð fram aðgerðaáætlun til fimm ára sem felur í sér 19 aðgerðir sem ætlað er að nái fram markmiðum landsskipulagsstefnu. Aðgerðirnar miða einkum að því að gera skipulagsgerð sveitarfélaga skilvirkari með bættu aðgengi að grunngögnum og leiðbeiningum. Aðgerðaáætlunin felur í sér markvissar aðgerðir til að stuðla að því að styrkja stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði.  

Við endurskoðun stefnunnar lagði ég áherslu á viðbrögð við loftslagsbreytingum, jafnvægi í uppbyggingu húsnæðis og lífsgæði í byggðu umhverfi, uppbyggingu þjóðhagslegra mikilvægra innviða, landnotkun í dreifbýli, landnotkun á miðhálendi Íslands, orkuskipti í samgöngum og fölbreytta ferðamáta, skipulag haf- og strandsvæða, skipulag vindorku og vernd líffræðilegrar fjölbreytni.

Við niðurstöðu samráðs og greininga voru dregin saman níu lykilviðfangsefni og endurspegla þau þær áherslur sem ég fór fram með og eru helstu áskoranir málaflokksins.

Loftslagsbreytingar eru ein stærsta áskorun samtímans. Ísland hefur sett fram metnaðarfull markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsbreytingar fela í sér áskoranir í landnotkun og hinu byggða umhverfi en þær geta líka haft áhrif á atvinnulíf og samfélag. Kallað er eftir því að sveitarfélög útfæri í skipulagi sínu stefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum, hvernig draga eigi úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis. Settar eru fram aðgerðir sem miða að því að útvega sveitarfélögum til þess bær verkfæri ásamt bestu fáanlegu gögnum hverju sinni. Til að mynda munu liggja fyrir leiðbeiningar um hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis með skipulagsgerð. Þannig verður sveitarfélögum, skipulagsráðgjöfum og hönnuðum tryggt aðgengi að bestu upplýsingum hverju sinni.

Brýnt er að ná jafnvægi í uppbyggingu húsnæðis í samræmi við þörf og samstilla stefnu og aðgerðir ríkis og sveitarfélaga til að tryggja nægt framboð. Tryggja þarf framboð á fjölbreyttum íbúðum sem mætir þörfum mismunandi hópa og stuðlar að félagslegri fjölbreytni. Auka þarf skilvirkni í ferlum skipulags og samhæfa og einfalda undirbúning framkvæmda við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til að mæta eftirspurn og tryggja húsnæðisöryggi. Settar eru fram aðgerðir sem snúa að því að bæta aðgengi að upplýsingum um möguleika á uppbyggingu húsnæðis í skipulagsáætlunum og er þá sérstaklega horft til þeirra möguleika sem felast í stafrænni aðal- og deiliskipulagsgerð. Einnig verða gefnar út leiðbeiningar til sveitarfélaga með áherslu á að einfalda ferla og auka skilvirkni við skipulag og mannvirkjagerð.

Innviðir eru forsenda fyrir þróun byggðar og kröftugu atvinnulífi. Uppbygging þeirra getur haft áhrif á ólíka hagsmuni varðandi þróun byggðar og landnotkunar. Innviðir tengdir flutningskerfum fyrir orku, vatn og varma, og einnig þeir sem snúa að samgöngum og fjarskiptum, geta haft mismikil áhrif á íbúa og dæmi eru um að ágreiningur skapist um staðsetningu þeirra. Úr sumum þessara ágreiningsmála næst ekki að leysa og mikilvægar framkvæmdir ná því ekki fram að ganga. Ég tel því mikilvægt að til sé farvegur fyrir skipulagsákvarðanir og leyfisveitingar þjóðhagslegra mikilvægra innviða sem þjóna hagsmunum landsins alls.

Land er takmörkuð auðlind og landbúnaðarland sem hentar vel til ræktunar matvæla og fóðurs er verðmætt. Samkeppni ríkir um land í dreifbýli vegna aukinnar eftirspurnar eftir landi til skógræktar, undir frístundabyggð, fyrir ferðaþjónustu, íbúðaruppbyggingu í dreifbýli og nýtingu vindorku. Mikilvægt er að landnotkun í dreifbýli feli í sér vernd góðs ræktarlands sem þarf að geta staðið undir aukinni matvælaframleiðslu til framtíðar á sama tíma og sveitir landsins verða að geta vaxið og dafnað. Unnið verður að því að kortleggja gæði lands til ræktunar út frá bestu fáanlegu gögnum og verður sú kortlagning lögð til grundvallar við skipulagsgerð. Einnig verður landslagsgreining lögð til grundvallar í skipulagi til að efla þau gæði sem felast í landslagi, náttúrulegu og byggðu. Þannig verði gætt að fjölbreyttu og verðmætu landslagi við skipulagsgerð og vandað til staðarvals og hönnunar mannvirkja og byggðar.

Miðhálendi Íslands hefur verið nýtt sem almenningur um aldir og það gegnir enn mikilvægu hlutverki sem beitarsvæði fyrir bændur. Með vaxandi ferðaþjónustu er aukinn ágangur á miðhálendið með vaxandi álagi. Aukið álag getur falið í sér þörf fyrir uppbyggingu innviða fyrir samgöngur og ferðaþjónustu, en samhliða slíkri uppbyggingu þarf að tryggja að hún rýri ekki hefðbundin not og upplifun, vernd óbyggðra víðerna, mikilvægra landslagsheilda og náttúru miðhálendisins. Að þessu sögðu er mikilvægt að þróa stefnu um samgöngur á miðhálendinu með tilliti til orkuskipta í samgöngum og mögulegs öryggishlutverks vegna náttúruvár.

Landsskipulagsstefna horfir einnig til orkuskipta í samgöngum og fjölbreyttra ferðamáta. Til að hægt sé að hraða orkuskiptum er mikilvægt að skipulagsáætlanir taki mið af áætlunum um endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum. Undirstaða gæða í byggðu umhverfi felst í vandaðri samþættingu samgöngukerfa og byggðar. Ég legg áherslu á að samhliða markvissum orkuskiptum er jafnframt nauðsynlegt að auka hlutdeild vistvæns ferðamáta til að ná markmiði stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Eins og við höfum öll orðið vör við er aukin ásókn í nýtingu haf- og strandsvæða, m.a. fyrir matvælaframleiðslu og orkuvinnslu. Í þessu sambandi þarf því að skilgreina siglingaleiðir á strandsvæðum og skerpa sýn á rýmisþörf öryggissvæða sæstrengja og aðra staðbundna nýtingu sem hefur takmarkandi áhrif á veiðar og siglingar. Einnig er þörf á skýrari stefnumörkun fyrir ákvarðanir um staðbundna nýtingu og náttúruvernd á hafsvæðum utan strandsvæða. Á næstu árum hefst vinna við gerð strandsvæðisskipulags fyrir Eyjafjörð og Skjálfandaflóa. Í framhaldinu fer svo fram vinna þar sem unnið verður að því að skilgreina hvaða svæði skuli hafa í forgangi við gerð strandsvæðisskipulags.  

Skipulag vindorkunýtingar er nýtt viðfangsefni í skipulagsmálum hér á landi en vaxandi áhugi er á nýtingu hennar. Í stjórnarsáttmála er sett fram áhersla um að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi. Mikilvægt er að breið sátt ríki um hvernig staðið verði að uppbyggingu slíkra vindorkuvera og því er þörf á heildarstefnumörkun stjórnvalda um nýtingu vindorku og huga þarf að því hvort setja skuli sérstök viðmið um staðsetningu vindorkuvera, fjölda þeirra og stærð og enn fremur skýrari reglur og viðmið um áhrif á umhverfi og náttúru.

Líffræðilegri fjölbreytni stafar hætta af aukinni eftirspurn eftir nýtingu land-, haf- og strandsvæða, auk þess sem loftslagsbreytingar geta haft áhrif á samsetningu gróðurs og dýralífs. Breytt landnotkun hefur áhrif á líffræðilega fjölbreytni og losun gróðurhúsalofttegunda. Tryggja þarf að fjallað sé um líffræðilega fjölbreytni við stefnumörkun og framfylgd skipulagsáætlana.

Virðulegi forseti. Margar áherslur og aðgerðir hafa það markmið að efla byggðir um allt land. Lögð er áhersla á að við skipulagsgerð verði skilgreindir meginkjarnar í hverjum landshluta. Uppbyggingu innviða, þar á meðal samgangna, verði hagað þannig að hún sé til þess fallin að styrkja kjarnana sem sjálfbæra burðarása viðkomandi nærsamfélags og að uppbygging og rekstur öruggra samgangna efli atvinnulíf, bæði innan og milli landshluta. Með bættum samgöngum, tryggari þjónustu í nærumhverfi og fjölbreyttum atvinnutækifærum styður stefnan við jafnræði ólíkra hópa í samfélaginu.

Landið í heild sinni þarf að vera eftirsóknarverður kostur fyrir ungt fólk. Stefna um styrkingu meginkjarna og samgangna hefur það að markmiði að þróun búsetu- og samgöngumynsturs styðji til framtíðar markmið í loftslagsmálum og styrki byggð. Með því að hlúa að vexti og viðgangi meginkjarna er lagður sterkari grunnur að fjölbreyttri þjónustu og samkeppnishæfu atvinnulífi í hverju héraði sem býður upp á þau lífsgæði sem nútímasamfélag gerir kröfur um. Því fjölmennari sem þéttbýlisstaðir og byggð á jaðarsvæðum þeirra er, þeim mun líklegra er að þeir geti staðið undir fjölbreyttri og öflugri atvinnustarfsemi, þjónustu og menningarlífi.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni tillögu til þingsályktunar um endurskoðaða landsskipulagsstefnu og legg til að henni verði að lokinni fyrri umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og síðari umræðu.