154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

landsskipulagsstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

535. mál
[17:41]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að dýpka áfram þessa umræðu um þjóðhagslega mikilvæga innviði og þessi umræða á svo sannarlega rétt á sér og sérstaklega má tengja hana við þjóðaröryggismál. Það eru ýmsir innviðir þar og tengjast auðvitað þar af leiðandi skipulagsmálum einstakra sveitarfélaga. Ég var fyrir nokkru síðan, ætli það sé ekki fyrir svona tveimur árum, að ræða svona hluti við kollega okkar í Finnlandi í heimsókn þangað og fór svolítið að ræða um það að við værum með sambærilega löggjöf og hvort þeir væru ekki að lenda í því, þegar það væru hugmyndir um að leggja raflínur eða vegi eða eitthvað slíkt, að það kæmi fyrir að sveitarfélög væru ósammála um það. Þeir sögðu: Jú. Ég spurði þá hvernig þeir leystu úr því. Þeir sögðu: Ef það er þjóðhagslega mikilvægt þá verður það bara niðurstaðan. Og ég segi: Nú, en ef einhver er á móti því? Ja, ef það er þjóðhagslega mikilvægt, þá segja allir já.

Ég fór að velta fyrir mér, ef við værum með sambærilega löggjöf, hvað það væri þá annað sem gerði það að verkum að við erum ekki í því að segja já heldur segja menn gjarnan nei og þráast við. Ég held, eins og ég nefndi hér í andsvari við hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, að það sem við erum að gera með þessari þingsályktunartillögu og þessari stefnumörkun sé að taka gott skref áfram og við ætlum að nota þessar aðgerðir á næstu árum til þess að þróa enn frekar það sem við getum gert til að tryggja að þjóðhagslega mikilvægir innviðir gangi eftir, séu þeir það sannarlega. Ég held að við náum betri sátt um það að með því að gera það með þessum hætti heldur en að ganga, við skulum segja, einu skrefi eða tveimur lengra heldur en þetta. En vissulega er málið komið til nefndarinnar þegar þessari umræðu lýkur og hún getur skoðað það að vild sinni hvað hún vill ganga langt í þessum efnum.