154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

um fundarstjórn forseta.

[15:50]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég kem hingað upp aðallega til að þakka formanni Miðflokksins óvenjulega hlý orð í garð okkar í Viðreisn í dag, vel þegin skilaboð. En þetta er auðvitað alveg rétt sem komið hefur fram, gagnrýnin á þetta vinnulag. Auðvitað er það alþekkt og ekkert óeðlilegt við það að vinnulagið undir lokin, fyrir þinghlé um jól og á sumrin, sé mikið. En það má eitthvað á milli vera. Við gagnrýndum þetta í síðustu viku þegar við töluðum um fátæktina í málafjölda sem komið hefur frá þinginu vegna þess að við vissum þetta og vegna þess að við vissum að þetta snýst auðvitað ekki um álag á okkur. Þetta snýst um getu til að vinna málin svo að sómi sé að. Við þekkjum öll dæmi þess að mál hafa farið hér í gegn í flýti sem hefur síðan kallað á lagfæringu eftir lagfæringu. Þannig að það er svo sem að raungerast núna sem við bjuggumst við. Mér þykir það miður að þessi skilaboð frá framkvæmdarvaldinu hingað til þingsins skuli vera á þennan veginn vegna þess að ef eitthvað er ætti það að vera akkúrat á hinn veginn, að það sé framkvæmdarvaldið sem hlusti á það hvernig við hér sem stöndum að lagasetningunni viljum helst haga málum.