154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[16:31]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ánægður að heyra að hv. þingmaður er sammála mér um að þetta frumvarp sé til bóta og taki á vandanum. Í mínum huga þarf ekkert að bíða í sjö ár ef þetta getur gengur hraðar. Sólarlagsákvæðið rennur hins vegar út þá, það má ganga miklu hraðar mín vegna ef það gengur þannig.

Varðandi hraða uppbyggingu þá stöndum við sannarlega frammi fyrir erfiðum áskorunum í efnahagsumhverfinu, hárri verðbólgu, háum vöxtum, sem gerir það að verkum að markaðurinn dregur svolítið úr krafti sínum. En á sama tíma kallar þessi mikli efnahagsvöxtur á fólk og síðastliðna 20 mánuði hefur fjölgað hér um 20.000 manns eða sirka 1.000 manns á mánuði. Ég nefni þessa tölu vegna þess að ég var að tala um hóp sem er 2.000–3.000, þannig að á sama tíma og við erum að tala um þennan hóp þá er annar hópur sem hefur komið hingað til okkar á ekkert mjög löngum tíma, á um tveimur árum, sem er kannski tíu sinnum stærri.

Hvað erum við að gera? Jú, við verðum að beita þeim tækjum og tólum sem við erum með. Við erum að setja fram skýra stefnu í þessari húsnæðisstefnu til lengri tíma. Það er verið að byggja 800 fleiri íbúðir á þessu ári og 1.000 á næsta og þarnæsta, þ.e. 2.800 fleiri íbúðir en ef ríkið væri ekki að gera neitt og menn treystu bara á markaðinn. Þannig að já, við erum því að gera ýmislegt. Við erum hins vegar svolítið að togast á við efnahagsástandið. Þess vegna er lykilatriði að ná niður verðbólgu með hófsömum skynsamlegum fjárlögum sem ég veit að félagar mínir í fjárlaganefnd eru að fara að leggja til hér og við munum fjalla um á næstu dögum.