154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[16:33]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir seinna andsvarið. Ég held að vandamálið sé að við erum ekki að horfa nógu langt fram í tímann. Við búum til einhverjar stefnur en förum ekki í aðgerðir og þær aðgerðir eru heldur ekki fjármagnaðar. Það er einfaldlega ekki nóg að byggja 800 íbúðir á þessu ári og 1.000 næsta ári og 1.000 á þarnæsta. Það sem við þurfum að gera er að horfa á það, eins og hæstv. ráðherra sagði, að hingað er að koma fleira og fleira fólk vegna þess að hér er gott að lifa. Við erum ekki að fjölga okkur nóg þannig að það er eins gott að við séum að fá fólk hingað og við þurfum að miða okkar aðgerðir við það. Það þarf ríkisstjórnin að sýna í verki en ekki bara í einhverjum fallegum stefnum sem síðan eru ekki fjármagnaðar og aldrei er farið eftir.