154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[16:34]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mikilvæg umræða og við tókum þetta spjall við ráðherra í umhverfis- og samgöngunefnd. Mér fannst þetta ráðast af lausnamiðuðum tímabundnum lausnum. Auðvitað er þetta ekki kjörástand. Þetta eru hálfgerð neyðarlög en þó, miðað við aðstæður eins og eru í dag þar sem er eftirlitslaust og ólöglega verið að raða fólki inn í húsnæði sem er ekki byggt sem íbúðarhúsnæði, þá tel ég altént til bóta að það sé komið lögum yfir það og öryggis- og eldvarnareftirliti í þessa tímabundnu neyðarúrræðislausn sem við erum að ræða hér.

Ef hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson yrði skyndilega gerður að innviðaráðherra á morgun þá er alveg ljóst að hann myndi vilja byggja miklu meira húsnæði langt fram í tímann. En það breytir ekki því að við erum með vandamál núna sem þarf að leysa strax, tafarlaust. Það var enginn fyrirvari á þeirri ofboðslegu fjölgun á fólki sem hér helltist yfir okkur, bæði tengt ferðaþjónustunni og uppbyggingu í þjónustugeiranum, byggingargeiranum og öllum þeim geirum sem þarf að manna. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Hvaða ráð annað hefði hv. þingmaður viljað leggja til núna, með fullri virðingu fyrir langtímasýninni, en hún bjargar okkur ekki í dag? Hvernig myndum við leysa þetta betur en með því frumvarpi sem hér er til umræðu?