154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[17:57]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og hugleiðingarnar varðandi orkuöflun hér á landi og tímann sem hún tekur. Ég hef verið frekar skýr í því máli um hvað mér finnst persónulega varðandi framganginn í þessu. Það er afar mikilvægt að þetta gangi hratt fyrir sig. Það hefur verið bent á það ansi lengi af orkufyrirtækjum að hér á Íslandi skorti orku. Við þurfum í rauninni að hafa skýra framtíðarsýn um það hvernig við ætlum að afla hennar. Af því að hv. þingmaður ætlaði ekki að fara inn í þriðju rammaáætlun þá er samt mikilvægt að nefna hana sem dæmi sem hefur verið leyst og var staðnað í níu ár í þinginu. Umræðan um hvernig rammaáætlunin er og ferlið þar held ég að kalli jafnvel á sérstaka umræðu því að þetta er flókið ferli og er kannski ekki alveg eins og var lagt upp með í upphafi.

Varðandi dreifingu orkunnar þá tekur því miður of langan tíma að byggja upp byggðalínu og dreifikerfi raforku. Ef allt gengur eftir held ég að kaflinn frá Akureyri að Akranesi muni taka 10–12 ár, svo framarlega sem engar kærur koma og eitthvað svoleiðis. Það er allt of langt og þýðir það að leyfisveitingaferlið okkar er flókið og tímafrekt. Ég veit að hæstv. ráðherra er að vinna að því að einfalda leyfisveitingaferlið og stytta þann tíma, sem er afar mikilvægt. Hins vegar er líka mikilvægt að taka það fram að frumvarpið sem var samþykkt hér á síðasta vetri hvað varðar það að leyfa stækkanir virkjana á þegar röskuðum svæðum, sem gefur okkur aukna orku og fyrirtæki eru þegar farin að huga að, er afar mikilvægt fyrir okkur. En betur má ef duga skal og við eigum að leita allra mögulegra leiða til þess að afla orku hér á landi. Ég hef m.a. óskað eftir skýrslubeiðni hvað varðar mögulega stækkun á smávirkjunum um land allt á þegar röskuðum svæðum, af því að ég veit að margar smávirkjanir gætu nú þegar framleitt meira en hafa ekki leyfi til þess þar sem þær þurfa að vera undir 9,9 MW. Ég veit að það er í vinnslu núna í ráðuneytinu og verður fróðlegt að heyra hvað kemur út úr því.