154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

raforkulög.

541. mál
[19:00]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skil ágætlega að hv. þingmaður vilji ekki ræða söguskýringuna en söguskýringin er til og hún stendur. Á að keyra áfram sama hvað? Nei, nei, þess vegna studdi ég rammaáætlun og þess vegna tók ég þátt í vinnunni við gerð laga um rammaáætlun og studdi það mál alla leið. Við höfðum væntingar um að það gæti leitt til þess að það yrði friður um þessi mál og við kæmumst áfram, en að það myndi þýða stórt stopp fyrir íslenskt samfélag datt mér aldrei í hug. Það er það sem er alvarlegt.

Er þetta vegna lágrar stöðu lónum? Já, vatnsbúskapurinn er heldur aumari en við höfum oft upplifað en hann var líka svona í fyrra og getur verið svona í nokkur ár. Það var stundum talað um að hann yrði svona á tíu ára fresti en staðan er nú orðin þannig að eftirspurnin í kerfinu er svo mikil og hún hefur aukist svo mikið að það er minna borð fyrir báru. Raforkufyrirtækin gera ráð fyrir þessu í sínum áætlunum. Það var held ég árið 2013/14 sem Landsvirkjun setti fram mjög málefnalega áætlun um uppbyggingu virkjana til ársins 2040. Ein sviðsmynd í þeirri skýrslu gerði ráð fyrir því að við svöruðum þessari vaxandi eftirspurn sem kæmi en það hefur ekkert gengið eftir. Nú horfum við fram á það að þetta leiði til hækkunar á raforkuverði af því að, eins og kom fram áðan, stórnotendurnir eru að bjóða yfir heimilistöxtunum og ekki viljum við hækka raforkuverð til heimila. Við horfum upp á það að atvinnurekstur á viðkvæmum svæðum, eins og á Snæfellsnesi — fyrirtæki þar stendur frammi fyrir því ef það fær ekki lausn sinna mála að þurfa að segja upp 30–40 manns í þessum fámennu samfélögum fyrir jól. (Forseti hringir.) Þetta er auðvitað mál sem verður að leysa en afleiðingarnar af því hvernig þingið hefur unnið í þessu, hvernig haldið hefur verið á málum, birtast okkur í þessu. (Forseti hringir.) Ef haldið hefði verið sómasamlega á þessu og eðlileg uppbygging í raforkuframleiðslu í landinu haldið áfram þá værum við á betri stað.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða ræðutímann.)