154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

raforkulög.

541. mál
[20:06]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er nákvæmlega þessi fjölbreytni sem var farin af stað í kringum 1960 með orkuframleiðslu, með samningunum við Alusuisse á sínum tíma, álverið kemur reyndar 1969, á því góða ári. Fyrir 1960 var bara sjávarútvegur og aftur sjávarútvegur og landbúnaður. Það var nákvæmlega markmiðið að fjölga atvinnugreinum. Síðan höfum við fengið fleiri greinar eins og ferðaþjónustuna og þetta er að taka á sig mynd. Ég held að það sé enginn að tala um að við ætlum að halda þessum hlutföllum sem snúa að stóriðjunni, að vera með þau í 80–85% eða 78% sem ég held að sé nýjasta talan. Við ætlum að taka þetta niður og það er það sem er að gerast. En við verðum að hafa í huga og það er stóra breytingin frá því að sjávarútvegurinn réð hér öllu varðandi efnahagslíf þjóðarinnar eins og á síldarárunum — álverið í Straumsvík kemur inn í það hrun og hafði mikið að segja, hjálpaði mjög til á sínum tíma — að núna síðustu ár hafa 8% verið sjávarútvegur, 8% ferðaþjónustan, fyrir utan Covid-árin, og ætli stóriðjan sé ekki með svona 3, 4%, á því bili. Þetta er gríðarleg breyting frá því sem áður var. Ég held að það séu allir sammála um það að við ætlum að koma með fjölbreyttari starfsemi, enda hefur verið talað á þeim nótum, fá fjölbreyttari græna starfsemi, grænan iðnað. En íslensk orkuframleiðsla á grænni orku, hvort sem það er vatnsaflið, jarðvarmi eða vindorka sem framtíðarorkuframleiðsla, er undirstaða, ein af helstu undirstöðunum fyrir lífskjörum þessarar þjóðar og þess að við búum við þau góðu kjör sem við búum við hér. Hitaveitan og þessir hlutir skapa þetta velsældarsamfélag sem við búum við á Íslandi og hafa haft gríðarleg áhrif á kjör landsmanna.