154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

240. mál
[22:36]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni andsvarið. Það var ekki fjallað sérstaklega um fjármögnun innleiðingar farsældarlaganna í umfjöllun um þetta frumvarp að öðru leyti en því að það væri mikilvægt að ákveðnir þættir væru fjármagnaðir, enda leiðir sú samræming sem felst í þessu frumvarpi í sjálfu sér ekki beinlínis af sér kostnaðarauka heldur er búið að mæla fyrir um þau verkefni og meta kostnað af þeim verkefnum sem fylgdu því þegar farsældarlögin voru samþykkt. Það kann að vera ástæða til þess að allsherjar- og menntamálanefnd taki sérstaklega fyrir stöðuna á innleiðingu farsældarstefnunnar á einhverjum tímapunkti og þá einmitt líka stöðuna varðandi fjármögnunina. Það eru fleiri frumvörp á leiðinni til nefndarinnar sem tengjast innleiðingu þessarar stefnu. Auðvitað er þetta þannig að kostnaðurinn fellur til á mismunandi stöðum eftir því hvað við erum að tala um; fyrsta stigs, annars stigs eða þriðja stigs þjónustu. Það sem ég fór sérstaklega yfir hér úr nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar varðar samþættinguna og einmitt þar sem er bæði verið að einfalda þjónustu og hugsanlega líka draga úr kostnaðinum við að veita þjónustu á einum stað og samþætta þjónustuna fyrir einstaklinginn.