154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

staðan á Reykjalundi.

[15:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir til hv. þingmanns um að taka þetta mál upp. Já, þetta er eilítið snúið þegar kemur að þessari beinu spurningu um hvort til greina komi jafnvel að kaupa húsnæðið o.s.frv., það er auðvitað ekki komið á þann stað. Það ber að taka fram hér að stjórnvöldum er sniðinn þröngur stakkur þegar kemur að heimildum til að stíga inn í viðhald húsnæðis sem ekki er í eigu hins opinbera og þá þurfum við að gæta að lögum og reglum með tilliti til jafnræðis. Þetta þekkir hv. þingmaður og við öll hér. Það breytir því ekki að við verðum að taka þátt í þessu samtali og einmitt að horfa lausnamiðað á málið, hvað við getum gert. Þá verða auðvitað aðilar að horfa inn í þetta með aðkomu Sjúkratrygginga og Framkvæmdasýslu ríkiseigna og á þá aðferðafræði sem hægt er að nýta til framtíðar þannig að við getum brugðist tiltölulega hratt við, bæði í að koma húsnæðinu á laggirnar og að það verði ekki skerðing á þeirri þjónustu sem við erum að kaupa. Það eru einmitt samningaviðræður í gangi vegna þess að samningurinn sem er í gildi rennur út í mars.