154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

brottvísun flóttafólks frá Palestínu.

[15:34]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Eins og ég fór yfir hér áðan þá erum við með ákveðið kerfi sem á að starfa samkvæmt þeim lögum sem við höfum sett og komið okkur saman um hér í þinginu og vonandi getum við náð breiðari sátt um það eins og hv. þingmaður kom að í sinni fyrri spurningu. Samkvæmt þeim lögum er gert ráð fyrir því að það fari fram sérstakt mat á hagsmunum barna. Framkvæmd þeirra hefur verið þannig að það á að vera sameiginlegt verklag Barnaverndarstofu, barnaverndarnefnda, Útlendingastofnunar og eftir atvikum lögreglu sem á að tryggja það að ákvæði barnaverndarlaga og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna standist. Ég hlýt að treysta því þar til annað kemur í ljós að þessir hagsmunir verði hafðir í heiðri í því mati sem ekki er lokið af hálfu kærunefndar útlendingamála. Ég ítreka að þessu máli er ekki lokið innan íslensks stjórnkerfis og vil ítreka að það hefur a.m.k. verið mín skoðun að við eigum sérstaklega að horfa til hagsmuna barna í öllum okkar ákvörðunum í þessum málum og ég hef ekki orðið vör við annað (Forseti hringir.) en að það sé tiltölulega breið sátt um það í þinginu. Þannig að við skulum sjá hvernig þessu máli lyktar á endanum hjá til þess bærum stjórnvöldum.