154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

flutningur barna úr landi og réttindi þeirra samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum.

[15:40]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svar sitt og fyrir að útskýra hvað þrígreining ríkisvaldsins er fyrir mér, kann að meta það. En þó svo að við séum ekki hérna til þess að ræða einstök mál þá eru það oftar en ekki einstök mál sem varpa ljósi á galla í kerfinu sjálfu. Íslensk stjórnvöld virðast líta svo á að réttur barna til að tjá sig snúist eingöngu um rétt þeirra til að bera vitni í eigin máli en það er einfaldlega ekki það sem barnasáttmálinn segir. Það skýtur líka skökku við að þegar kemur að því að gæta hagsmuna barna samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland hefur lögfest og heyra undir verksvið hæstv. forsætisráðherra þá heyrist ekki orð frá hæstv. forsætisráðherra og ráðherrar ríkisstjórnarinnar, þar á meðal sjálfir ráðherrar barnamála og dómsmálaráðherra, benda allir bara hver á annan. Að nafninu til heyrir málaflokkurinn mannréttindi undir hæstv. forsætisráðherra og því leyfi ég mér að spyrja aftur: Hvert er hlutverk forsætisráðherra að hennar eigin mati við að tryggja að ákvæðum mannréttindaskuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist, þar á meðal barnasáttmálans, sé fylgt í framkvæmd stjórnvalda hér á landi?