154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[17:53]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka aftur hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held bara að við séum á sömu línu. (LE: Algjörlega.) Svo að ég skýri orð mín frekar út þá átti ég við að mér þykir það ekki boðleg orðræða þegar fatlað fólk er notað í einhverjum samningaviðræðum á milli ríkis og sveitarfélaga. Við eigum frekar að hafa rænu á því og bera gæfu til að setjast niður og ræða okkur niður á einhverja niðurstöðu og fullfjármagna þennan málaflokk. Þar erum við hv. þm. Logi Einarsson algerlega sammála að ég tel. Þetta er verkefnið. Það sem ég átti við í ræðu minni áðan var að mér hefur fundist borgarstjóri og fleiri sveitarstjórar í nágrannasveitarfélögunum tala með þeim hætti og nýta fatlað fólk í einhverjum samningaviðræðum til að tryggja málaflokknum meira fjármagn. Ég held að það viti allir sem þekkja til, og hv. þingmaður vísaði til veru sinnar á Akureyri og ég sjálfur var sveitarstjórnarfulltrúi í meiri hluta í Hafnarfirði, að þessi málaflokkur er undirfjármagnaður. Við sitjum hér á þingi og við þurfum að setjast niður og leita leiða, það er verkefnið, en ekki nota fatlað fólk í einhverjum sýndarsamningaviðræðum milli ríkis og sveitarfélaga.