154. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2023.

Störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Öðruvísi mér áður brá. Þess vegna kom mér verulega á óvart og algerlega í opna skjöldu viðbrögð framkvæmdastjóra Gildis – lífeyrissjóðs gagnvart friðsömum mótmælum Grindvíkinga og fleiri einstaklinga við lífeyrissjóðinn þegar þeir voru að krefjast þess að frysting yrði sett á vexti og verðbætur á húsnæðislánum Grindvíkinga. Það með hreinum ólíkindum að það skuli sérstaklega ráðist að formanni VR í þessu efni og í rauninni misbýður manni það hrikalega, eiginlega hrapallega. En staðreyndin er sú að sá góði maður, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur verið að benda á það hvernig lífeyrissjóðirnir hafa verið að tapa fé, okkar fé, almannafé sem fyllir þessa sjóði en eignasafn lífeyrissjóðanna er hátt í 7.000 milljarðar. Þeir eru búnir að tapa núna 800 milljörðum síðan í fyrra. Ekki 800 milljónum heldur 800.000 milljónum, 800 milljörðum, hvorki meira né minna.

Ég velti því fyrir mér þegar svona er komið: Hverjir eru það eiginlega sem heimila svona misvitrum einstaklingum að gambla með okkar fé og engu líkara en hér að sé búið að löggilda póker og öll fjárhættuspil sem hugsast getur? Það hafa verið ítrekuð tilmæli einmitt til stjórna lífeyrissjóða um að fjárfesta hér í fasteignum, að koma til móts við samfélagið. Hefðu lífeyrissjóðirnir verið búnir að glutra niður 800.000 milljónum ef þeir hefðu hlustað á almenning og komið til móts við þarfir samfélagsins með því að fjárfesta í frekari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis? Nei. En hér talar ágæti framkvæmdastjóri Gildis – lífeyrissjóðs með hátt í 32 milljónir í árslaun á árinu 2022, sem er ágætlega vel í lagt, og það skilja það margir vel hvers vegna þessir misvitru aðilar hanga eins og hundar á roði og vilja ekki sleppa.