154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar vegna frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2024. Ég vil í upphafi byrja á að þakka nefndarmönnum í fjárlaganefnd fyrir gott samstarf í vinnu nefndarinnar nú í haust og fyrir þær umræður sem fóru fram í nefndinni. Þá vil ég einnig þakka starfsmönnum nefndasviðs fyrir þeirra aðstoð og þeim fjölmörgu sem skiluðu inn umsögnum og mættu fyrir nefndina til að gefa henni betri heildarsýn á frumvarpið.

Nefndin hefur fjallað um frumvarpið á fjölmörgum fundum og fengið til sín fjölmarga gesti frá umsagnaraðilum og ráðuneytum. Hin ýmsu samtök aðila vinnumarkaðarins gáfu umsagnir um frumvarpið og komu á fundi nefndarinnar, einnig frá ýmsum samtökum sveitarfélaga og fjölda annarra aðila, alls frá 26 aðilum. Auk umsagnaraðila kallaði nefndin til fundar alla ráðherra ríkisstjórnarinnar og fulltrúa ráðuneyta sem gerðu grein fyrir breytingum á fjárlagaramma málefnasviða og málefnaflokka sem undir þau heyra. Fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins komu nokkrum sinnum fyrir nefndina og gerðu grein fyrir einstökum greinum frumvarpsins og kynntu tillögur ríkisstjórnarinnar fyrir 2. umræðu frumvarpsins. Einnig kom fjármála- og efnahagsráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, á fund nefndarinnar. Nefndinni bárust einnig aðrar umsagnir auk fjölmargra annarra erinda, minnisblaða og skriflegra svara við fyrirspurnum nefndarmanna. Þess ber að geta að ekki hefur verið hefð fyrir því að fjármálaráðherra komi á fund nefndarinnar til að sitja fyrir svörum og er það mat þess sem hér stendur að það hafi reynst mjög góð viðbót við aðrar umræður í nefndinni og kemur vel til greina að hafa það sem fastan lið í umræðu nefndarinnar um fjárlög.

Veruleg óvissa er nú uppi vegna jarðhræringa á Reykjanesi og er þeim hvergi lokið. Fyrirséð er að þær hafi umtalsverð efnahagsleg áhrif, jafnvel þótt ekki komi til frekari jarðhræringa eða eldgoss á svæðinu. Stjórnvöld vinna nú að ýmsum mótvægisaðgerðum vegna stöðunnar og líklegt þykir að frekari viðbragða sé þörf. Ljóst er að útgjöld ríkissjóðs koma til með að aukast vegna þessa þó að umfangið liggi ekki fyrir. Í ljósi óvissunnar má gera ráð fyrir breytingum við 3. umræðu fjárlagafrumvarpsins. Meiri hlutinn telur koma til greina að endurmeta önnur útgjöld til lækkunar komi til þess að fara þurfi í kostnaðarsamar aðgerðir vegna jarðhræringa. Haga þarf stjórn ríkisfjármálanna með skynsamlegum hætti og forgangsraða í þágu mótvægisaðgerða og stuðnings við íbúa Grindavíkur. Nýtt eldgosatímabil er hafið á Reykjanesi sem kallar á nýja nálgun stjórnvalda og samfélagsins alls. Yfir 30.000 manns búa á Reykjanesi en eldstöðvakerfi skagans teygir sig inn á höfuðborgarsvæðið. Mikilvægt er að stórauka áherslur á forvarnir og stuðning við íbúa, viðbragðsaðila og bæjarfélög og atvinnulíf á Reykjanesi svo takmarka megi áhrif af mögulegum eldgosum og jarðhræringum í framtíðinni.

Auk umsagna um frumvarpið í heild sinni bárust nefndinni erindi og óskir sem fólu í sér beiðni um stuðning eða hreinar fjárbeiðnir til tiltekinna verkefna, ýmist í fyrsta sinn eða til viðbótar við fyrirliggjandi stuðning. Nefndin fylgdi áfram því verklagi sem mótast hefur á síðastliðnum árum og felst í því að áframsenda slíkar beiðnir til viðkomandi ráðherra. Það er í samræmi við ábyrgð ráðherra sem fram kemur í 20. og 21. gr. laga um opinber fjármál. Í verklaginu felst einnig að kallað er eftir skýringum og rökstuðningi ráðuneyta vegna einstakra mála sem fram komu í umsögnum og á fundum nefndarinnar.

Frumvarpið byggist á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá því í sumar en ný spá var birt þann 17. nóvember og í kjölfarið hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið endurmetið tekjustofna sem byggjast á áætluninni auk þess sem tilteknir útgjaldaliðir hafa tekið breytingum sem byggjast á þjóðhagsspá. Þær tillögur eru hluti af breytingartillögum meiri hlutans fyrir 2. umræðu frumvarpsins. Gerðar eru breytingartillögur við sundurliðun 1, þ.e. tekjuáætlun frumvarpsins, upp á 8.026 millj. kr. til hækkunar tekna og við sundurliðun 2, gjaldaheimildir málefnasviða og málaflokka, um 8.379 millj. kr. til hækkunar gjalda. Gjaldahækkun sambærileg við 1. gr. fjárlaga nemur hins vegar um 8.626,9 millj. kr. og heildarafkoman verður neikvæð 46.895 millj. kr., en sú afkoma rúmast vel innan þess ramma sem fjármálastefnan leyfir. Hallinn mun því nema 1% af vergri landsframleiðslu. Meiri hlutinn vekur sérstaklega athygli á því markmiði sínu að með breytingartillögu fyrir 2. umræðu yrði frumjöfnuður ekki lakari en gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Samkvæmt tillögunni mun það ganga eftir þar sem gert er ráð fyrir að frumjöfnuður verði 1,3 milljörðum kr. jákvæður.

Frumvarpið er lagt fram í samræmi við lög um opinber fjármál, nr. 123/2015. Í 6. gr. laganna er tilgreint hvernig tölugrunnur frumvarpsins skuli byggður upp og settur saman. Í 14. gr. kemur fram að frumvarpið skuli vera í samræmi við markmið gildandi fjármálaáætlunar sem samþykkt var í vor og tekur til áranna 2024–2028. Afkoman hefur ekki verið betri síðan fyrir heimsfaraldur Covid-19. Áætlað er að skuldir samkvæmt skuldareglu, sem skilgreind er skv. 7. gr. laga um opinber fjármál, hækki að nafnvirði um 50 milljarða kr. en lækki sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Nú er miðað við að skuldir verði innan við 31% af vergri landsframleiðslu í lok næsta árs. Viðunandi skuldastig sem miðast oft við 30% af vergri landsframleiðslu er forsenda þess að bregðast megi við óvæntum efnahagsáföllum og beita ríkisfjármálunum sem sveiflujafnandi hagstjórnartæki líkt og tókst í heimsfaraldrinum.

Í greinargerð með frumvarpinu er tafla á bls. 136 sem sýnir breytingar á rammasettum útgjöldum málefnasviða á verðlagi ársins 2023. Búið er að uppfæra í nefndarálitinu þá töflu miðað við áætlað verðlag 2024 og bæta við tillögum meiri hlutans fyrir 2. umræðu frumvarpsins. Með rammasettum útgjöldum er sleppt vaxtagjöldum, lífeyrisskuldbindingum, ríkisábyrgðum, framlögum til Atvinnuleysistryggingasjóðs og til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Sá samanburður gefur því góða mynd af útgjaldaþróun grunnrekstrar ríkisins.

Á heildina litið hækka rammasett útgjöld um 37,2 milljarða að raungildi milli ára. Breytingar eru bæði til lækkunar og hækkunar. Mesta hækkunin er 11,5 milljarðar kr. vegna varasjóðs fjárlaga og skýrist af því launahækkanir komandi kjarasamninga eru ekki áætlaðar inn á einstök málefnasvið heldur er þess í stað gert ráð fyrir þeim í varasjóði. Millifært verður út af þeim lið eftir framvindu kjarasamninga. Næstmesta hækkunin er 8,2 milljarðar kr. vegna sjúkrahúsþjónustu þrátt fyrir tillögu um 3,9 milljarða kr. lækkun við 2. umræðu frumvarpsins og skýrist bæði af auknum rekstrarheimildum sem og viðbót við byggingu nýs Landspítala. Gjöld til orkumála hækka um 5,9 milljarða kr. en þar er að mestu um að ræða tilfærslu frá tekjuhlið fjárlaga þar sem styrkir Orkusjóðs koma að hluta til í stað niðurfellingar gjalda vegna kaupa á hreinorkubifreiðum. Framlög til húsnæðismála hækka um 4,9 milljarða og endurspegla áherslur stjórnvalda um að stefna að auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði. Munar þar langmest um aukin stofnframlög vegna fjölgunar íbúða innan almenna íbúðakerfisins. Framlög til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa hækka um 4,5 milljarða kr. að raungildi og munar þar mestu um nokkra liði sjúkratrygginga. Framlög til málefnasviðs 10, Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála, hækka um 4,1 milljarð kr. milli ára sem er nálægt 20% hækkun og skýrist alfarið af mikilli hækkun framlaga vegna útlendingamála. Í þessu sambandi vekur meiri hlutinn athygli á tillögu sinni, sem skýrð er í kaflanum um breytingartillögur á gjaldahlið, sem ætlað er að vega á móti útgjaldahækkuninni. Verulegar hækkanir koma einnig til vegna lyfjakostnaðar, 3,6 milljarðar kr., og fjölskyldumála, upp á 2,3 milljarða, sem skýrist af hækkun barnabóta og samgöngumála upp á 2,6 milljarða kr. þar sem fjárheimildir til nýframkvæmda og viðhalds á vegakerfinu hækka auk þess sem ráðstöfun varaflugvallargjalds upp á 1,6 milljarða kr. kemur inn sem hækkun.

Raunlækkun milli ára kemur fram í nokkrum tilfellum. Í nokkrum tilfellum skýrist það af lækkun stofnkostnaðar þegar stórum verkefnum lýkur. Dæmi um það er t.d. hjá Alþingi og vegna byggingar hjúkrunarheimila. Langmesta lækkunin kemur fram í málefnum aldraða þar sem við endurmat fyrir 2. umræðu frumvarpsins kom fram að áætlaðar tekjur ellilífeyrisþega eru hærri en áður var áætlað og kemur þar hvort tveggja til að fjármagnstekjur hafa aukist auk þess sem yngstu ellilífeyrisþegarnir eru með mun hærri lífeyristekjur heldur en þeir sem eldri eru. Næstmesta lækkunin er hjá hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, þrátt fyrir raunhækkun til reksturs heimilanna, þar sem meira vegur niðurfelling fjárfestingarframlags til byggingar hjúkrunarheimila. Það kom inn á árunum 2020–2023 vegna framkvæmdaáætlunar um byggingu hjúkrunarheimila í samræmi við stefnu um fjölgun hjúkrunarrýma. Uppsafnað fjármagn að fjárhæð 10,5 milljarða kr. verður nýtt til áframhaldandi uppbyggingar á framkvæmdaáætlun um byggingu hjúkrunarheimila. Lækkun á málefnasviði um nýsköpun og þekkingargreinar skýrist nær alfarið af því að tímabundin framlög vegna heimsfaraldurs til samkeppnissjóða í rannsóknum, nýsköpun og tækniþróun falla niður.

Efnahagsforsendur frumvarpsins byggjast á spá frá Hagstofu Íslands. Spáin fyrir næsta ár gefur til kynna að hagkerfið muni leita jafnvægis með hóflegum hagvexti og lækkandi verðbólgu. Á þessu ári hefur verið verulegur hagvöxtur, sérstaklega á fyrri hluta árs. Útlit er fyrir að verðbólgan í ár hafi verið að meðaltali um 8,7%. Í forsendum frumvarpsins er gert ráð fyrir að verðbólga fari niður í 4,9% og að hagvöxtur verði um 2,6%. Í nóvember gaf Seðlabanki Íslands út nýja efnahagsspá og var sú spá nokkuð svipuð því sem kemur fram í forsendum frumvarpsins.

Nokkur breyting er í uppfærðri spá Hagstofu Íslands frá efnahagsforsendum frumvarpsins, sem birtist í nóvember. Í uppfærðri spá er nú gert ráð fyrir að nokkuð hægi á hagvexti á næsta ári og hann verði um 2,1%. Helsta skýringin á þessari breytingu er að samkvæmt nýjustu tölum þjóðhagsreikninga þá var hagvöxtur fyrir árið 2022 7,2% í stað 6,4%. Þetta gerir það að verkum að grunnur landsframleiðslunnar er hærri en gert var ráð í upphaflegum forsendum frumvarpsins sem lækkar hlutfallslega breytingu á milli 2023 og 2024 og kemur það fram í lægri hagvaxtarprósentu. Á næsta ári er gert ráð fyrir að einkaneysla aukist um 1,9% samanborið við 2,2% í síðustu spá. En verðbólga og vextir hækka á milli spáa sem hefur neikvæð áhrif á ráðstöfunartekjur og hagvöxt. Þá er spá um fjárfestingar lækkuð úr 3,4% í 0,4% og ber þar hæst að spá um að íbúðafjárfesting dragist saman í ár og á næsta ári um 1,3% og 4,1%. Reiknað er með að íbúðafjárfesting taki við sér árið 2025 og aukist þá um 5,4% og 4,1% árið 2026.

Þá kemur einnig fram að verðbólga á næsta ári verður eilítið hærri en miðað við upphaflegar forsendur. En verðbólgan hefur verið seig og er að lækka nokkuð hægar en vonast var til. Verðbólgan hefur verið þrálát á þessu ári og stendur nú í 7,9%. Þótt verðbólgan hafi farið lækkandi eru verðbólguvæntingar enn háar, bæði til skemmri og lengri tíma. Mikilvægt er að aðhald Seðlabankans í peningastefnunni fari að hafa þannig áhrif að bæði verðbólga og verðbólguvæntingar lækki enn frekar. Ýmis atriði gætu þar haft áhrif og þar á meðal útkoma í kjarasamningum en í forsendum frumvarpsins er gert ráð fyrir að laun hækki um 5,6%. Ef forsendur frumvarpsins ganga eftir er líklegt að meginvextir Seðlabankans séu nú komnir í hámark og gætu tekið að lækka á næsta ári.

Eins og áður sagði eru kjarasamningar á næsta leiti og losna á vinnumarkaði vorið 2024. Ríkið er stærsti atvinnurekandi landsins og laun eru einn stærsti útgjaldaliðurinn. Mikilvægt er að gerðir séu langtímasamningar sem byggist á framleiðniaukningu og að samningarnir stuðli að lækkun verðbólgu og létti þar með þrýstinginn á meginvexti Seðlabankans öllum til heilla.

Það fjárlagafrumvarp sem hér er lagt til er aðhaldssamt sem er mikilvægara nú en oft áður. Það er gríðarlega mikilvægt að ríkisfjármálin gangi í takt við peningamálastefnu Seðlabankans í því sameiginlega markmiði að ná hér niður verðbólgu og þar með vöxtum í landinu. Það er stærsta verkefnið okkar í dag. Takist það mun það hafa jákvæð áhrif á fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja í landinu.

Viðbætur milli umræðna við fjárlagafrumvarpið voru með því minnsta sem sést hefur og ríkisstjórnin gerði tillögur til nefndarinnar sem fólu í sér lítils háttar hækkun frumgjalda en í umfjöllun fjárlaganefndar var niðurstaðan að lækka þá aukningu um 650 millj. kr. sem veitir aukaaðhald í ríkisrekstrinum. Slíkt er fáheyrt og er þetta gert þrátt fyrir að taka af aðhaldskröfu til lögreglu, landhelgisgæslu, styrkingu á atvinnuráðgjöf á landsbyggðinni, styrkingu inn í sóknaráætlanir landshluta, auk fjölmargra framlaga til sjálfseignarstofnana á velferðarsviði og styrkveitingar til eflingar menningu og safnastarfi um allt land og áfram mætti lengi telja. Sú ákvörðun að hækka krónutöluhækkanir um 3,5%, sem er töluvert undir verðbólguspá næsta árs upp á 5,6%, er liður í því að halda aftur af hækkunum og tala inn í komandi kjarasamninga.

Það er mikilvægt að í þessu stóra verkefni taki allir höndum saman. Það er sú leið sem er líklegust til að skila okkur þeim árangri sem við sækjumst eftir. Það er mikilvægt að sveitarfélög landsins komi með á vagninn og fylgi fordæmi ríkisins er kemur að gjaldskrárhækkunum. Hagsmunir sveitarfélaga af því að ná niður vaxtastigi í landinu og langtímakjarasamningum með hógværum hækkunum er gríðarlegur og langt umfram þær hækkanir sem þau ná fram með hækkun á gjaldskrá. Að því sögðu er hins vegar ljóst að möguleikar sveitarfélaganna til að ná sér í tekjur eru miklum mun takmarkaðri heldur en ríkisins. Það er mikilvægt að tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga sé endurskoðuð, sér í lagi ef stefnan er sú til framtíðar að færa til þeirra frekari verkefni.

Það er mikilvægt í þessu samhengi að finna varanlega lausn á fjármögnun málefna fatlaðs fólks. Stór skref hafa verið stigin í þá átt með 5 milljarða kr. framlagi á þessu ári og 6 milljarða kr. framlagi á því næsta með lækkun tekjuskatts og hækkun á útsvari á móti. Samtalið þarf að halda áfram þar til lausn sem báðir aðilar geta sætt sig við verður í sjónmáli. Það má ekki gleymast í þessari umræðu að málaflokkurinn er viðkvæmur líkt og þjónustuþegar hans og mikilvægt að ekki komi til skerðingar eða takmörkunar á þeirri þjónustu til framtíðar litið.

Í frumvarpinu er almennt gert ráð fyrir að lögreglan sé undanþegin almennri aðhaldskröfu en hlutdeild málaflokksins í sértækum afkomubætandi aðhaldsráðstöfunum á málefnasviðinu nemur 138 millj. kr. Rekstur lögreglunnar er að stærstum hluta í mjög föstu formi, fastir rekstrarliðir, svo sem laun og launakostnaður, rekstur fasteigna, rekstur ökutækja sem og rekstur kerfa lögreglunnar. Gera má ráð fyrir því að fastur kostnaður lögregluembættanna sé um 90% af heildarkostnaði embættanna. Á síðustu árum hefur verið bætt í rekstrargrunn lögreglu til að gera lögregluna betur í stakk búna til að takast á við þau verkefni sem henni ber að sinna lögum samkvæmt, stytta viðbragðstíma, stytta málsmeðferðartíma, auka öryggisstig og þjónustustig, sérstaklega á landsbyggðinni og fjölga menntuðum lögreglumönnum. Það er mat meiri hluta fjárlaganefndar að með tillögum hans fyrir 2. umræðu frumvarpsins sé áfram haldið á þeirri braut sem mörkuð hefur verið í eflingu lögreglunnar.

Landhelgisgæslan og rekstur hennar hefur mikið umtals- og áhyggjuefni síðustu ár enda reksturinn verið þungur og uppsafnaður halli á rekstri orðinn byrði á stofnuninni. Á þessu er tekið í þessum fjárlögum og er gert ráð fyrir að fella bæði niður aðhaldskröfu sem og sértæka aðhaldskröfu á Landhelgisgæsluna sem gefur stofnuninni um 240 millj. kr. í aukið rekstrarframlag á næsta ári. Eins er gert ráð fyrir því í fjárauka að taka á uppsöfnuðum halla Gæslunnar. Það er hins vegar ljóst að þó að þessar aðgerðir komi til þarf að endurskoða rekstrargrunn Landhelgisgæslunnar í næstu fjármálaáætlun þannig að sú staða sem uppi er nú endurtaki sig ekki á hverju ári og fjárlaganefnd og Alþingi þurfi að grípa inn í með þessum hætti. Landhelgisgæslan er grunnstofnun og gegnir veigamiklu öryggishlutverki, ekki síst nú þegar við höfum ítrekað á síðustu árum verið á neyðar- og hættustigi almannavarna þar sem Landhelgisgæslan gegnir stóru hlutverki í almannavarnakerfi okkar. Eins er ekki hægt að líta fram hjá hlutverki Gæslunnar við að vakta okkar ytri landamæri nú á stríðstímum í Evrópu.

Staða íslensks landbúnaðar er alvarleg og stendur greinin höllum fæti. Við þeirri grafalvarlegu stöðu þarf að bregðast og það hefur komið fram að tillagna er að vænta frá ríkisstjórn þess efnis á næstunni og munu viðbætur vegna þeirra koma fyrir 3. umræðu fjárlaga. Eins er gert ráð fyrir fjármagni í málaflokkinn í fjárauka fyrir árið 2023 sem verður til umræðu hér á næstu dögum. Að mínu mati þarf að laga grunninn til framtíðar. Þó svo að þær tillögur sem er að vænta taki ekki á því þá er nauðsynlegt að vel takist til við endurskoðun á búvörusamningum en tryggja þarf að einhverjir bændur verði eftir til þess að semja við þegar að því kemur.

Í yfirferð fjárlaga kom fram skýr krafa Sambands íslenskra sveitarfélaga, einstakra sveitarfélaga og landshlutasamtaka um að hækka framlög til sóknaráætlunar í sambærilega upphæð og var fyrir árið 2023. Framlög til sóknaráætlunar voru hækkuð sem Covid-aðgerð stjórnvalda og stóð til að þau yrðu lækkuð aftur í fyrra horf í fjárlögum. Það er mat okkar að mikilvægi sóknaráætlunar fyrir landshluta og hinar dreifðu byggðir sérstaklega sé umtalsvert og því mikilvægt að halda framlaginu óbreyttu áfram milli ára. Eins komu fram athugasemdir frá sömu aðilum um að fjármagn til atvinnuráðgjafa yrði hækkað en fjárheimild þess liðar gegnir sömu lögmálum og sóknaráætlun og var Covid-aðgerð sem var lækkuð nú. Því er lagt til að upphæðin hækki um 35 millj. kr. í áliti meiri hluta fjárlaganefndar.

Heilbrigðisþjónusta er langstærsti einstaki liðurinn í þessum fjárlögum en alls fer um 161 milljarður til sjúkrahúsþjónustu, 80 milljarðar í hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, 89 milljarðar í heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa og 42 milljarðar í lyf og lækningavörur, alls um 372 milljarðar kr. sem er aukning um 13 milljarða á milli fjárlaga. Alls hefur raunaukning í heilbrigðiskerfinu numið meira en 50 milljörðum kr. eða um 16% frá 2021. Má nefna 3,9 milljarða kr. aukningu til þess að koma til móts við aukna eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu vegna fólksfjölgunar og öldrunarar þjóðarinnar sem og að fjárheimildir til reksturs nýrra hjúkrunarrýma, sem gert er ráð fyrir að verði tekin í notkun á næsta ári, verða auknar um 2,2 milljarða. Þá er gert ráð fyrir að settir verði um 25 milljarðar í byggingu nýs Landspítala á næsta ári sem er langstærsta einstaka framkvæmd ársins 2024. Upphaflega stóð til að settir yrðu um 30 milljarðar í framkvæmdina á næsta ári en uppfærðar áætlanir sýna að ekki verður hægt að framkvæma fyrir þá upphæð og því var upphæðin lækkuð um 4 milljarða frá fyrstu áætlun sem birtist við 1. umræðu fjárlaga.

Ein af breytingum fjárlaganefndar er að lækka framlag til félagsmálaráðuneytisins um 400 millj. kr. vegna flóttamanna og hækka framlög til dómsmálaráðuneytisins um 200 millj. kr. með það að markmiði að auka skilvirkni umsóknakerfisins og flýta afgreiðslu umsókna. Með því er talið að spara megi umtalsverða fjármuni sem og að auka skilvirkni kerfisins og flýta afgreiðslu.

Einnig langar mig að benda á að lögð er til ein tillaga vegna lánsfjármála þar sem fasteignum háskólans er heimilað að taka 2,5 milljarða kr. lán frá ríkissjóði til að endurgera fasteignina að Hagatorgi 1, gamla hótel Saga. Framkvæmdir eru á áætlun og stefnt er að flutningi í húsið haustið 2024 en ráðgert er að heildarkostnaður við endurgerð hússins nemi 3,6 milljörðum kr.

Lagðar eru til samtals sjö tillögur við 6. gr. fjárlaga en sú grein veitir fjármála- og efnahagsráðherra ýmsar heimildir til að kaupa, leigja eða selja fasteignir og jarðir auk ýmissa annarra heimilda sem nauðsynlegt getur reynst að nýta á fjárlagaárinu. Meðal tillagna sem gerðar eru nú er heimild til að stofna félag sem verði í sameiginlegri eigu ríkis og borgar sem yrði falið að annast byggingu þjóðarhallar í Laugardal. Fyrir liggur frumathugun sem unnin var af sérstakri framkvæmdanefnd í desember 2022 er lýtur að staðarvali og helstu forsendum er varða mannvirkið. Miðað er við að hlutverk þjóðarhallar verði fjölnota mannvirki fyrir íþróttir, menningu, kennslu og viðburði.

Hér í lokin vil ég gera stuttlega grein fyrir 40 millj. kr. breytingartillögu sem ég legg fram nú og byggir á ákvörðun um að stofna loftslagshamfarasjóð í samræmi við samkomulag sem náðist á yfirstandandi ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Dúbaí. Gert er ráð fyrir að stofnframlag Íslands í sjóðinn verði 80 millj. kr. Miðað er við að utanríkisráðuneytið leggi til 40 milljónir til sjóðsins innan síns ramma en því til viðbótar verði 40 milljónir í ný framlög.

Virðulegur forseti. Ég hef hér stiklað á stóru varðandi fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2024 og reifað helstu breytingar sem orðið hafa á milli umræðna. Stóra myndin er þessi: Við erum að leggja fram aðhaldssöm fjárlög sem munu slá á þenslu í samfélaginu og halda aftur af ríkisútgjöldum. Til að vega á móti aukningu útgjalda milli umræðna hefur meiri hluti fjárlaganefndar lagt til niðurskurð sem nemur 650 millj. kr. til að koma enn betur til móts við það markmið. Slíkt er fáheyrt. Krónutöluhækkanir eru 3,5% sem er sömuleiðis hluti af því verkefni að ná niður verðbólgu og vaxtastigi í landinu. Ábyrgð ríkisvaldsins er mikil í því en til þess að vel megi takast þurfa allir að leggja sín lóð á vogarskálarnar. Þannig mun okkur farnast best. Þrátt fyrir aðhald í fjárlagafrumvarpinu stöndum við vörð um velferðina og heilbrigðiskerfið þar sem aukið er í milli ára ásamt löggæslu og landhelgisgæslu.

Virðulegur forseti. Ég ætla að láta staðar numið hér í yfirferð minni um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2024 en að endingu vil ég ítreka þakkir til nefndarmanna fjárlaganefndar fyrir gott samstarf í nefndinni við vinnslu frumvarpsins. Ég þakka fyrir góðar umræður og ábendingar nefndarmanna.