154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:29]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Norðvest. fyrir svarið. Til gamans þá er þetta orðrétt, held ég, sama svar og fyrrverandi formaður nefndarinnar svaraði mér við sama tilefni fyrir ári síðan þannig að bara svona til áréttingar til síðari tíma nota þá held ég að það væri skynsamlegt fyrir fjárlaganefnd, ef ég mætti leggja mitt lóð á vogarskálarnar, að greina hvernig skiptingin er milli rekstrar og fjárfestinga í þeim útgjaldavexti sem er hjá hinu opinbera. En í byrjun nefndarálitsins er talað um óvissu vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga og segir hérna, með leyfi forseta: „Í ljósi óvissunnar má gera ráð fyrir breytingum við 3. umræðu frumvarpsins.“ Svo segir áfram í næstu setningu, með leyfi forseta: „Meiri hlutinn telur koma til greina að endurmeta önnur útgjöld til lækkunar …“ Mig langar til þess að spyrja formann fjárlaganefndar, því nú hljóta að liggja fyrir einhverjar greiningar í ljósi þess að það á að fresta hér þingi í lok næstu viku: Hver eru helstu atriði? Er einhver grófur rammi hvað útgjaldaþáttinn varðar? Til hvaða átta er verið að horfa hvað varðar að endurmeta önnur útgjöld til lækkunar?