154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir seinna andsvarið. Ég tek „hintið“ og ég mun vera kominn með þessar tölur á næsta ári, ég læt ekki grípa mig tvisvar í þessum stól án þess að geta svarað rútínuspurningu þingmannsins sem virðist vera hér ár eftir ár. Varðandi Reykjanesið þá er það rétt að það eru að koma tillögur núna fyrir 3. umræðu og raunar var fjárlaganefnd tilkynnt að það kæmu tillögur ríkisstjórnarinnar fyrir 3. umræðu. Ég veit ekki hverjar þessar tillögur eru enn þá, ég hef ekki séð þær. Varðandi þann punkt þar sem við tölum um að það komi til greina að fresta öðrum framkvæmdum þá er hann settur inn einfaldlega á þeim tímapunkti þegar við í raun og veru höfðum ekki hugmynd um hvers lags viðburð við værum að horfa upp á. Ef hann væri af þeirri stærðargráða að hann myndi hafa verulega efnahagslega íþyngjandi áhrif fyrir íslenska þjóð og íslenskan ríkissjóð þá fannst meiri hluta fjárlaganefndar eðlilegt að við myndum reyna að skoða hvort við gætum frestað einhverjum fjárfestingarverkefnum þar á móti. (Forseti hringir.) Það er hins vegar mín von núna að til þess komi ekki og mér sýnist ekki að það þurfi að koma til þess miðað við hvernig ástandið er núna. (Forseti hringir.) Þetta var einungis sett þarna inn sem varúðarfærsla.