154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:33]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það var býsna víða farið og sumt svolítið í þoku og annað var verið að reyna að setja í eitthvert samhengi hlutanna. Hv. þingmaður hefur verið gjarn á að tala um að gera huglæga hluti hlutlæga. Hann gagnrýnir líka hagfræðina og hugtökin þar sem við erum nákvæmlega að reyna að gera huglæga hluti hlutlæga í gegnum hagfræðina, eins og ákveðna kaupmáttaraukningu, hagvöxt og slíka hluti þannig að við vitum og höfum eitthvað til að fastsetja hluti og gefa okkur einhverja mynd af þessari stöðu. Í nefndaráliti 1. minni hluta, í kafla sem hv. þingmaður kallar Stöðugleikinn, er skotið á Sjálfstæðisflokkinn og ég hafði tiltölulega gaman að því vegna þess að mér fannst þetta bara ein þvæla, þessi stöðugleiki. Mjög slæmt og lélegt að taka akkúrat þessi 30 ár í hagsögu þjóðarinnar. Ef við tökum bara sjö ára tímabil frá 2013 til 2020 þá var meðalverðbólgan 2,4%. En hvað gerðist þarna 2019 og 2020 og hvað gerðist 2022? Jú, WOW air féll í mars 2019. Við munum það sameiginlega úr fjárlaganefnd þess tíma að það vakti töluvert viðbragð í nefndinni og í ríkisfjármálunum. Það var talað um að þetta yrði áfall upp á 30 milljarða fyrir ríkissjóð. Árið 2020 kom Covid í mars, heimsfaraldur, og svo innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022. Ég spyr bara: Hvað er hægt að gera í svona ástandi til að skapa stöðugleika? Og ef við skoðum sögu síðustu tíu ára þá held ég að það sé ekki hægt að tala eins og hv. þingmaður talar um þetta í sögulegu samhengi.