154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:38]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta andsvar þótti mér frekar klént. Hvort sem við tökum 1990, 1991 síðustu 30 árin eða tökum síðasta áratuginn — tökum bara síðustu 100 ár á Íslandi. Árið 1926 verða Íslendingar 100.000. Þá vorum við fátækasta land Evrópu eða eitt af þeim og það hefur breyst töluvert mikið á síðustu 100 árum. Síðan 1990, hvort sem við tökum það ár eða síðustu tíu árin eða hvað, þá hefur kaupmáttur í þessu landi vaxið gríðarlega. Ráðstöfunartekjur hafa vaxið mjög mikið og mér er til efs að það séu mörg ríki í Evrópu sem hafa upplifað nákvæmlega svona skeið. Við getum tekið þetta yfir langan tíma. Það verður að hafa eitthvert samhengi hlutanna. Hvað er það sem við erum að eltast við í grunninn þegar við erum að reyna að meta uppbyggingu lands, hvernig okkur gengur efnahagslega? Er það ekki farsæld í samfélaginu, hvernig fólk hefur það, hvernig við byggjum upp menntakerfi, hvernig við byggjum upp heilbrigðiskerfið, hvernig við sinnum öryggismálum þjóðarinnar? Ég efast um að það séu mörg samfélög sem hafa varið jafn miklu fjármagni í uppbyggingu í samfélögum eins og við erum búin að upplifa nákvæmlega hér, hvort sem við tökum síðasta áratuginn eða síðustu þrjá áratugi eða síðustu 100 árin, það eru ekki mörg samfélög sem hafa búið við þetta. Það er það sem við verðum að tala um og við verðum að hafa eitthvað til þess að bera þessa hluti saman. Það hefur verið svolítið merki Pírata, þess flokks, þegar við tölum um efnahagsmálin, að gera lítið úr því sem er notað til að meta hlutina, fá einhvern grunn í umræðunni. Ég heyrði ekki betur en að hv. þingmaður hafi komið í ræðu sinni áðan inn á þjónustuviðmið, reyna að gera huglæga hluti hlutlæga. Það er það sem ég var að tala um áðan, að það sé eitthvað til að grípa um. Þá þætti mér vænt um ef hv. þingmaður myndi kannski svara betur því sem ég er að spyrja um: Hefur okkur vegnað vel síðustu tíu ár, (Forseti hringir.) metið út frá ráðstöfunartekjum, kaupmætti, að byggja upp samfélag, byggja upp hag íbúa landsins?