154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:42]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir ræðuna og ég ætla að taka undir sumt af því sem hér var sagt. Ég er þeirrar skoðunar að þetta fjárlagafrumvarp gangi alls ekki nógu langt í því að koma okkur eitthvað áfram í baráttunni gegn verðbólgu. Það er algerlega óásættanlegt að stýrivaxtastigið sé að festast í þessari tölu til lengri tíma eins og blasir við. En mig langaði samt að spyrjast fyrir um hjá hv. þingmanni um ákveðna hluti sem snúa að þeim breytingartillögum sem Flokkur fólksins er að gera núna. — Væntanlega er klukkan ekki rétt hjá mér. Það er talað um að stöðva áframhaldandi bankasölu. Eins og við vitum er gert ráð fyrir því að selja helminginn á eftirstandandi hlut í Íslandsbanka á næsta ári og restinni síðan á árinu þar á eftir. Það eru áformin. Við vitum svo sem ekki nákvæmlega hvað kemur fyrir hlutinn en þetta gætu verið í kringum 40 milljarðar og það munar nú um minna í ríkisrekstrinum en þessar fjárhæðir. (Forseti hringir.) Ég er reyndar þeirrar skoðunar …

(Forseti (LínS): Það er bara ein mínúta til andsvara þegar það eru fjórir.)

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að svona einskiptistekjur eigi helst að fara í það að greiða niður skuldir og þarna erum við að tala um 80 milljarða á næsta og þar næsta ári. Ég vil reyndar selja Landsbankann líka til að grynnka á skuldum en það er kannski lengri tíma mál. (Forseti hringir.) Hvernig hyggst Flokkur fólksins mæta þessu tekjutapi ríkissjóðs?

(Forseti (LínS): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörk. Þegar fjórir þingmenn eru til andsvara þá gefst bara ein mínúta.)