154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:45]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það var komið inn á vaxtamuninn í ræðu hans áðan, skort á samkeppni á fjármálamarkaði og verðtrygginguna og sitthvað fleira. Allt eru þetta hlutir sem snúa að mjög sterku leyti beint að því að við erum með sveiflóttan gjaldmiðil sem ekki nokkur einasti aðili úti í heimi hefur nokkurt traust á. Það er nú eitt af því sem ég vildi nefna hér. Hækkun á bankaskattinum upp á 30 milljarða er ansi brött, verð ég að segja. En ég hnýt hins vegar um annað, sem er hækkun á veiðigjöldum. Nú er ég sammála hv. þingmanni í því að útgerðin getur greitt meira til samfélagsins fyrir réttinn til þess að veiða í fiskveiðilögsögunni en það er talað um markaðsverð fyrir aðgang að auðlindinni. Við í mínum flokki höfum skilgreint þetta þannig að það væri rétt að bjóða upp heimildir og finna þannig út markaðsverðið frekar en að einhver reikniregla, (Forseti hringir.) sem ákveðin er hér í þessum sal og einhverjir sérfræðingar fara eftir, ákvarði það. Mig langar að (Forseti hringir.) fá það fram hjá hv. þingmanni: Hvernig ætlar Flokkur fólksins að finna út markaðsvirðið?