154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:49]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi íbúðafjárfestingu þá les ég hér á bls. 5 í áliti meiri hlutans þar sem segir, með leyfi forseta:

„[B]er þar hæst að spá um að íbúðafjárfesting dragist saman í ár og á næsta ári um 1,3% og 4,1%. Reiknað er með að íbúðafjárfesting taki við sér árið 2025 og aukist þá um 5,4% og 4,1% árið 2026.“

Það sem hefur verið drifkrafturinn í hækkandi íbúðaverði í landinu er skortur á húsnæði. Við erum ekki að framleiða nógu mikið. Framboð af húsnæði er ekki nógu mikið. Eftirspurnin er meiri en framboð. Það leiðir til hækkunar. Það er það sem er stóra vandamálið og ríkisstjórnin hefur ekki verið nægjanlega öflug í að stuðla að því að það verði aukið framboð. Ég man að í fyrstu fjárlagaumræðunni okkar þá var minni hlutinn með sameiginlega tillögu um aukið stofnframlag ríkisins í húsnæðisliðnum. Því var hafnað.