154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:51]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að það sé nú eitthvað verið að rugla saman hugtökum vegna þess að það er alveg ljóst að framlög til húsnæðismála eru að hækka um 4,9 milljarða á milli ára sem endurspeglar stefnu stjórnvalda um að koma á jafnvægi á húsnæðismarkaði. En mig langaði aðeins að forvitnast til viðbótar vegna þess að ég sakna þess aðeins í öllum þessum breytingartillögum frá Flokki fólksins að það séu engar tillögur um það hvernig við getum byggt upp meira. Ég er alveg sammála þingmanninum um að það sem er kannski okkar mesta áskorun á næstu mánuðum er einmitt að tryggja meira framboð á húsnæði og byggja meira vegna þess að við getum lent í ógöngum ef það verður ekki gert. Það getur valdið okkur erfiðleikum við að ná tökum á verðbólgunni á næstu mánuðum og árum. Mig langar að forvitnast um hvaða leiðir þingmaðurinn sér fyrir sér í því, hvernig við getum byggt meira, af því að við erum ekki bara að tala um almenna kerfið heldur erum við líka að tala um húsnæði fyrir hið venjulega millitekjufólk.