154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:55]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Vil ég leggja til að yfirgefa EES-samstarfið? Nei, ég er ekki að leggja það til, ég hef hingað til verið stuðningsmaður EES en ég sé fram á það að þessi samningur muni ekki duga okkur. Ég var í Brussel í síðustu viku og átti þar samtöl við þingmenn, mjög fróðleg samtöl. Þeir eru að fara í strategíska stækkun og líka dýpkun á samstarfinu og ég spurði sérstaklega að því: Mun það leiða til dýpkunar á EES-samningnum? Já, það mun gera það. Þeir ætla að fara núna í sáttmálagerð eins og Lissabon, Amsterdam og Nice þar sem samstarfið er dýpkað. Þessir þrír sáttmálar sem ég taldi upp komu eftir EES. Það kemur ný sáttmáli fljótlega sem mun dýpka samstarfið og það mun uppfæra EES-samninginn. Við verðum ekki spurð álits á því þannig að ég sé ekki framtíð fyrir EES-samninginn til lengri tíma litið. Það verður að stokka hann upp eða við sogumst inn í samrunaþróun ESB. Við vorum aldrei spurð að því við samningana 1993, svo það liggi fyrir. Varðandi fólksfjölgunina þá erum við að skoða það og ég tel t.d. að það eigi að hækka gistináttagjaldið mikið. (Forseti hringir.) Ég tel líka að við eigum að skoða það að hækka virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna og hún borgi sanngjarnan skerf eins og ég kom inn á í ræðu minni. (Forseti hringir.) Það tel ég vera grundvallaratriði vegna þess að fólksfjölgun er drifin áfram af ferðamannaiðnaðinum og svo hælisleitendum.