154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:58]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi EES-samninginn þá skrifum við undir samninginn 1993, hann tók gildi 1. janúar 1994. Þegar ESB-ríkin eru að uppfæra sín megin með sáttmálum sínum; Nice, Amsterdam og svo kemur Lissabon 2009, þá er efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu í sumum ríkjanna. Við gerum ekki neitt. Við tökum á móti tilskipununum, meira að segja um raforkuviðskipti yfir landamæri, en eigum í engum raforkuviðskiptum yfir landamæri. Við þurfum að endurskoða rammann fyrr eða seinna á þessu samkomulagi, þessu dýnamíska samkomulagi, svo það liggi fyrir. Við getum ekki sogast inn í eitthvert samstarf sem við samþykktum aldrei í upphafi.

Varðandi fólksfjölgun og hælisleitendur. Við stjórnum okkar landamærum, það er fullveldisréttur okkar. Við getum neitað því að taka á móti flóttamönnum þegar við teljum að það sé komið nóg. Við getum gert það. Í Þýskalandi eru þeir búnir að auka eftirlitið á sínum landamærum. Það hefur dregið úr komu flóttamanna þangað. Þetta er vandamál í Bretlandi. Þetta er vandamál í Hollandi. (Forseti hringir.) Þar var kosinn flokkur sem hefur þetta á stefnuskránni. Það er 21% flokkur í Svíþjóð sem berst fyrir þessu. (Forseti hringir.) Ég vil ekki fá þannig umræðu inn í Ísland. Ég var ekki kosinn til að breyta Íslandi (Forseti hringir.) og segja að 30–40% af Íslendingum, íbúum þessa lands eigi að vera af erlendu bergi brotin, erlendir ríkisborgarar. (Forseti hringir.) Við vorum ekki kosin til að gera þessa grunnbreytingu á íslensku samfélagi.

(Forseti (LínS): Forseti vill minna hv. þingmann á að virða ræðutíma. )