154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:59]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil gjarnan fá að ræða aðeins við hv. þingmann um samhengi hlutanna sem mér finnst við gera of lítið hér í þessum ágæta sal. Mig langar aðeins að velta fyrir mér áhrifum skattahækkana og hvort hv. þingmaður hafi velt þeim fyrir sér alveg til enda. Það er vitað að skattahækkanir á fyrirtæki sem hljóma í eyrum margra sem alltaf af hinu góða enda að lokum alltaf á viðskiptavinum þess fyrirtækis. Alveg eins er skattahækkun á banka fyrst og fremst skattahækkun á skuldsett heimili. Mig langar því að velta fyrir mér, þar sem tillaga Flokks fólksins kveður á um sexföldun á bankaskatti eða um 31 milljarð, hvaða áhrif hv. þingmaður telur að það hafi á venjuleg skuldsett heimili og húsnæðislán þeirra.