154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:00]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Flokkur fólksins er ekki skattahækkunarflokkur. Við trúum á einkaframtakið og vitum það að verðmætasköpun í samfélaginu er mjög mikilvæg. Það sem við erum hins vegar að horfa upp á er að atvinnugrein hérna, ein stærsta atvinnugrein samfélagsins, borgar lægri virðisaukaskatt heldur en aðrar greinar. Við erum að horfa á það að gistináttagjaldið á að vera 300 kr. á fimm stjörnu hóteli og 300 kr. á nótt á tjaldstæðinu. Við þurfum að fara að skoða það að leggja meiri álögur á þessa grein og það er ekki á íbúa landsins nema að hluta til, sem eru þá ferðamenn í eigin landi. Hingað koma 2,2–2,3 milljónir ferðamanna og þetta er skattur sem er í öllum ríkjum. Við verðum líka að ákveða í hvernig landi við viljum búa í. Viljum við búa þar sem eru láglaunaatvinnugreinar eða ekki? Varðandi þessa hækkun á bankaskatti mun hún leiða til 31 milljarðs kr. tekjuaukningar í ríkissjóð. (Forseti hringir.) Hagnaður bankanna er 80 milljarðar. Það verða þá 49 milljarðar eftir til skiptanna hjá bönkunum ef þetta verður að raunveruleika, (Forseti hringir.) það myndi lækka hagnaðinn, vera greitt með hluta af hagnaði á endanum.