154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:50]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það væri nú gaman að hafa aðeins meiri tíma til að ræða við hv. þingmann um ýmislegt sem hér kom fram en mig langar kannski aðeins að staldra við að það er að mínu viti ekki tekjuvandi í ríkisfjármálunum heldur útgjaldavandi og ég heyri lítið af tillögum þar að lútandi í málflutningi hv. þingmanns fyrir hönd Samfylkingarinnar. Það virðist einnig vera sem hér hafi hvorki verið heimsfaraldur né stríð í Evrópu með sínum afleiðingum. Mig langar að nefna að við erum með öll tæki og tól til að gera eins vel og hægt er hér á landi, við erum með góða afkomu í alþjóðlegum samanburði en staðan núna er snúin og þess vegna verður að vera áhersluatriði okkar allra að reyna að ná tökum á verðbólgu og þar af leiðandi vöxtum. Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Styður hún norrænt velferðarkjaramódel, eins og hún talar um þar sem er fyrst skoðað hvað er til skiptanna áður en því er skipt? (Forseti hringir.) Mun Samfylkingin styðja vegferð Sjálfstæðisflokksins í að reyna að færa það lagaumhverfi í þá átt?