154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er tekið á mörgu og ég ætla kannski að einbeita mér, a.m.k. til að byrja með, að barnabótahliðinni. Ég held að margir geti tekið undir að það væri ákjósanlegt ef þessi staða væri ekki uppi í Reykjavík og víða annars staðar. Vissulega er fjöldi barna í Reykjavík á ákveðnum biðlista. Ég held að við verðum í því samhengi hins vegar að hafa í huga að börn eru ekki börn bara í þetta eina ár sem þau bíða á biðlista eftir að komast á leikskóla. Börn eru ekki börn bara í þessi þrjú, fjögur ár sem þau eru á leikskóla. Börn eru börn þar til þau verða 16, 17, 18 ára gömul og í norrænum barnabótakerfum eru barnagreiðslur lengur en bara vegna barna á leikskólaaldri. Vissulega er vandi til staðar en hann er mögulega í eitt ár, það er ár sem þarf að laga og þetta er ekki allt leikskólaárið. Ég vil líka vekja athygli á að í umræddri skýrslu um hversu vel er haldið utan um börn á Íslandi er sérstaklega talað um að sveitarfélögin hafi staðið sig vel. Já, hvers vegna hafa sveitarfélög staðið sig vel? Vegna þess að gjöldin hafa verið lág. Nú ætlar flokkur hv. þingmanns m.a. að snúa þessu við, snúa við því sem hefur verið talinn aðalkosturinn í rauninni til að vega á móti lágum barnabótum á Íslandi, sem eru lág leikskólagjöld. (Forseti hringir.) Nú ætlar flokkur hennar að snúa þessu við og rýra þar með hag barnafólks.