154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Auðvitað er það bara ánægjulegt ef þetta var ákveðinn misskilningur, ég er hér bara að lesa beint upp úr orðum formanns Framsóknarflokksins. Vinna og velferð, hvað kemur fyrst? Ein helsta ástæðan fyrir því að við erum með eins mikla atvinnuþátttöku og raun ber vitni er m.a. vegna þess að við byggðum upp velferðarkerfin okkar á sínum tíma og hleyptum konum út á vinnumarkað. Það er ein helsta ástæðan fyrir hagvexti á eftirstríðsárunum. Það er ekki þannig, hænan eða eggið. Þetta vinnur saman. Jafnaðarstefnan gengur út á að sjá að þetta vinni saman. Þegar ég tala um bætur þá snýst það ekkert um að reyna að borga fólki óþarflega miklar bætur. Bætur í landinu eru ekki það háar að fólk sem er á háum tekjum eða eignamikið fái þær. Spurðu bara einhvern hérna inni eða einhvern þarna úti hvort hann hafi fengið barnabætur eða vaxtabætur. Það eru mjög fáir einstaklingar. Þess vegna erum við að leggja áherslu á að það sé samt verið að skerða vaxtabótakerfið þrátt fyrir þessa fáu einstaklinga og ég vil bara vekja hv. þingmenn til umhugsunar um hverjir það eru sem eru að missa af þessum 700 millj. kr. núna í 2. umræðu.