154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:11]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Einkunnarorð þessa fjárlagafrumvarps er í mínum huga orðið fórnarkostnaður. Fjárlagafrumvarp hverrar ríkisstjórnar birtir fyrir hvaða pólitík hún stendur. Pólitískar aðgerðir og aðgerðaleysi hafa áhrif á fólkið sem í þessu landi býr. Mín helsta gagnrýni á þetta fjárlagafrumvarp er að hér vantar ábyrgð og hér vantar réttlæti. Það er auðvelt að sjá ekki skóginn fyrir trjánum í fjárlagaumræðu og ég ætla mér þess vegna ekki að fara mikið ofan í einstaka liði því ég vil ræða hvernig ríkisstjórnarflokkarnir eru að skila af sér þessu verkefni. Ég ætla að fara yfir pólitískan ágreining okkar í Viðreisn við þessa nálgun þeirra því hér er uppi grundvallarágreiningur um hlutverk fjárlaga.

Stærsta verkefni stjórnmálanna núna er viðureignin við verðbólguna. Við verðum að ná henni niður en það er ekki sama hvernig það er gert. Aðferðir ríkisstjórnarinnar eru í mínum huga gagnslausar og af þeim er mikill fórnarkostnaður. Tregða ríkisstjórnarinnar við að takast á við verðbólguna, þessi tregða við að taka sér raunverulegt hlutverk við að koma jafnvægi á hagkerfið og berjast gegn þenslu, hefur orðið til þess að Seðlabankinn hefur þurft að taka mun harkalegri ákvarðanir í vaxtamálum en hann hefði gert ef ríkisstjórnin hefði axlað ábyrgð á sínum þætti málsins. Seðlabankinn hefur núna hækkað stýrivexti 14 sinnum á ekki svo löngum tíma. Þessar stýrivaxtahækkanir svíða sárt og af þeim er gríðarlegur fórnarkostnaður. Nær öllum kostnaði af verðbólgu og vaxtahækkunum er velt yfir á ungt fólk og barnafjölskyldur. Það er af þessari ástæðu sem ungar barnafjölskyldur eru að kikna undan verðbólgu og undan vaxtakostnaði á húsnæðislánum og það þarf að ræða það af alvöru hverjir það eru sem eru að taka þennan fórnarkostnað á sig.

Í því samhengi ætla ég enn og aftur að rifja upp að það hafa aldrei fleiri keypt sér fyrstu íbúð en á árunum 2020 og 2021 er hér rúlluðu auglýsingar um lágvaxtalandið Ísland. Þessi hópur er að taka á sig þungt högg vegna flatra vaxtahækkana á þau sem skulda, ungt fólk og barnafjölskyldur. Fórnarkostnaður síendurtekinna vaxtahækkana er um leið sá að byggingamarkaðurinn og fasteignamarkaðurinn er á leið í frost því vaxtahækkanir hafa neikvæð áhrif á byggingaráform verktaka og fyrir framan nefið á ríkisstjórninni er að teiknast upp næsta fasteignabóla. Fólk sem þráir að losna af leigumarkaði veit að þessi draumur er að verða enn fjarlægari. Ungt fólk í foreldrahúsum mun ekki geta keypt íbúð nema eiga bakland sem aðstoðar. Hvar eru varnir stjórnvalda gegn þessum afleiðingum vaxtahækkana? Hvar eru varnirnar gegn þessari kjarakrísu?

Virðulegi forseti. Fjárlögin í ár eru mikilvægari en oft áður. Hallinn á þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar er sem stendur 47 milljarðar og mun fara hækkandi í 3. umræðu. Þetta er niðurstaðan þrátt fyrir að tekjur ríkisins séu að aukast mjög mikið, þrátt fyrir auknar tekjur ríkisins vegna þenslunnar, og ríkisstjórnin hefur á fundum fjárlaganefndar boðað áfram verulegar lántökur á næsta ári, rándýrar lántökur. Þar vil ég nefna vaxtakostnaðinn eins og ég gerði í andsvörum við formann nefndarinnar fyrr í dag. Vaxtakostnaður íslenska ríkisins er í heimsins hæstu hæðum. Við erum eiginlega Evrópumeistarar ef við værum að keppa um vaxtakostnað og það er ekki titill sem við eigum að vera að sækjast eftir. Vaxtakostnaðurinn á næsta ári verður 117 milljarðar.

Meiri hlutinn talar núna um áframhaldandi sölu í Íslandsbanka en ekki vegna þess að ríkið eigi ekki að eiga marga banka heldur vegna þess að með því að selja bankann þá sé hægt að minnka lánsfjárþörf því lánin eru svo dýr. Þau eru að selja vegna þess hve skuldirnar eru dýrar. Svo það sé sagt þá styð ég áframhaldandi sölu en mér finnst þessi rökstuðningur vera lýsandi fyrir stöðuna. Það er ekki á hugmyndafræðilegum grundvelli sem selja á bankann heldur vegna þess að heimilisbókhaldið krefst þess.

Þegar við skoðum stóru myndina á Íslandi í dag þá blasir annað við en þessi mikli vaxtakostnaður. Það eru skattar á Íslandi. Íslensk heimili og almenningur á Íslandi borgar háa skatta. Um önnur hver króna sem hagkerfið skapar fer í skatta eða í lífeyrissjóði. Þetta er með því allra hæsta sem þekkist í öllum alþjóðlegum samanburði. Um 70% álagðra skatta og gjalda eru síðan borin af þriðjungi þjóðarinnar. Þetta er millistéttin á Íslandi og þetta eru fyrirtækin á Íslandi. Þetta er sama fólk og fær í dag engan stuðning ríkisins í þessum fjárlögum, fólk sem er að borga háa skatta, leggja mikið til samfélagsins og er að brenna upp af háum vaxtakostnaði í dag. Í aðstæðum eins og þessum þarf að sýna forystu í aðgerðum gegn verðbólgu. Það þarf að forgangsraða verkefnum eins og heimilin eru að gera núna í þessu ástandi.

Eins og ég sagði hafa þessi fjárlög meiri þýðingu í ár en oft áður vegna verðbólgunnar og vegna komandi kjarasamninga. Auðvitað er prinsippið að ríkið hafi ekki beina aðkomu en ríkið hefur hagsmuni af því að þessir kjarasamningar fari vel. Ríkið er stærsti atvinnurekandi landsins og á ekki að setjast í það hlutverk að vera beinlínis að torvelda samninga. Markmiðið með þessu frumvarpi ætti auðvitað að vera það að með samþykkt frumvarpsins geti meiri hlutinn á Alþingi lýst yfir því markmiði að vaxtahækkunum muni linna og ég tek eftir því að það gerir enginn þingmaður meiri hlutans hér inni. Við eigum engin tölusett markmið um það að þetta frumvarp muni leiða til þess að vaxtahækkunum linni og það er auðvitað „fundamental“ veikleiki á þessu frumvarpi.

Það eru teikn á lofti í íslensku samfélagi vegna þess að framleiðni er lítil. Þess vegna þarf stefna stjórnvalda að ýta undir fleiri greinar en þær sem einkennast af lítilli framleiðni. Hagkerfið stendur nefnilega ekki undir lífskjaraaukningu miðað við hvernig hagvöxtur hér á landi er að þróast. Meiri hlutinn nefnir þetta sjálfur í áliti sínu, að hagvöxtur á Íslandi geti á næsta ári orðið neikvæður á mann þegar tekið er tillit til fólksfjölgunar. Þetta er áhyggjuefni og þetta er ekki góð framtíðarmúsík fyrir Ísland.

Virðulegi forseti. Viðreisn hefði ekki skilað af sér fjárlagafrumvarpi eins og þessu. Gott samspil fjármála- og peningastefnu skiptir sérstaklega miklu máli á tíma þenslu í hagkerfinu. Rangar ákvarðanir verða þess valdandi og geta orðið þess valdandi að glíman við verðbólguna tapast. Hallarekstur hefur fylgt ríkisstjórninni allt hennar samstarf, í blíðu sem stríðu og algjörlega óháð efnahagsaðstæðum. Það er talað um kostnað vegna heimsfaraldurs en staðreyndin er sú, og tölurnar ljúga ekki þar um, að það var kominn faraldur í fjárlög þessarar ríkisstjórnar löngu fyrir heimsfaraldur, og það verður faraldur í fjárlögum þessarar ríkisstjórnar löngu eftir heimsfaraldur.

Núna glímir ríkisstjórnin við það verkefni að reyna að ná jafnvægi milli tekna og útgjalda og verðbólgan kallar á það að ríkið sé ekki að auka á þensluna. En það er eins og ríkisstjórnin hafi valið sér það leikskipulag að sækja ostaskera og draga hann þvert yfir allt bókhaldið; skera eins og eina jafna sneið af öllum verkefnum. Það aðhald sem hér er lagt til er flatt. Ekkert heimili sem stendur frammi fyrir erfiðleikum myndi nálgast verkefnið með þeim hætti. Ekkert heimili sem þarf að bregðast við erfiðleikum nálgast útgjöldin sín þannig. Útgjöld heimilisins eru ekki öll jafn mikilvæg og þegar þessari aðferðafræði er beitt þá gerist það líka að hér er heldur ekki horft á fórnarkostnaðinn.

Ég vil um aðferðafræði minna á þingsályktun Viðreisnar sem Alþingi samþykkti árið 2018 en ríkisstjórnin setti ofan í skúffu. Hún fjallar um að tryggja gæði, að tryggja hagkvæmni, að tryggja skilvirkni opinberra fjárfestinga; verkfæri sem væri gagnlegt núna við mat á því hvaða skref eigi að stíga í fjármálunum. Auðvitað er þetta erfiðari vinna því það þarf að rýna það hvaða verkefni gætu mögulega farið út, sum jafnvel í heild sinni, raunverulega hagræða verkefnunum en ekki bara fara í flatan niðurskurð og skerða þjónustu. Til að fara í svoleiðis verkefni þarf markvissa pólitík en þá þarf líka sameinaða ríkisstjórn.

Það er síðan sjálfstætt vandamál að ákvarðanir í þessum fjárlögum eru í mörgum tilvikum einfaldlega ekki byggðar á bestu gögnum vegna þess að gögnin eru ekki til. Meiri hlutinn nefnir þetta sjálfur í sínu áliti. Það er nefnt að það vanti gögn um hvaða aðgerðir myndu nýtast best og gagnast best á húsnæðismarkaði núna. Gögnin eru ekki til. Þetta er eitt mikilvægasta svarið um verðbólguna núna. Það er nefnt að það vanti gögn til að byggja ákvarðanir á, frekari ákvarðanir um ferðaþjónustu, það vanti gögn um áhrif af styttingu vinnuvikunnar, það vanti gögn um ótrúlega fólksfjölgun hér á landi og hvað búi þar að baki. Fjárlaganefnd hefur eftirlitshlutverki að gegna. Þegar gögnin liggja ekki fyrir þá verður þetta eftirlit auðvitað alltaf veikburða. Gögn, skilvirkni, virðing fyrir fjármunum.

Mig langar að nefna nokkrar birtingarmyndir, því ég er hér búin að vera að ræða fyrst og fremst um aðhald, um hvað getur gerst þegar við erum að taka ákvarðanir sem byggjast ekki á bestu gögnum og þar sem skilvirkni, virðing fyrir fjármunum og gæði eru ekki í forgrunni. Mig langar í því samhengi að tala um grundvallarþjónustu. Hér er mikið talað um heilbrigðiskerfið. Ríkisstjórnin boðaði að þar yrði ekkert aðhald. Mér þykir það í sjálfu sér ekki stór fullyrðing eða metnaðarfull því ekkert heimili myndi byrja á því að taka út lyfjakostnaðinn þegar harðnar í ári, en það er hægt að hagræða og það eru tækifæri til þess. Á sama tíma sjáum við þegar ákvarðanir hafa ekki byggst á bestu gögnum, þar sem gæði, skilvirkni og hagkvæmni hafa ekki verið í forgrunni, þegar ákvarðanir eru teknar og lögbundin verkefni líða fyrir.

Síðast í gær sáum við ömurlegar fréttir af fangelsum landsins sem hafa sætt niðurskurði samfleytt í 21 ár. Ísland er land þar sem það getur gerst að dæmdir ofbeldismenn afpláni ekki fangelsisdóma sína vegna þess að fangelsin eru svo fjársvelt. Rekstur eins og fangelsi er að stærstum hluta fastir rekstrarliðir; laun og rekstur fasteigna. Það er með öðrum orðum eiginlega ekki af neinu að taka. Þegar svona stofnanir sæta niðurskurði árum og áratugum saman verður niðurstaðan einfaldlega sú að stofnanir geta ekki lengur sinnt hlutverki því sem þeim er ætlað að sinna. Fangelsin á Íslandi hafa í dag ekki burði til að taka á móti mönnum og konum sem hafa verið dæmd til fangelsisvistar. Þetta er eins skýr áfellisdómur og hugsast getur yfir stjórnvöldum.

Skoðum fjárfestingar í samgöngum; mikilvægt byggðamál, en þegar sú aðferð er valin að fresta fjárfestingum, sem auðvitað getur þurft að gera, þá getur það líka gerst að arðsamar fjárfestingar séu þar á meðal, framtíðartekjur um leið. Ef markmiðið er að draga úr halla — og kannski er það bara þannig að það er ekki markmið að draga úr halla hjá þessari ríkisstjórn — þarf að meta arðsemi fjárfestinga þegar farið er í tiltekt.

Skoðum síðan þau verkfæri sem stjórnvöld eiga nú þegar og geta beitt á verðbólgutímum, Samkeppniseftirlitið t.d., sem fær einmitt á þessum tímum á sig talsvert aðhald. Hér fer ríkisstjórnin þá gegn því sem stjórnvöld alls staðar á Norðurlöndum gera núna á verðbólgutímum, hraustlegt aðhald hjá þeirri stofnun sem á að verja neytendur gegn afleiðingum fákeppni, stuðla að virkri samkeppni. Hún fær á sig aðhaldskröfu. Þetta eru þrjú dæmi: Fangelsin, samgöngur og samkeppnismál, kannski ekki þeir þættir sem vekja mesta athygli alla jafna í þessari umræðu en lýsandi fyrir ranga aðferðafræði, lýsandi fyrir það þegar gögn, skilvirkni, gæði og virðing fyrir fjármunum eru ekki leiðarstefið í ákvarðanatöku.

Virðulegi forseti. Efnahagsforsendur frumvarpsins í haust byggðust á spá Hagstofu Íslands sem hefur nú verið borin saman við nýjustu spá Seðlabanka Íslands og uppfærða spá Hagstofu Íslands. Það er núna búist við lægri hagvexti á næsta ári, um 2,1%. Verðbólga á næsta ári verður samkvæmt spám hærri en búist var við í upphaflegum forsendum frumvarpsins og verðbólguvæntingar eru háar. Verði hagvöxtur ekki meiri á næsta ári er eins og ég nefndi hætta á því að hagvöxtur á mann geti orðið neikvæður. Þetta nefnir meiri hlutinn sjálfur í nefndaráliti sínu og þetta er mikið áhyggjuefni. Þetta er ástæða þess að venjulegt fólk finnur ekki fyrir hagvextinum því á hvern og einn mann er hann lítill, jafnvel enginn.

BHM hefur réttilega bent á að hlutverk opinberra fjármála í sveiflujöfnun sé mikilvægara á Íslandi en í mörgum öðrum löndum. Í sterkri umsögn BHM um fjárlagafrumvarpið er varpað ljósi á áhugaverðar staðreyndir um íslenska hagkerfið. Kaupmáttur meðallauna hefur sveiflast fjórum sinnum meira síðastliðin 20 ár en innan OECD. Verðbólga jókst um helming milli áranna 2022 og 2023 sem er einsdæmi. Hún heldur áfram að aukast. Stýrivextir eru rúmlega tvöfaldir á við meðaltal í öðrum svokölluðum háþróuðum ríkjum OECD, þeir eru hærri en í nágrannalöndum okkar, hærri en á evrusvæðinu. Auðvitað gerir þessi veruleiki gerð kjarasamninga flóknari hér á landi. Þess vegna verðum við að viðurkenna meinsemdina sem einkennir íslenskt samfélag og er þessi óstöðugleiki í hagkerfinu, því af þessum óstöðugleika er ofboðslega mikill kostnaður.

Aðeins um tekjur ríkisins og skuldir. Tekjur ríkisins aukast um einhverja 200 milljarða milli ára, m.a. vegna verðbólgunnar, það sturtast inn tekjur en hallinn er engu að síður niðurstaðan. Á bak við það sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa kallað afkomubata er sem sagt fyrst og fremst höfuðóvinurinn sjálfur, verðbólgan. Þessar tekjur munu síðan hverfa með verðbólgunni. Þess vegna er hættulegt að nota þessar tekjur í ný útgjöld. Þetta hafa Samtök atvinnulífsins gagnrýnt og tala raunar um þessar nýju tekjur eða þessar óvæntu tekjur sem tekjufroðu. Þetta gagnrýndi fjármálaráð og það hefur beint því til stjórnarinnar að verja nýjum tekjum ekki sjálfkrafa í ný útgjöld heldur frekar í það að greiða niður skuldir.

Samtök atvinnulífsins hafa reyndar líka nefnt að það séu tóm orð, orðin tóm hjá ríkisstjórninni, að ætla að tala um að vaxa út úr vandanum þegar vextirnir eru orðnir þetta háir. Þarna erum við aftur komin að rándýrum lántökum ríkisins sem fáir hérna inni tala um eða nefna. En auðvitað getur það ekki gengið upp í umræðu um fjárlög að ætla bara tala um útgjöld en ekki um kostnað, bara um tekjur en ekki um lán. Eins og ég nefndi áðan þá kom það fram fyrir fjárlaganefnd og kemur fram í gögnum þessa máls að á næsta ári verður áframhald á verulegum lántökum ríkisins. Þetta eru sturlaðar upphæðir sem hafa mikil áhrif á getu okkar til að styrkja heilbrigðiskerfið, til að halda við vegum, til að efla samgöngur, til að fjárfesta í löggæslu. Það hefur verið talað um það að ríkið sé að borga í aukavaxtakostnað um 70 milljarða á ári vegna krónunnar. Ekkert Evrópuríki borgar jafn hátt hlutfall í vexti og við.

Þegar við höfum í huga það sem ég hef nefnt hér núna, að almenningur á Íslandi greiðir háa skatta, þá er merkilegt til þess að hugsa að fjárfesting í þessum grunnþáttum sé samt ekki meiri en reyndin er; ekki í löggæslu, ekki í heilbrigði, ekki í samgöngum. Og þegar þessi mikli, þessi hái, þessi sturlaði vaxtakostnaður er settur í samhengi við fjárfestingar í þjónustu og innviðum þá verður myndin nokkuð skýr. Vaxtakostnaðurinn veikir getu stjórnvalda til að fjárfesta í þjónustu fyrir fólkið í landinu en rándýrar lántökur ríkisins eru lítið ræddar hér. Við heyrum nánast ekkert um einhver markmið um að komast undan þessum kostnaði þrátt fyrir að við séum á pari við þjóðir sem eru með allt niður um sig; Grikkland og Ítalíu.

Það gengur ekki upp í ábyrgri umræðu um fjármál ríkisins að standa hér og tala bara um útgjöld en aldrei um kostnað. Viðreisn tekur ekki þátt í þeirri nálgun. Það er ákveðin meðvirkni í gangi hvað þetta varðar. Gengi íslensku krónunnar sveiflast upp og niður, erfiðara að gera fjárhagsáætlanir fram í tíma, hvort sem er fyrir heimilin, ríkið, fyrirtækin eða sveitarfélögin. Bara frá 1. umræðu fjárlaga í september hefur vaxtakostnaður ríkisins hækkað um 7 milljarða; breytt spá frá því í september. Þegar allt fer hér á hliðina reglulega er okkur sagt að það séu miklir kostir í þessum sveigjanleika. Sveigjanleikinn svokallaði birtist núna þannig að í öllum nágrannalöndum okkar er verðbólgan komin niður í 2–5% á meðan við erum enn með 8% verðbólgu. Þetta er vissulega sveifla, það má kalla þetta sveigjanleika en þetta er vond sveifla. Allir finna fyrir háum vöxtum; heimilin, bændur, byggingarverktakar, sveitarfélög og ríkissjóður. Heimilin á Íslandi borga 11–12% í húsnæðisvexti en heimili í Færeyjum 4%. Færeyjar tengjast evru í gegnum danska krónu.

Það þarf að segja það upphátt, það þarf að taka samtalið upphátt og þroska umræðuna um það hvað það kostar almenning og heimilin að vera með örgjaldmiðil. Þessi kostnaður blasir við okkur í dag og það þarf að losa aðeins um meðvirknina, rausið sem byrjar um að það megi ekki tala krónuna niður. Ég verð að viðurkenna að ég staldra alltaf dálítið við þann punkt að það megi eiginlega ekki ræða gjaldmiðilinn upphátt því að það sé hægt að tala hann niður. Er hann þá ekki dálítið vankaður fyrir ef hann þolir ekki samtalið, ef gjaldmiðillinn okkar þolir ekki samtalið, það megi ekki tala hann niður? Ég er hér að ræða um stöðuna fyrir árið í ár og næsta ár í veruleika krónunnar en það væri óábyrgt að standa hér í umræðum um útgjöld ríkisins og kostnað ríkisins og tala ekki um þennan mikla útgjaldaleka sem vaxtakostnaðurinn er fyrir ríkissjóð, og val á gjaldmiðli speglar pólitískt hagsmunamat. Ég er, eins og ég segi, að reifa stöðuna fyrir árið í ár og næsta ár en það er bara þannig að þetta eru stórar réttlætisspurningar eins og um fyrirtækin 250 sem hafa yfirgefið krónuna og njóta lánskjara sem eru allt önnur en veruleiki heimilanna.

Ég ætla að ræða aðeins frekar um hagvöxtinn því landsmenn hafa fengið að heyra — (Gripið fram í.) óbærileg spenna. Þú verður bara að hafa þig aðeins hægan með hagvöxtinn af því að nú erum við komin í æsispennandi kafla um heimilin, Stefán Vagn. Nú blasir við stöðnun í lífskjörum á Íslandi og ekki síst hjá millistéttinni. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann er að minnka og hefur dregist saman undanfarið ár. Öllum kostnaði af verðbólgu og vaxtahækkunum hefur, eins og ég nefndi áðan, verið velt yfir á ungt fólk og barnafjölskyldur, og ég myndi segja minni fyrirtækin líka sem eru að taka á sig þessar vaxtahækkanir og eru auðvitað að móttaka 1% skattahækkun á sig að ári. Þess vegna er ég á því að það eigi að sýna heimilum landsins stuðning núna, stuðning vegna ofsalegra séríslenskra vaxta og verðbólgu, og það verði best gert með bótum sem taka utan um þær aðstæður; vaxtabótum, húsnæðisbótum, að einhverju marki mætti skoða barnabætur. Þetta yrði tímabundið úrræði vegna ástandsins núna og fengi að fara hærra upp tekjustigann en hefur verið, tímabundið viðbragð við ástandinu núna, alveg eins og Alþingi hefur jafnan brugðist við þegar efnahagsaðstæður hafa tímabundið kallað á það og ég minni á heimsfaraldurinn í því samhengi. Þetta myndi Viðreisn gera ef við værum með fjármálaráðuneytið núna. Þetta er réttlætismál.

Opinberir sjóðir eru hins vegar auðvitað ekki botnlausir og það held ég að Viðreisn skilji betur en a.m.k. raddir margra annarra flokka og við verðum að stefna að því að komast úr þeirri stöðu að ríkið sé að niðurgreiða vaxtakostnað. En á meðan við erum í þeirri stöðu að vera með þann gjaldmiðil sem við erum með í landinu og halda úti örgjaldmiðli þá held ég að við verðum í fjárlagaumræðu á Alþingi að ræða mikið um vaxtakostnað heimila og ríkisins. Við verðum mikið að tala um skakka samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Við verðum mikið að tala um rándýr lán íslenska ríkisins, því það kostar að horfa aldrei til lengri tíma.

En þá er það hagvaxtarkaflinn sem menn hafa beðið hér eftir óþreyjufullir. Landsmenn hafa fengið að heyra að hér sé verðbólga en ekki annars staðar vegna þess að hér sé svo mikill hagvöxtur. En það er hins vegar auðvitað bara hin hliðin á sama peningnum. Núna er sérstakur kafli í áliti meiri hlutans þar sem þau fjalla um það sem Viðreisn hefur lengi verið að benda á, að hagvöxturinn er í raun bara drifinn áfram eða fyrst og fremst drifinn áfram af mikilli fólksfjölgun, af miklum innflutningi á vinnuafli. Ör fjölgun íbúa og starfa drífur þennan vöxt. Í samanburði við aðrar þjóðir þá er það þannig að það er erfitt að finna dæmi um viðlíka fólksfjölgun og hjá okkur í dag. En á sama tíma og hagvöxturinn blasir við þá er, eins og ég segi, hagvöxturinn um leið lítill þegar við förum að skoða hver hann er á mann. Það helst aftur í hendur við þá skýringu að það er fólksfjölgunin sem er fyrst og fremst hér að baki. Hagvöxtur á hvern íbúa á Íslandi var enginn á árunum 2017–2022 og þá er skiljanlegt að venjulegt fólk finni ekki fyrir hagvextinum því að hagsældin er kannski ekki að aukast. Sprenging í fólksfjölda er líka ein helsta ástæða þess að raunverð húsnæðis hefur tvöfaldast á Íslandi á síðustu tíu árum. Ég myndi vilja vitna í orð fyrrverandi seðlabankastjóra, Más Guðmundssonar, sem sagði í viðtali fyrr í sumar, með leyfi forseta:

„Við verðum að hætta að tala um að þetta sé fasteignamarkaðnum að kenna.“

Hann er þar að benda á að umsvifin séu einfaldlega umfram það sem kerfið þoli, það sé of mikil innlend eftirspurn. Þegar íbúum fjölgar þetta mikið þá má auðvitað gera ráð fyrir því að það hafi veruleg áhrif á eftirspurn eftir húsnæði, vöru og þjónustu og markaðurinn í dag ræður ekki við að mæta þörfinni fyrir húsnæði. Svo einfalt er það. Þá þarf kannski að fara að horfast í augu við það hvort við þurfum einhver stýritæki sem dempa sveiflur og vöxt í ferðaþjónustu ef hann verður of mikill, setja t.d. mörk á byggingu fyrir gistirými í þéttbýli, takmarkanir, eitthvert skýrara regluverk um heimagistingu, Airbnb, til að tryggja húsnæðisöryggi fólksins sem hér býr og ekki síst á höfuðborgarsvæðinu þar sem við finnum þetta hvað ákafast.

Ferðaþjónustan er okkar verðmætasta útflutningsstoð, gríðarlega mikilvæg atvinnugrein sem hefur reynst þjóðinni vel, skilar hingað miklum tekjum. Hún hefur reynst landsbyggðunum mikil lyftistöng og ég vil leyfa mér að segja nýsköpun, og ég hef talað fyrir því áður hérna inni hvort það mætti ekki dreifa henni betur um landið í þágu byggðanna og það mætti skoða einhverja hvata til þess. En ferðaþjónustan veldur ytri áhrifum á hagkerfið. Hún hefur sem atvinnugrein ýmsar aukaverkanir og gistináttagjaldið er þess vegna tímabær aðgerð sem eykur jafnræði í skattlagningu milli atvinnugreina. Ég tek undir gagnrýni Samtaka ferðaþjónustunnar á það ójafnræði sem hefur ríkt milli mismunandi gistinga, þ.e. hótela og heimagistingar. Stefnumörkun í þessa veru þarf að vinnast og vera í breiðri sátt við greinina sjálfa en ekki síður við samfélagið og á meðan það er ekki skýr stefna um ferðaþjónustuna og æskilegan hraða og vöxt hennar eða skýr atvinnustefna þá verður mjög erfitt að koma húsnæðismarkaðnum í jafnvægi. Það er ekki hægt að ræða húsnæðismarkað án þess að ræða ótrúlegan vöxt ferðaþjónustunnar á honum og án þess að ræða möguleika fólks á að eignast húsnæði.

Enn heyrum við hér inni í þessum sal að það er fyrst og fremst talað um húsnæðismarkaðinn með þeim gleraugum á nefinu að hér sé framboðsskortur. En getur það verið rétt lýsing á ástandinu þegar staðan er sú að við erum heimsmeistarar í fólksfjölgun? Þegar eftirspurnin er slík að við getum sagt að við séum heimsmeistarar í fólksfjölgun, er þá rétt að beina kastljósinu eingöngu að því hvað sé verið að byggja mikið? Í nýlegri skýrslu OECD um íslenskt efnahagslíf kemur fram að fjöldi ferðamanna á hvern íbúa sé sá langhæsti hér í OECD, hlutfallslegur fjöldi starfandi í ferðaþjónustu sá mesti í OECD-samanburðinum líka, fyrir utan Möltu. OECD mælir þar með tilteknum aðgerðum fyrir ferðaþjónustuna með það fyrir augum að stemma stigu við verðbólgu og framleiðsluspennu. Í þessu ljósi er það skref sem ríkisstjórnin hyggst stíga um gistináttagjald eðlilegt og þarft. Ef við höfum metnað fyrir þessari mikilvægu og góðu atvinnugrein og metnað fyrir íslensku samfélagi þá þarf að setja einhverja umgjörð. Tækifærin fyrir greinina eru mikil og óskandi að sú vinna sem nú stendur yfir við stefnumörkun fyrir greinina skili árangri fyrir góða grein, fyrir innviðina og samfélagið í heild.

Að þessu sögðu um gistináttagjaldið þá mun Viðreisn hins vegar áfram almennt tala gegn aukinni skattheimtu því almenn skattheimta á Íslandi er mikil. Við greiddum t.d. atkvæði gegn nýjustu skattheimtu ríkisstjórnarinnar gagnvart almenningi vegna áforma um byggingu varnargarða. Til þess þurfti alls ekki að hækka neina skatta. Það voru á engan hátt þannig útgjöld að þau kölluðu á skattheimtu heldur voru í mínum huga fyrst og fremst ákveðinn spegill á skattablæti þessarar ríkisstjórnar.

Mig langar stuttlega að ræða um háskólastigið í áliti meiri hlutans. Íslendingar hafa varið mun minna til háskólastigsins en önnur lönd um árabil. Norðurlöndin hafa öll átt háskóla á topp 100 í heiminum. Sem stendur á Ísland engan háskóla á topp 500. Pólitískt sinnuleysi hefur um þessa stöðu að segja og hérna myndi ég aftur vilja vísa í umsagnir BHM sem hefur raunar gengið svo langt að tala um hungurleika háskólastigsins. Ég veit ekki hvort ég tek undir það orðalag en mér fannst það nokkuð gott.

Birtingarmyndirnar um pólitískar áherslur á menntun eru alls staðar í íslensku samfélagi og nú síðast í fréttum af stöðu íslenskra barna á PISA-mælikvarða. Auðvitað hafa ekki allar þessar ákvarðanir með fjármögnun að gera en ég er þeirrar skoðunar að við ættum að verja langtum meiri tíma og kröftum í þessum sal í að tala um menntun í samhengi við framtíðarmynd þjóðarinnar. Þegar við erum að ræða framtíðarmúsík og þau vandamál sem blasa við okkur varðandi framleiðni er ótrúlegt hversu lítið er um það rætt hversu lítil arðsemi fólks er af því að fara í háskólanám á Íslandi. Kostnaður á móti ábata er hvað minnstur á Íslandi samkvæmt því sem rakið er í gögnum frá BHM og í fjárlaganefnd höfum við fengið gögn um að líklegt sé að næsta vor hafi háskólamenntaðir hjá ríki horft upp á fimm ára stöðnunartímabil í kaupmætti. Markmiðið hlýtur að vera að Ísland sé land þar sem háskólamenntun borgar sig og að við stefnum að því að okkar unga fólk sem fer utan til náms velji að koma hingað til baka.

Stóra myndin af Íslandi hefur verið sú að jöfnuður tekna hefur verið meiri á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum en nú blasir við stöðnun í lífskjörum og það blasir við að mér sýnist í þessari 2. umræðu að það eigi að velta öllum kostnaði verðbólgunnar yfir á millistéttina. Það er hópur sem er nú þegar, eins og ég rakti áðan, að borga háa skatta og finnur rækilega fyrir vaxtahækkunum. Þetta reikningsdæmi getur ekki gengið upp til lengri tíma því að það mun hafa alvarlegan fórnarkostnað í för með sér. Þess vegna hefðum við viljað, eins og ég nefndi áðan, tímabundið úrræði, sérstaklega í ljósi þess að millistéttin horfir núna upp á tímabil kaupmáttarstöðnunar. En hvað sjáum við í þessu fjárlagafrumvarpi? Framlag vegna vaxtabóta lækkar um 700 millj. kr. frá því í fyrra.

Virðulegi forseti. Í mínum huga snýst skynsamleg velferðarstefna um að forgangsraða fjárfestingu í þágu almannahagsmuna. Hún snýst um að sýna hófsemi í skattlagningu. Nálgunin á að vera sú að kerfin eigi að vera til staðar fyrir fólkið í landinu en ekki öfugt og ég verð að viðurkenna að ég get ekki skilið hvernig ríkisstjórnarflokkarnir þrír hafa farið í gegnum allt haustið, séð og heyrt allt það sem við höfum séð um áhrif vaxtahækkana á heimilin, og ætla að draga úr stuðningi við heimilin í kjölfarið. Ábyrg hagstjórn snýst um að fara vel með fjármuni almennings og grunntakturinn í þessu fjárlagafrumvarpi er að mínu viti pólitískt rangur og þetta eru ekki fjárlög sem ég mun styðja óbreytt. Verkefnið núna snýst um ábyrgð og það snýst um réttlæti. Það vantar í mínum huga upp á ábyrgð og það vantar upp á réttlæti í þessum fjárlögum og af þessari stefnu held ég að geti orðið fórnarkostnaður fyrir íslenskt samfélag sem við viljum ekki sjá.