154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[21:00]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir spurninguna og ég þakka honum sömuleiðis fyrir mjög gott samstarf í fjárlaganefnd. Varðandi afstöðu Viðreisnar í efnahagsmálunum svona í stóru myndinni, og kannski ekki síst núna í þeim verkefnum sem við stöndum frammi fyrir, þá höfum við talað fyrir aðhaldi og við höfum talað fyrir ábyrgum fjármálum og vorum farin að gera það löngu fyrir heimsfaraldur og benda á að ríkisfjármálin væru ekki sjálfbær. Ætli við séum ekki þarna á miðjunni, ekki í hópi þeirra sem sjá skatta sem lausn á öllum málum og heldur ekki í hópi þeirra, ekki ég a.m.k., sem vilja bara horfa á það hver útgjöldin eru. Ég get svarað spurningunni á þann hátt að við afgreiðslu fjárlaga í fyrra vorum við auðvitað líka með hugann við verðbólguna, sem kannski undirstrikar hvað það gengur illa að ná tökum á þessu verkefni. Þá lögðum við til hækkun veiðigjalda, þá lögðum við til hækkun kolefnisgjalda, þá lögðum við til að farið yrði í frekari sölu á Íslandsbanka til að afla tekna. Ég er hins vegar ekki sammála (Forseti hringir.) og á erfitt með það hjá ríkisstjórninni hvað þau eru fljót að skattleggja heimilin.