154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[21:03]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Kannski fyrst aðeins til að klára þetta með skattana þá set ég líka spurningarmerki við það þegar ríkisstjórnin núna á verðbólgutímum er að hækka skatta á fyrirtæki um 1%. Ég held að það hefði átt að sleppa því og eins og ég nefndi hérna áðan þá greiddum við atkvæði, sem ég held að Píratar hafi reyndar líka gert, gegn skatti vegna varnargarðsins svokallaða. Það þarf að rökstyðja skatta og þeir þurfa að þjóna málefnalegum tilgangi og ekki vinna gegn stærri hagsmunum.

Varðandi gjaldmiðilinn þá er afstaða mín alveg skýr þar og ég er þeirrar skoðunar að það séu hagsmunir sem þurfi að ræða. Svarið í mínum huga er alveg skýrt um að annar gjaldmiðill en íslenska krónan myndi þjóni okkar hagsmunum betur. Mitt svar er reyndar líka alveg skýrt um það að allar ákvarðanir í þessa veru séu þess eðlis að það er þjóðin sjálf sem á að taka þær. (Forseti hringir.) En mér þætti óábyrgt, eins og ég sagði, að standa hér í fjárlagaumræðu að ræða tekjur og gjöld ríkisins, (Forseti hringir.) að ræða 117 milljarða kr. kostnað í vexti, og láta hjá líða að nefna samhengi hlutanna um gjaldmiðilinn þar. (BLG: Heyr, heyr.)