154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[21:04]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Hún talaði um skort á gögnum og gæði gagna. Ég tek undir það að vissu leyti þá þurfa þessi gögn vera betri og ég minnist þess að Samtök iðnaðarins keyrðu um höfuðborgarsvæðið til að telja byggingarkrana og komast að því hversu mikið af húsnæði er í byggingu.

Hv. þingmaður talaði um raunverulega hagræðingu og ég staldraði svolítið við þessi orð og spurning mín er þessi: Getur hún farið aðeins nánar út í það hvar hún vill hagræða í ríkisrekstrinum? Það kom fram hjá formanni flokksins í fyrri andsvörum, sem ég er algerlega sammála, að við erum með of mörg ráðuneyti, fjölgun ráðuneyta voru mistök og ætti að fækka þeim aftur. En hvar sér hún möguleika á hagræðingu í ríkiskerfinu? Og ég er sammála hv. þingmanni varðandi aðhaldið í Samkeppniseftirlitinu sem var rangt og ég tel að við hefðum ekki átt að gera það.

Annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann um er: Hvort telur hún í ljósi þessa að ríkissjóður eigi við útgjaldavandamál að stríða eða tekjuvandamál? (Forseti hringir.) Ég kem betur að gistináttaskattinum í seinna andsvari.