154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[21:06]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég nefndi þetta með ákvarðanir byggðar á gögnum og í samhengi við þingsályktun sem Viðreisn fékk samþykkta hér á Alþingi árið 2018 sem miðaði að því að tryggja gæði, að tryggja hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Það er kannski bara þetta að í samhengi við þá stöðu sem við erum í í dag þá segir meiri hlutinn: Þetta er ekki flatur niðurskurður vegna þess að við tökum nokkra þætti út fyrir sviga. Það breytir ekki því að þar sem aðhaldinu er beitt þá er bara ostaskerinn tekinn og skorið jafnt yfir allar fjárfestingar, allar stofnanir, öll embætti. Hjá sumum stofnunum og sumum embættum, t.d. hjá lögreglunni, er allur kostnaður eiginlega bara laun og rekstur fasteigna. Allt aðhald þar mun bitna á mannafla eða hafa áhrif á mannafla. Þannig að eins og ég nefndi í fyrri ræðu þá finnst mér að það eigi bara að horfa heildstætt yfir sviðið. Tækifærin eru víða, yfirbyggingin er víða. Þetta er vinna sem krefst meiri aga (Forseti hringir.) af því það er ekki bara hægt að velja einhverja eina „universal“-lausn fyrir öll verkefni og allar stofnanir.