154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[21:08]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig svara spurningunni með því að segja, og ég get kannski sagt það skýrar, að hver ráðherra, hvert ráðuneyti horfi heildstætt á sín verkefni og fari ekki í það að kroppa jafnt af öllum. Ég ætla ekki að þykjast vera með svar um það hvernig niðurstaðan yrði í hverju og einu ráðuneyti. Við nefndum t.d. hérna í síðustu fjárlagaumræðu og lögðum fram tillögu um að ráðuneytum yrði aftur fækkað. Ég held að grunnpunkturinn sé sá að lýsa yfir viljanum og metnaðinum til þess að fara í þetta verkefni og vita að það sé hægt að skila árangri því auðvitað er hægt að hagræða í ríkisrekstrinum eins og þessi ríkisstjórn hefur hagað útgjöldum sínum, sem kemur kannski inn á seinni punktinn: Ég tel að við séum frekar að horfa á útgjaldavanda en tekjuvanda og ég veit að við hv. þingmaður erum ekki almennilega sammála þar um.

Varðandi ferðaþjónustuna þá fannst mér ég orða það ágætlega skýrt í ræðunni en ég tek undir það að gistináttagjaldið sem er verið að leggja á núna sé gott og það sé þarft því ég held að það sé ekki hægt að ræða um stöðuna á húsnæðismarkaðnum án þess að móta heildstæða atvinnustefnu um þróun og vöxt ferðaþjónustunnar.