154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[21:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil byrja á því í þessari fyrstu ræðu minni að fara almennt yfir sýn okkar í Miðflokknum á þau fjárlög sem hér liggja fyrir og hvað væri skynsamlegt að gera. Síðan mun ég fara yfir nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar sem er auðvitað það sem skiptir raunverulega máli í þessari umræðu þó að eitt og annað megi lesa út úr nefndarálitum 1., 2. og 3. minni hluta. Síðan mun ég fara í gagnrýni eða athugasemdir á tilteknum áhersluatriðum fjárlaganna sjálfra.

Það er auðvitað þyngra en tárum taki að skilaboðin frá Seðlabanka Íslands í núverandi árferði, núverandi stöðu verðbólgu og vaxta, séu að ríkisstjórnin skili hlutlausum fjárlögum. Það er eiginlega alveg ótrúlegt að það sé staðan með það í huga að ríkisstjórnin hefur haft nægan tíma til að undirbúa sig. Það er ekki eins og þessi skilaboð Seðlabankans hafi borist í síðustu viku. Núna liggur hér fyrir frumvarp þar sem heildarafkoman verður neikvæð um tæpa 47 milljarða og ætli nafnverðsútgjaldavöxturinn milli ára sé ekki einhvers staðar í námunda við 140 milljarða þó að ég sé ekki með þá tölu alveg á takteinum, mér finnst líklegt að það sé nokkuð nærri. Öll framsetning fjárlaganna gengur út á að tína til raunverðsaukninguna þannig að þá er búið að verðtryggja að fullu alla undirliggjandi kostnaðarliði í rekstri hins opinbera. Við verðum auðvitað að temja okkur það að reyna að fara eins vel með skattfé og nokkur kostur er og flesta daga bendir fátt til þess að það séu margir vinir skattgreiðenda í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna og helst alls engir við ríkisstjórnarborðið. Útgjaldavöxturinn hefur verið alveg gegndarlaus og var allt að því brjálæðislegur á síðasta kjörtímabili, 193 milljarðar að nafnvirði, ef ég man rétt, þegar tekið hafði verið tillit til einskiptisútgjalda vegna Covid. Það segir þá sögu sem segja þarf í því samhengi og neyðarópin úr Seðlabankanum, það sem seðlabankastjóri og hans fólk stóðu ein úti á berangri í baráttunni við verðbólguna. Sú saga liggur fyrir. Ég held að við verðum hér í þinginu að taka okkur tak. Nú hefur verið flaggað enn meiri útgjaldaaukningu á milli 2. og 3. umræðu og það er ekki bara vegna Grindavíkur og atburðanna sem þar eru. Ég kem nánar inn á það yfirferð minni um meirihlutaálit hv. fjárlaganefndar hér á eftir.

En áður en ég kem að nefndarálitinu vil ég gagnrýna að ríkisstjórnin leggi fram það sem Seðlabankinn treystir sér ekki til annars en að kalla hlutlaus fjárlög og það mat mun eflaust versna þegar útgjaldaaukning milli 2. og 3. umræðu kemur fram. En ég vil segja hér strax að fulltrúar Miðflokksins munu styðja þau útgjöld sem til koma vegna ástandsins í Grindavík og þar um kring en aðrir þættir þurfa sérstakrar skoðunar við og ég reikna með að við leggjumst gegn þeim útgjaldaauka sem flaggað er í nefndaráliti meiri hlutans. Það kom mér því miður ekki mjög á óvart hér áðan þegar ég fór í andsvar við hv. formann fjárlaganefndar og framsögumann meirihlutaálits Stefán Vagn Stefánsson að enn eitt árið hefur fjárlaganefnd enga hugmynd um það hvernig útgjaldaaukinn skiptist á milli rekstrar og fjárfestinga. Það má alveg segja að nefndin og formaður hennar hafi verið varaðir við með sams konar spurningum fyrri ár en enn standa menn á gati og hafa ekki hugmynd um hvernig skipting útgjaldaaukans á milli fjárfestingar og rekstrar er. Það dytti engu sveitarfélagi í hug að haga sinni áætlanagerð þannig að þetta lægi ekki fyrir. Hv. formaður fjárlaganefndar nefndi í andsvari sínu að hann myndi leggja þessar upplýsingar fram hið fyrsta og vera viðbúinn þessari spurningu að ári og ég fagna því.

Það eru mál sem eru þannig vaxin að það er hreinlega alveg óskiljanlegt með hvaða hætti ríkisstjórnin hefur hagað sínum málum og sínu afli í þeim. Þótt mörg okkar haldi að staðan á húsnæðismarkaði sé snúin í dag þá er ég hræddur um að hún verði miklum mun verri eftir 18–24 mánuði en hún er í dag og þau áhrif sem fram hafa komið vegna aðgerða stjórnvalda muni bíta okkur mjög rækilega í rassinn innan ekki langs tíma. Það hefur ekkert upp á sig að halda hér hvert glærusjóið á fætur öðru þar sem hæstv. innviðaráðherra er í fararbroddi og virðist leiða að því líkur að hann muni með sínum eigin höndum byggja 4.000 íbúðir á ári næstu árin. Svo mæta raunheimar á svæðið og niðurstaðan er sú að það eru 2.500 íbúðir sem skila sér inn á markaðinn á næsta ári þannig að gatið vex og vex og staðan á húsnæðismarkaði mun versna og versna. Þetta mun hafa sjálfstæð áhrif á verðbólguþrýsting til næstu missera. Auðvitað er þetta til komið að hluta til vegna þess með hvaða hætti haldið var á málum hér í gegnum tímabil heimsfaraldurs Covid.

Ég get ekki annað en gagnrýnt hér einu sinni enn þá undarlegu stöðu sem mér fannst alltaf teiknast upp þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar lýstu því yfir, sumir hverjir í forundran, hvers lags ótrúlegur árangur væri að nást í efnahagsmálum þjóðarinnar í gegnum faraldurinn. Það væri bara alveg hreinlega ótrúlegt að hér væri kaupmáttur að vaxa. Auðvitað blasti það við öllum sem sáu samhengi hlutanna að það gat ekki verið raunveruleikinn. Þessi kaupmáttarvöxtur var auðvitað bara á grundvelli þeirrar peningaprentunar sem átti sér stað og núna erum við að bíta úr nálinni með það að verðbólgan er miklu illviðráðanlegri hér heldur en í löndunum í kringum okkur að því við vorum að plata okkur í gegnum tímabil Covid-ráðstafana og -aðgerða. Ég hef enn ekki heyrt neinn ráðherra ríkisstjórnarinnar tala um þetta á þeim nótum sem blasir við að er raunin. Þetta er auðvitað eitthvað sem mun enn flækja stöðuna í kjarasamningum á nýju ári þegar aðilar vinnumarkaðarins fara eðlilega að reyna að verja kaupmáttaraukningu sem var ekki innstæða fyrir. Það er ekki til lengri tíma meira til skiptanna heldur en framleiðniaukning samfélagsins segir til. Allt sem tekið er umfram það fáum við í bakið í aukinni verðbólgu sem við erum svo sannarlega að finna fyrir núna.

Ég hélt fyrst að það væri eitthvert grín í gangi eða ákveðið að byrja á einhverjum léttum djók í byrjun á blaðamannafundinum þar sem aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar voru kynntar þar sem sagt var frá því að eftir mikla yfirlegu og ítarlegar greiningar þá hefði ríkisstjórnin komist að þeirri niðurstöðu að það væri hægt að spara 17 milljarða í útgjöldum hins opinbera. 17 milljarðar í útgjöldum hins opinbera eru ekki upp í nös á ketti. Ég held að þetta sé bara svona kurteisislegt mat Seðlabankans eftir að hafa verið einn úti á berangri í allan þann tíma sem verðbólgan hefur herjað á, í slagnum við verðbólguna, að kalla þetta frumvarp hlutlaust. Þegar við setjum það í samhengi við útgjaldavöxtinn árin á undan þar sem einskiptisútgjöld vegna Covid virtust bara mynda nýtt gólf fyrir frekari útgjöld til framtíðar og þegar þetta er metið í samhengi þá er þetta ekkert raunverulegt aðhald. Ég hreinlega trúði því ekki, þar til nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar kom fram og var dreift í þinginu fyrir einhverjum dögum síðan, sennilega á mánudaginn, að þetta yrði hin raunverulega staða, að það kæmi ekki fram meira aðhald en þetta og það undirstrikar að ríkisstjórnin, eins og óhönduglega og hún er samsett og ósamstæð, getur sennilega bara ekki tekið erfiðar ákvarðanir í þessum efnum. Hún virðist ekki geta sett sjálfri sér þær skorður að sníða sér stakk eftir vexti og á meðan það er staðan þá verður slagurinn við verðbólguna miklu erfiðari en hann þarf að vera og miklu langdregnari. Við sjáum það í nýjustu mælingum að ársverðbólgan er aftur á uppleið þótt það sé vonandi tímabundið. En það breytir því ekki að jafnvel þó að þau markmið sem sett eru fram hér í fjárlagafrumvarpinu og ítrekuð í nefndaráliti meiri hluta náist er staðan snúin. Og jafnvel þó að árangur náist að fullu hefur slagurinn við verðbólguna gengið miklu verr hér en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Við glímum við útgjaldavanda en ekki tekjuvanda.

Það hefur komið mér nokkuð á óvart hjá sumum sem taka þátt í þessari umræðu hversu lítið mál þeir telja að bæta í skattlagningu hins opinbera frá því sem nú er. Það er eins og það gleymist að Ísland sé með skattpíndustu þjóðum OECD-ríkjanna þegar skoðað er heildstætt skattumhverfið og fjármögnun lífeyrissjóðakerfisins. Manni bregður hreinlega þegar hæstv. fjármálaráðherra segir í viðtali að sér hafi bara ekkert liðið illa með nýjan skatt vegna varnargarðanna við Svartsengi. Það væri hægt að horfa til a.m.k. tveggja fjármögnunarleiða innan núverandi kerfis sem væru nærtækari heldur en að leggja nýjan skatt á landsmenn. Það er eins og það sé ekki neinn hemill. Það er eins og ríkisstjórnin, eins og hún er samsett, líti á heimili og fyrirtæki landsins sem einhvers lags hlaðborð þar sem bara þurfi að pikka út þá skattstofna sem mögulegt er að bæta við en það er ekki horft í neinu samhengi á heildarmyndina, hversu há heildarskattbyrðin er í þessu samfélagi og þá sérstaklega ef við berum okkur saman við OECD-þjóðirnar.

Ég var búinn að nefna að hallinn væri áætlaður tæpir 47 milljarðar eins og fjárlagafrumvarpið stendur núna að teknu tilliti til tillagna meiri hluta fjárlaganefndar. Það er jafnframt búið að flagga vaxandi útgjöldum, vaxandi nýjum útgjaldaþáttum í 3. umræðu. Ég spurði hv. formann fjárlaganefndar í andsvari við byrjun umræðunnar í hverju þetta fælist helst og sömuleiðis í hverju þau atriði fælust sem sneru að því að draga úr útgjöldum, ef útgjöld tengd ástandinu á Grindavíkursvæðinu yrðu mikil til skamms tíma. Það var fátt um svör og ég er hræddur um að það liggi fyrir að það verði engin svör í þessum efnum fyrir okkur áður en að því kemur að samþykkja eða hafna eða sitja hjá við þessi fjárlög eins og þau liggja fyrir vegna þess að tíminn er naumur. Ef starfsáætlun þingsins heldur þá eru ekki nema fjórir eða sennilega fimm þingdagar eftir, ef ég man rétt, kannski sex. Það verður ekki farið í neina djúpar greiningar og það mun ekkert liggja fyrir sem skiptir máli í raun varðandi stöðuna á Reykjanesi hvað það varðar að ná einhverju heildstæðu mati á nauðsynleg útgjöld til viðbragða þar. Þetta verður auðvitað bara leyst í fjáraukalögum eins og fær leið er samkvæmt lögum um opinber fjárlög.

Textinn hér í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar bendir dálítið til þess að þau hafi ákveðið að setja kíkinn fyrir blinda augað og bara svona marsera áfram og leyfa þessu að klárast. Það hefur verið sérstakt ævintýri að fylgjast með þessu — þetta er auðvitað ekki nýyrði en ég hugsa að frumjöfnuður hljóti að verða eitt af orðum ársins þegar það verður gert upp nú um áramótin. Þetta er veikt hálmstrá sem fulltrúar stjórnarflokkanna hanga í til að reyna að réttlæta þá stöðu að vera ekki enn búnir að ná tökum á ríkisfjármálunum. Sú staða er auðvitað til komin vegna þessara stjórnlausu ríkisútgjalda sem við hafa blasað undanfarin ár.

Ég hef sagt það hér áður í ræðu og mögulega annars staðar að fyrir ekki löngu síðan þá setti ég inn skriflega fyrirspurn til fjármálaráðherra og spurði hver uppsafnaður halli ríkissjóðs væri frá og með árinu 2020 til og með ársins 2027. Ég vissi svarið svona í meginatriðum en ég vissi jafnframt að mér yrði ekki trúað ef ég segði þetta. En uppsafnaður halli miðað við fjármálaáætlunina sem þá lá fyrir á þessu tímabili, á núvirði, er rúmir 1.000 milljarðar. Hafa landsmenn almennt á tilfinningunni að við séum á miklu betri stað í dag hvað stoðkerfi okkar varðar heldur en þegar ríkisstjórnin tók við fyrir sex árum? Eru margir sem hafa á tilfinningunni að heilbrigðiskerfið sé á betri stað í dag heldur en var fyrir sex árum síðan þegar ríkisstjórnin tók við? Ég er ekki viss. Eru margir sem telja að félagslegu stuðningskerfin okkar séu á betri stað í dag heldur en fyrir sex árum síðan? Ég held ekki. Eru margir sem telja að grunnskólarnir okkar séu á betri stað heldur en var og framhaldsskólarnir og háskólarnir? Þó að grunnskólarnir séu auðvitað á forræði sveitarfélaganna þá tengist þetta nú allt saman.

Það hefur tekist að eyða alveg ótrúlegum fjármunum, bæði hvað nafnverðsaukninguna varðar og raunaukninguna, án þess að landsmenn geti haft á tilfinningunni að mikið hafi fengist fyrir. Auðvitað var hérna Covid-ástand eins og við þekkjum og eitt og annað í því samhengi en það er alveg ótrúlegt að þessi uppsafnaði halli ríkisstjórnarinnar sem við sitjum núna uppi með verði á pari við þá björg í bú sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi formanns Miðflokksins, dró í tengslum við uppgjör slitabúanna í samskiptum við kröfuhafana, að núverandi ríkisstjórn sé búin að eyða því öllu. En guð blessi þá aðgerð því að hver væri staða okkar ef þeir fjármunir, þau verðmæti hefðu ekki skilað sér í hús? Þá fyrst værum við í vandræðum.

Áður en ég kem að atriðum er snúa að nefndaráliti meiri hlutans þá langar mig að segja nokkur orð um stóru myndina og þau atriði sem mér finnst mest knýja á að við náum stjórn á og komumst áfram með eftir atvikum. Í fyrsta lagi vil ég nefna útlendingamálin. Það er auðvitað alveg ótrúlegt með hvaða hætti þau mál hafa þróast síðan sá ólukkans gjörningur sem kláraður var hér árið 2016 gekk í gegn í þinginu og ótrúlegt hvaða stjórnleysi á landamærunum og í meðförum þessa málaflokks hefur verið við lýði síðan. Hér segir í frumvarpinu að áætluð bein útgjöld ríkissjóðs séu rétt um 10 milljarðar, 10.000 milljónir á ári. Þetta er málaflokkur sem kostaði 500–700 milljónir fyrir ekki mörgum árum síðan. Að bein útgjöld ríkissjóðs séu rétt um 10 milljarðar á þessu ári og næsta segir auðvitað að raunkostnaðurinn með afleiddum útgjöldum og þrýstingi á stoðkerfin okkar, hvort sem það er menntakerfi, heilbrigðiskerfi, félagskerfi eða húsnæðismálin, er ábyggilega á bilinu 30–45 milljarðar.

Annað sem mig langar að nefna hér og gagnrýna mjög harkalega er staða orkumála hjá þessari ríkisstjórn. Það er eiginlega sárara en tárum taki að staðan sé þannig að það sé hvorki hægt að framleiða nýja græna orku né flytja hana á milli svæða. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar yppta öxlum og segja: Þetta er allt bara svo erfitt. Þetta er erfitt vegna innri meina ríkisstjórnarinnar. Þetta er algjörlega á ábyrgð stjórnarinnar að málin séu vaxin með þeim hætti sem þau nú liggja. Það er engum öðrum um að kenna. Þegar stjórnmálamenn fyrri tíðar voru að samþykkja það regluverk sem við vinnum nú með í tengslum við orkumálin er mér til efs að nokkur þeirra hafa látið sér detta í hug að nálaraugun yrðu skilgreind svo þröngt þegar fram liðu stundir að það væri varla hægt að framleiða meiri græna orku og alls ekki flytja hana milli svæða. Við sjáum núna ástandið í Eyjafirðinum, á Snæfellsnesi, vestur á fjörðum, á Norðurlandi og víðar. Þetta er farið að hafa víða veruleg áhrif á atvinnuuppbyggingu, þróun og möguleika svæðanna til að nýta tækifæri. Þetta er farið að valda raunverulegu tjóni.

Það sem verra er er að þetta verður ekki leyst með því að smella fingri. Þetta eru allt mál sem taka tíma þannig að það er búið að koma málum í þann farveg að hér verður meiri háttar tjón ár eftir ár meðan undið verður ofan af þeim ákvörðunum og þeirri stöðu sem formast hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar og svo sem fyrri ríkisstjórna líka. En staðan hefur bara súrnað svo hratt í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ég verð að minna hér á að þegar fréttist af því að áform um Hvammsvirkjun hefðu steytt á skeri þá steig einn stjórnarflokkanna og fulltrúi hans allt að því stríðsdans í fögnuði, fagnaði því að áform ríkisstjórnarinnar hefðu ekki gengið eftir. Það var bara staðan sem blasti við okkur. Ég held að á meðan það er staðan þá sé ekki hægt að vísa ábyrgðinni á þessari stöðu neitt annað en til Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins því það eru þeir tveir flokkar sem velja að vera í þessu samstarfi þar sem ekki er hægt að framleiða meiri græna orku og ekki er hægt að flytja hana á milli svæða með forsvaranlegum hætti. Þá verða þeir ágætu þingflokkar og þingmenn þeirra að taka það til sín. Hvað þennan inngang minn varðar þá verðum við að einsetja okkur að fara vel með skattfé, reyna að fá meira fyrir minna fyrir hönd landsmanna og nálgast öll mál þannig.

Frú forseti. Ég ætla núna að segja nokkur orð um það nefndarálit sem hér liggur fyrir um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2024 frá meiri hluta fjárlaganefndar. Hér strax í byrjun er gerður fyrirvari um að það komi breyting milli 2. og 3. umræðu fjárlagafrumvarps vegna óvissu vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga, eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Í ljósi óvissunnar má gera ráð fyrir breytingum við 3. umræðu frumvarpsins. Meiri hlutinn telur koma til greina að endurmeta önnur útgjöld til lækkunar komi til þess að fara þurfi í kostnaðarsamar aðgerðir vegna jarðhræringanna.“

Eins og ég kom örstutt inn á áðan þá kemur mér mjög á óvart að það virðist í engu hafa verið formuð nein áætlun um það til hvers skuli litið ef til þess kemur að það sé ástæða til að endurmeta önnur útgjöld til lækkunar. Ástæðan fyrir því að ég segi það er að fyrir okkur þingmenn væri mjög gott til glöggvunar að sjá eitthvert mat á því hvar svigrúm er til að draga úr útgjöldum að mati ríkisstjórnar sem treystir sér ekki til meira aðhalds en 17 milljarða í fjárlögunum eins og þau voru lögð fram. Og ég bara ítreka það sem ég sagði áðan, um tillögur til að mæta þeirri stöðu sem er á Reykjanesinu vegna eldsumbrota, að Miðflokkurinn mun styðja við allar skynsamlegar tillögur í þeim efnum. En ég verð að vara við því sem við urðum vitni að hér eftir að útgjöld voru samþykkt linnulaust í Covid-faraldrinum með þeim rökum að þetta væru bara einskiptisútgjöld og svo færu menn bara aftur að gamla gólfinu og héldu áfram þaðan; einskiptisútgjöldin virtust bara mynda nýtt gólf eftir Covid-faraldurinn, nýtt gólf sem útgjaldavöxturinn stóð á og hélt síðan bara áfram. Ég vil bara nefna að hafa þarf sérstaklega í huga að aðgerðir tengdar eldsumbrotum hækki ekki gólfið sem því nemur þegar rökstuðningurinn er sá að um sé að ræða einskiptisaðgerð til að styðja við íbúa Grindavíkur og nærliggjandi svæða.

Í breytingartillögum nefndarinnar á bls. 2 eru rammaður inn stóru tölurnar og þar kemur fram að heildarafkoman verði neikvæð um 46 milljarða af 910 milljörðum, tæpar 47.000 milljónir, en eins og segir hér þá rúmast sú afkoma vel innan þess ramma sem fjármálastefnan leyfir. Gott og vel. En í þeirri verðbólgu sem við höfum staðið frammi fyrir núna um allnokkurt skeið þá finnst mér það ekki sérstaklega góð útskýring eða afsökun að segja þetta, að þetta rammist innan þeirra reglna sem fjármálastefnan leyfir. Ríkisstjórnin þarf að senda mjög skýr skilaboð um aðhald til að slá á verðbólguvæntingarnar, sem er auðvitað ástæða þess að Seðlabankinn heldur stýrivöxtum jafn háum og raunin er.

Mig langar síðan að halda áfram hér í nefndaráliti meiri hlutans á bls. 3 undir yfirskriftinni: Breytingar á útgjaldarömmum milli ára. Hér segir, með leyfi forseta: „Á heildina litið hækka rammasett gjöld um 37,2 ma.kr. að raungildi á milli ára.“ Ég er ekki búinn að bera þessar tölur saman en ég myndi halda að í heildina væri þetta kannski — ég sé að hv. formaður fjárlaganefndar var að biðja um andsvar þannig að ég vona að sú tala komi fram hér á eftir, en ég ætla að leyfa mér að giska á að talan sé nærri 140 milljarðar að nafnvirði, breyting á milli ára. Þetta þýðir að meiri hluti fjárlaganefndar metur það sem svo í þessari framsetningu sinni að allt skuli verðbætt upp á punkt, öll útgjöld ríkissjóðs skuli verðbætt upp á punkt og svo bætum við við 37 milljörðum. Seðlabankinn kallar þetta hlutlaust sem ég held að sé svona vinsamlegt mat eftir skeytasendingar Seðlabankans í garð ríkisstjórnarinnar undanfarna mánuði.

Hér er farið yfir hvar meginaukning þessara þátta liggur fyrir en það er sjúkrahúsþjónusta, varasjóður fjárlaga, húsnæðismál hækka um 5 milljarða, heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa 4,5 og síðan kemur hér liðurinn um réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála, hækkar um 4,1 milljarð milli ára sem er nálægt 20% hækkun og skýrist alfarið, með leyfi forseta, „af mikilli hækkun framlaga vegna útlendingamála“. Það er auðvitað við því að búast að staðan, þegar um 5.000 manns koma hingað á hverju ári að leita hælis, kosti. Það að við séum að horfa á 20% hækkun upp á 4,1 milljarð í breytingum nefndarinnar og í fjárlögum, 4,1 milljarðs vöxtur á milli ára er býsna drjúgt og undirstrikar mikilvægi þess að við náum stjórn á landamærunum aftur.

Hér er síðan tilgreint að raunlækkun milli ára komi fram í nokkrum tilfellum, með leyfi forseta:

„Í nokkrum tilfellum skýrist það af lækkun stofnkostnaðar þegar stórum verkefnum lýkur. Dæmi um það er t.d. hjá Alþingi og vegna byggingar hjúkrunarheimila.

Langmesta lækkunin kemur fram í málefnum aldraða þar sem við endurmat fyrir 2. umræðu frumvarpsins kom fram að áætlaðar tekjur ellilífeyrisþega eru hærri en áður var áætlað og kemur þar hvort tveggja til að fjármagnstekjur hafa aukist auk þess sem yngstu ellilífeyrisþegarnir eru með mun hærri lífeyristekjur heldur en þeir sem eldri eru.“

Í þessu samhengi vil ég nefna tvennt. Það verður að reyna að ramma það inn fyrir þingheim með hvaða hætti hefur gengið að vinna áfram áætlanir sem sneru að uppbyggingu hjúkrunarheimila því að hér kemur fram í undir þessari sömu grein að uppsafnað fjármagn sé að fjárhæð 10,5 milljarðar og er þar vísað til hjúkrunarrýma. Ég er hræddur um að við séum á miklu verri stað hvað þá uppbyggingu varðar heldur en kannski þingmenn hafa átt auðvelt með að glöggva sig á og við verðum að kalla eftir því að það verði leitt út þannig að við eigum einhvern möguleika á skilja þetta. Hvernig hefur gengið með þau áform sem römmuð voru inn á síðasta kjörtímabili? Hvað hefur ekki áorkast og hvers vegna ekki? Hvað er fram undan? Auðvitað myndi átak í þessum málum núna ekki hafa nein önnur áhrif en að auka þrýsting á verðbólgu til skamms tíma en við verðum engu að síður að komast áfram í þessum efnum.

Sömuleiðis í þessu samhengi vil ég nefna varðandi það sem segir hér um að langmest lækkun komi fram í málefnum aldraðra í tengslum við endurmat á tekjugrunni þeirra að ég held að við ættum að einsetja okkur, bæði hvað málefni aldraðra varða og málefni öryrkja, að auðvelda þessum hópum að vera áfram virkir á vinnumarkaði. Ég ætla að leyfa mér að segja að það er algjörlega óþolandi með hvaða hætti kostnaður af slíkum aðgerðum er metinn á grundvelli laga um opinber fjármál. Þar er bara horft á þann sparnað sem ekki verður hjá ríkinu ef menn auka tekjur sínar og eru ekki skertir á móti. Við verðum að skoða þetta heildstætt. Það er ekki bara að þarna komi tekjur á móti í öðru formi en áður var til hins opinbera, það er líka virkni, líkamleg heilsa, andleg heilsa og svo margt annað sem verður að setja inn í þessa heildarmynd. Það er meiri háttar galli á lögum um opinber fjármál að þetta sé staðan og þetta verðum við að laga og við verðum einsetja okkur það og ganga til þess verks.

Næst ætla ég aðeins að nefna atriði er snúa að efnahagsforsendum sem eru nefndar í nefndaráliti meiri hlutans. Þar segir, með leyfi forseta:

„Útlit er fyrir að verðbólgan í ár hafi verið að meðaltali um 8,7%. Í forsendum frumvarpsins er gert ráð fyrir að verðbólga fari niður í 4,9% og að hagvöxtur verði um 2,6%.“

Þessi 8,7% verðbólgutala sem hér er nefnd fyrir árið sem er að líða er auðvitað grundvöllur þess mats sem hér er sett fram um að á heildina litið hækki rammasett útgjöld um 37,2 milljarða. Þar fyrir utan er öll vísitölubæting ársins. Hið opinbera, ríkissjóður, verður að gæta hófs í þessum efnum. Í rauninni er ekki nema sanngjörn krafa að það gangi enginn harðar fram gegn sjálfum sér í aðhaldi heldur en ríkissjóður þegar verðbólgan geisar eins og nú er. Ef spár eru uppi um að verðbólga fari niður í 4,9%, væntanlega vegið á ársgrundvelli, þá gott og vel, ég vona að það verði raunin. En því miður verð ég líka að segja að ég trúi því þegar ég sé það. Í augnablikinu minnir mig að hún sé rétt um 8% og ef menn ætla að ná ársverðbólgu niður fyrir 5% þá má ganga ansi ákveðið til verks. Ég trúi því ekki að nefndarálitið sé sett fram með svo villandi hætti að annars vegar sé horft til meðalverðbólgu ársins sem er að líða upp á 8,7% og hins vegar sé verið að horfa til þess að tilgreina verðbólgu á punktstöðu undir lok árs. Það væri fráleit framsetning en það væri ágætt ef það kæmi fram í umræðunni ef það er raunin, það er a.m.k. ekki með augljósum hætti hægt að lesa það út úr þeim texta sem hér er. En ef menn ætla að ná meðalverðbólgu næsta árs niður í 4,9% þá má slá mjög hressilega í aðhaldsklárinn.

Mig langar næst að segja nokkur orð um áherslumál og ábendingar meiri hluta nefndarinnar. Hér segir, með leyfi forseta: „Meiri hlutinn telur brýnt að auka aga í opinberum rekstri og draga úr sveiflumögnun.“ Er þetta eitthvert grín? Af hverju gera hv. þingmenn stjórnarflokkanna það þá ekki bara? Það þarf ekkert að skrifa það í nefndarálit. Gerið það bara, þið stjórnið ríkisfjármálunum sem hafa verið stjórnlaus um allnokkra hríð. Þið getið ekki látið eins og þið séuð bara einhverjir álitsgjafar úti í bæ. Með leyfi forseta: „Meiri hlutinn telur brýnt að auka aga í opinberum rekstri.“ Gerið þið það. Ekki það sem blasir við okkur og alls ekki það sem blasti við okkur fyrir ári síðan.

Hér segir áfram, með leyfi forseta:

„Setja þarf skýr markmið um útgjaldavöxt að raungildi sem væri þá ígildi fjármálareglu fyrst um sinn meðan innleidd verði útgjaldaregla í lög um opinber fjármál.“

Aftur segi ég bara: Kæru stjórnarflokkar, gerið þetta bara. Þetta hljómar mjög vel. Þið þurfið engar ríkisfjármálareglur eða breytingu á lögum um opinber fjármál til að gera þetta. Þið getið bara gert þetta.

Síðan segir áfram undir millifyrirsögninni „Endurmat útgjalda“, með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hefur verið vaxandi áhersla á að ná fram skilvirkni og auka framleiðni innan ríkiskerfisins.“

Er einhver hér í þessum sal núna sem er til í að koma hingað upp og halda því með ákveðnum hætti fram að við okkur blasi árangur undanfarinna ára af því að ná fram skilvirkni og auka framleiðni innan ríkiskerfisins? Værum við að horfa á þennan stjórnlausa vöxt ríkisútgjalda ef það væri raunin? Spyrjum okkur að því. Ég held ekki og það auðvitað blasir við að svo er ekki. Við verðum að temja okkur að tala um hlutina eins og þeir eru. Í þessu samhengi er komið inn á sjónarmið er snúa að kjarasamningum á næsta ári. Í fyrra voru öll krónutölugjöld hækkuð um 7,8%, ef ég man rétt yfir línuna, tæp 8%. Það var auðvitað bara grundvöllur að því að öll sveitarfélög fylgdu á eftir, fyrirtækin í framhaldinu og ekkert var við neitt ráðið. Núna liggur fyrir í fjárlagafrumvarpinu að hækka krónutölugjöldin um 3,5%. Ég hefði talið farsælast að setja þá tölu í 0% til að sýna að ríkisstjórnin ætlaði raunverulega að veita sjálfri sér aðhald. Þetta hefur verið gert áður. Þetta var gert í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar og það voru bara mjög góð skilaboð og skýr sem það sendi kerfinu öllu og hallalaus fjárlög á sama tíma. Það að verðbæta öll ríkisútgjöld síðasta árs og bæta síðan við 37 milljörðum eru ekki skilaboð um agaða fjármálastjórn og aðhald í ríkisrekstri.

Ég bara ítreka að það virðist vera eitthvert svona vinalegasta og kurteislegasta minnisblað Seðlabankans í langan tíma að kalla þessi fjárlög hlutlaus, sérstaklega í ljósi útgjaldavaxtar síðasta árs. En þetta eru auðvitað skilaboð sem eru ekki góð inn í þær kjaraviðræður sem fram undan eru. Næst er komið að sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Ég minni á stefnu Miðflokksins í þeim efnum. Við töldum að það væri skynsamlegt að afhenda eftirstæðan hlut til Íslendinga í jöfnum hlutum, þetta er fyrirtæki sem er á markaði þannig að verðmyndun er býsna gegnsæ. En hér er því flaggað að eignarhluturinn verði seldur og ég held að í öllu falli þá sé skynsamlegt að losa þennan eignarhlut úr höndum ríkissjóðs. En ég verð að nefna það sem segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Því ítrekar meiri hlutinn mikilvægi þess að vel sé staðið að sölunni á næsta ári til að auka sjóðstreymi til ríkisins og minnka lánsfjárþörf meðan vaxtastigið er hátt.“

Það er auðvitað gott og gilt að draga úr lánsfjárþörf ríkisins meðan vaxtastig er hátt en það væri mikilvægara að draga úr útgjöldum og þrýstingi sem ríkissjóður setur á kerfið til að auðvelda Seðlabankanum að lækka stýrivexti og í framhaldinu lækki vextir í landinu öllu í gegnum þjónustu fjármálafyrirtækja.

Frú forseti. Þetta er miklu styttri ræðutími en ég taldi mig hafa til að flytja ræðuna. Tíminn er u.þ.b. að klárast og ég er bara kominn á bls. 8 af 31 í nefndaráliti meiri hlutans þannig að ég vil biðja frú forseta að setja mig aftur á mælendaskrá og ég mun reyna að klára að koma þeim sjónarmiðum að sem ég vildi koma að við 2. umræðu.