154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[21:55]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir. Ég hjó eftir því í niðurlagi ræðunnar, ég náði reyndar ekki að hlusta nema með öðru eyranu þar, að það var verið að fara í kaflann í nefndaráliti meiri hlutans um bankasöluna þar sem stendur: „Því ítrekar meiri hlutinn mikilvægi þess að vel sé staðið að sölunni á næsta ári til þess að auka sjóðstreymi til ríkisins og minnka lánsfjárþörf meðan vaxtastig er hátt.“ Þetta segir manni svolítið það að fyrsta viðbragðið er lántaka eða mögulega skattahækkanir. Nú höfum við einu sinni horft upp á það á síðustu vikum að skattar eru hækkaðir í óþarfa, þegar menn voru með viðbragðið vegna þess sem vofði yfir okkur við Svartsengi. Það var fullkomlega óþarft að hækka skatta þá og þá var það einmitt rökstutt með því að þetta væri svo lág fjárhæð. Þetta er auðvitað nákvæmlega sama mantra og gerist hjá sveitarfélögum, gerist örugglega hjá fyrirtækjum og öðrum, að menn eru að rökstyðja einhverjar hækkanir með því að þetta sé svo lítill partur af heildinni en þegar þetta safnast saman þá verður þetta auðvitað mjög mikið.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann um þessa fyrirhuguðu skattahækkun á fyrirtæki sem fer yfir línuna á næsta ári þegar við erum í því vaxtastigi sem við erum núna, af því að fyrirtækin í dag eru að glíma við það líka og (Forseti hringir.) við bætast síðan skattahækkanir, ofan á það. Má ekki alveg búast við því að eitthvað af því (Forseti hringir.) skili sér síðan beint út í verðlag og vinni þar af leiðandi gegn markmiðum okkar í baráttunni gegn verðbólgunni?