154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[22:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu þótt ég átti mig á því að hún er mjög skammt á veg komin og ég hlakka til að hlusta á yfirferð hv. þingmanns yfir síður 8–31. (BergÓ: Eitthvað svoleiðis.) Eitthvað svoleiðis. Við sáum það kannski ekki fyrir okkur þegar við vorum að samþykkja þetta álit um fjárlagafrumvarpið að það yrði til að sameina Miðflokkinn og Viðreisn en það er nú orðin raunin og það er ágætt að mörgu leyti.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það sem hann ræddi hér varðandi eldsumbrot á Reykjanesi, og við áttum þetta samtal aðeins í andsvörum áðan. En það er þessi setning sem er skrifuð inn í frumvarpið um að mögulega verði litið til þess að fresta öðrum framkvæmdum ef séð verður fram á verulega kostnaðaraukningu fyrir ríkissjóð. Hv. þingmaður hefur talað hér um mikilvægi aðhalds og þess að fara ekki fram úr sér í ríkisútgjöldunum og ég tek alveg undir þau sjónarmið. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist við vera á villigötum með þessa setningu þarna, að því gefnu að þarna verði atburður af þeirri stærðargráðu að íslenskt efnahagslíf mun bera verulegan kostnað af því, að menn skoði þann möguleika á móti að fresta einhverjum framkvæmdum til að koma til móts við þann kostnað sem getur hlotist af slíkri framkvæmd einmitt til þess að reyna að verja hér kerfið okkar, til þess að reyna að takmarka þau útgjöld (Forseti hringir.) sem við erum að leggja í á árinu 2024. Ég veit að við erum (Forseti hringir.) að segja ef og þegar og kannski en þetta er hugmyndafræðin á bak við þetta og mig langar aðeins að heyra í þingmanninum, hvort honum finnist við vera á villigötum með þessa setningu.