154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[22:53]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er verið að reyna að beita aðhaldi og reyna að minnka rekstur ríkisins, það er það sem verið er að reyna að gera og fjárlaganefnd núna í sínu áliti. Þótt ég hafi ekki fengið það nákvæmlega staðfest þá grunar mig nú að það þurfi að fara býsna langt aftur til að finna dæmi um það sem við í nefndinni vorum að vinna að í okkar nefndaráliti, það eru lagðar til um 600–700 milljónir í aðhald af hálfu nefndarinnar. Það er svolítið öðruvísi heldur en við höfum séð áður frá nefndinni þannig að það er aðhald þar. Og eins og ég kom inn á í minni ræðu þá er vonandi von á enn meira aðhaldi á næstu árum. Ég held að við séum enn þá að reyna að jafna aðeins úr sveiflunni eftir Covid. Það hefur náttúrlega eins og hv. þingmaður veit, við höfum setið býsna lengi saman í fjárlaganefnd þótt ég hafi skroppið úr henni í tvö ár, gengið á ýmsu og mörg áföll gengið yfir og við erum alltaf að reyna að stilla af miðað við þau áföll sem ganga yfir. Þetta eru búnir að vera svolítið sögulegir tímar. En ég held að það sé vilji og mér sýnist, miðað við síðustu ár, vera ágæt staða á þessu. Ég vil líka alltaf vekja athygli á því hvar hefur náðst árangur. Í fjármálaáætluninni 2021–2025 var gert ráð fyrir 1.000 milljarða kr. halla á rekstri ríkissjóðs og ætli hann hafi ekki endað nær 600 þegar allt var gengið í gegn þannig að ég held að það hafi náðst nokkuð góður árangur. En við þurfum náttúrlega að halda áfram að sýna aðhald og lækka skuldahlutföllin. Fyrir Covid minnir mig að að samkvæmt fjármálareglunni hafi skuldahlutföllin verið um 22%. Þau verða 32% í lok næsta árs en áttu að vera 52% miðað við fjármálaáætlunina 2021–2025. (Forseti hringir.) Ég held að við séum að gera það besta með aðhaldið og a.m.k. hefur meiri hluti fjárlaganefndar gert sitt.