154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[22:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er áhugavert. Það er reynt að koma með aðhald en niðurstaðan allt í allt sem kemur hérna, breyting við 2. umræðu, er næstum því 2 milljarðar í plús, 1.949 millj. kr. Þarna er verið að reyna að aðskilja hvað ríkisstjórnin er annars vegar að koma með og hins vegar hvað meiri hluti fjárlaganefndar kemur með. Hvort tveggja er ríkisstjórnin sem slík. Maður veltir fyrir sér hvort þetta falli undir þetta klassíska dót, að segja að Alþingi samþykkti þetta. Ber ég ábyrgð á því? Nei. Ég ber ekki ábyrgð á því, ég segi jafnvel nei, en samt er sagt að Alþingi hafi samþykkt þetta. Það er réttara að segja að meiri hluti Alþingis samþykkti. En nú er farið að koma með það að meiri hluti fjárlaganefndar hafi lagt þetta til og ríkisstjórnin lagði til þetta. Eru þetta tvö aðskilin fyrirbæri þegar allt kemur til alls? Eigum við að fara að tala meira svoleiðis í útskýringum um það hvað Alþingi gerir, sem mér finnst stundum vera verulega rangt fram sett, sérstaklega hjá ráðherrum? Verður ríkisstjórnin þá ekki að fara að tala meira um að ríkisstjórnin hafi lagt til, ríkisstjórnin samþykkti, meiri hluti fjárlaganefndar samþykkti, stjórnarflokkarnir á Alþingi samþykktu o.s.frv.? Það er einhvern veginn hentisemi í því, hver gerir hvað. Meiri hluti fjárlaganefndar ætlar að monta sig af því að hafa minnkað gjöld um 600 milljónir. Ókei, áhugavert. En útkoman er sú að ríkisstjórnin í heild sinni, ásamt væntanlega meiri hlutanum á Alþingi og fjárlaganefnd, sem gerir tillögur ríkisstjórnarinnar að sínum, eykur samt útgjöld um næstum því 2 milljarða.