154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[22:59]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma aðeins inn í þessa umræðu hér um fjárlögin. Það hefur gengið á ýmsu síðustu ár og er lítið lát á. Í heimsfaraldri kórónuveirunnar upplifðum við viðsjárverða tíma. Það varð að hálfgerðum frasa sem náði vel utan um það óræða ástand sem fylgdi útbreiðslu sjúkdómsins. Ekki skánuðu horfurnar með innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu og útbreiðslu almennra stríðsátaka. Síðustu misseri hafa sleitulausar árásir Ísraelshers á óbreytta borgara Palestínu verið í brennidepli á alþjóðasviðinu. Hérna heima hefur það núna verið náttúruvá og rýming Grindavíkur. Þetta eru sannarlega viðsjárverðir tímar sem við lifum. Ég trúi því að við sem hér sitjum skiljum ágætlega áhrif þeirra atburða sem hafa átt sér stað allt í kringum okkur, hvort sem er úti í hinum stóra heimi eða á sunnanverðum Reykjanesskaga, berandi þá von í brjósti að þær aðstæður sem uppi eru breytist. Það er því sannarlega að mörgu að hyggja í hagstjórninni. Stóra viðfangsefnið, eins og hér hefur komið fram í dag, er þó engu að síður að ná niður verðbólgunni og standa vörð um velferðina. Það tel ég þessi fjárlög gera. Sömuleiðis er ljóst að nokkuð er í land þar til verðbólgan nær verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, en gert er ráð fyrir að hún lækki nokkuð á næsta ári. Þenslan í þjóðarbúinu er í rénun og vonandi skapast forsendur fyrir lækkun vaxta fyrr en síðar.

Á komandi árum er útlit fyrir að jafnvægi náist í þjóðarbúskapnum. Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar kemur fram að verðbólga á næsta ári verði eilítið hærri en upphaflegar forsendur frumvarpsins gerðu ráð fyrir. Það breytir því ekki að það þarf að standa vörð um stöðu fólks, sér í lagi þeirra sem verr standa gagnvart áhrifum verðbólgunnar, líkt og gert hefur verið síðustu ár.

En það er fjöldi þátta sem spilar inn í verðbólguspár. Núna er það bæði óvissa vegna náttúruvár og kjarasamningar sem á almennum vinnumarkaði gilda í mörgum tilfellum til loka janúar 2024 en til loka mars hjá ríkisstarfsmönnum. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur áherslu á að gerðir séu langtímasamningar og undir þau sjónarmið get ég sannarlega tekið. Ég vil líka segja að mikilvægt er að samningar verði í takt við stöðu efnahagsmála en þar skiptir máli, eins og ég sagði áður, að við náum verðbólgunni niður og um það þurfum við öll að sameinast. Í því tilliti er mikilvægt að stjórnvöld beiti sér fyrir aðgerðum sem gagnast fólki og bæta kjör, eins og gert hefur verið áður. Ég get nefnt sem dæmi um slíkt breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu á síðustu árum sem hafa komið sér vel.

Virðulegi forseti. Það dylst engum að það er óvissa uppi núna vegna jarðhræringanna á Reykjanesi. Í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að haga verði hagstjórninni í þágu mótvægisaðgerða og stuðnings við íbúa Grindavíkur og í velferðarnefndinni höfum við einmitt verið að takast á við mál bæði er varða húsnæðisstuðning og fjárhagsstuðning. Það er líka vikið að mikilvægi eftirlits með náttúruvá á svæðinu í ljósi þess að talið er að nýtt eldgosatímabil sé hafið á Reykjanesi. Ég trúi því að við getum flest verið sammála því að það kalli á nýja nálgun stjórnvalda og samfélagsins alls þar sem yfir 30 þúsund manns búa á Reykjanesi og eldstöðvakerfin sem um ræðir teygja sig jú inn á höfuðborgarsvæðið. Fyrirséð er að umtalsverð efnahagsleg áhrif verða vegna stöðunnar og er unnið að ýmsum mótvægisaðgerðum vegna þess en það þykir líklegt að frekari viðbragða verði þörf og eðli málsins samkvæmt munu útgjöld ríkissjóðs aukast vegna þessa.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu kemur fram að ætlunin sé að virkja fjármálareglur ári fyrr en til stóð. Þetta er í samræmi við það sem fram kom í fjármálaáætlun hér hjá okkur síðasta vor. Þetta er vel, enda mikilvægt tæki til að byggja undir stöðugleika og festu í opinberum fjármálum og liður í því að ná niður verðbólgunni. Þetta er mögulegt vegna batnandi afkomu og skuldastöðu ríkissjóðs og er í takt við ábendingar fjármálaráðs, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fleiri umsagnaraðila. Það má því segja að þrátt fyrir verðbólguna og ýmsa óvissuþætti séu líka jákvæð teikn á lofti og í stærra samhengi en gildistími þessa frumvarps tel ég hagstjórn síðustu ára góða, sérstaklega í ljósi alls þess sem hefur gengið á.

Ég hef margoft rætt hér í ræðustól og víðar um að ríkisútgjöld séu greind kerfisbundið til að endurmeta þau og eftir atvikum hagræða sem og að bæta forgangsröðun í takt við stefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma í stað þess að vera með flatt aðhald. En það vantar til þess betri gögn hjá stofnunum ráðuneyta eða kannski vantar bara tengingu við ráðuneytin. Það er eitt af því sem heyrst hefur, að kerfin tali ekki saman og því sé þetta ekki nægjanlega fljótandi upplýsingar sem gagnist kannski betur en gerist í dag. Ég tel að þetta sé gríðarlega mikilvægt og hef nefnt það sérstaklega í samtali við fjármálaráðuneytið að þetta sé vinna sem verði að fara í. Annars náum við aldrei markvissum árangri í því að bæta og efla bæði gæði og þjónustu þeirra stofnana sem tilheyra ríkisrekstrinum.

Virðulegi forseti. Þegar horft er í atvinnuþróun má segja að mestar breytingar á atvinnuháttum tengist ferðaþjónustu með einum eða öðrum hætti enda hefur greinin vaxið mikið og hratt. Sömuleiðis hefur lagareldi vaxið fiskur um hrygg á Austurlandi og Vestfjörðum. Í nefndaráliti meiri hlutans er sérstaklega vikið að ferðaþjónustunni. Eins og við vitum er hún ört vaxandi atvinnugrein og hefur á undraskömmum tíma orðið að grunnstoð í íslensku atvinnulífi og lyftistöng fyrir atvinnulíf víða um land. Í ljósi þessa hraða vaxtar erum við enn þá að ná utan um greinina. Þá kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans mikilvægi þess að halda áfram uppbyggingu innviða til að mæta þeim mikla fjölda fólks sem hingað kemur. Sömuleiðis er vikið að gjaldtöku í álitinu. Það er hárrétt sem þar kemur fram, ferðaþjónustan byggir á nýtingu takmarkaðra náttúruauðlinda og í því tilliti er minnst á aðgangsstýringu. Ég myndi segja að sérstök ástæða væri til þess að stjórntæki í ferðaþjónustu hér á landi tækju mið af náttúruvernd. Víða eru viðkvæm gróðursvæði, jarðvegur grófur, laus í sér og auðrofinn. Sár í jarðvegi eru lengi að gróa vegna stutts vaxtartíma gróðurs, auk þess sem vatn og vindar geta aukið á rof í sárum. Við þetta vil ég bæta að horft sé til þolmarka, hvort sem um er að ræða viðkvæma náttúru landsins, samfélagið, upplifun ferðamannanna sjálfra af ferðamannastöðum eða innviði, eins og áður sagði.

Það er mitt mat að öll hagnýting á aðgangsstýringu verði að byggja á greiningu þolmarka. Gjald gjaldsins vegna er greininni ekki til neins og kemur í veg fyrir að öll fái notið náttúru landsins. Í tengslum við stefnumótun eru komnar fram ýmsar hugmyndir á samráðsgátt stjórnvalda sem ég tel vert að skoða. Þá er líka vert að hafa í huga í sambandi við uppbyggingu innviða að opinber gjaldtaka af greininni hefur ekki verið mikil. Því hefur margoft verið velt upp hvort rétt væri að færa greinina upp í hærra virðisaukaskattsþrep. Greinin hefur svarað því til að hún borgi einna hæstan skatt miðað við samanburðarlönd og að slík hækkun myndi draga verulega úr eftirspurn. En það skýtur sannarlega skökku við að máttarstólpi í íslensku atvinnulífi greiði virðisaukaskatt í lægra skattþrepi en allar aðrar útflutningsgreinar. Að óbreyttu er gert ráð fyrir því að gistináttaskattur komi til framkvæmda á ný um áramót eftir tímabundna niðurfellingu vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Áætlað er að hann skili að óbreyttu 1,5 milljörðum á komandi ári. Ég sjálf hefði viljað sjá þennan gistináttaskatt þrepaskiptan. Þá hefur komið fram að til standi að gera breytingar og leggja gjöld á skemmtiferðaskip sem ég tel af hinu góða.

Í nefndaráliti meiri hlutans er vikið að mikilvægi frekari greininga og rannsókna innan greinarinnar, og ég held að við getum öll verið því sammála, enda ört vaxandi atvinnugrein eins og áður segir og mikilvægt að geta haft góð gögn að byggja á. Í nefndarálitinu, á bls. 9, er einmitt talað um að greina þetta eftir mismunandi tegundum ferðamanna, ferðamáta til og frá landinu, ferðamáta innan lands og vali á gistingu.

Það verður ekki hjá því komist í tengslum við ferðaþjónustuna að minnast á að þetta viðkemur líka þeim húsnæðisvanda sem við stöndum frammi fyrir og íbúar hér, sérstaklega á stórhöfuðborgarsvæðinu. Við höfum því miður séð gríðarlegan fjölda íbúða enda í eigu svokallaðra „apartments“-fyrirtækja sem leigja íbúðirnar eingöngu til ferðamanna í gegnum bókunarsíður eins og booking.com og hotels.com., sem er svo til hliðar við það sem við þekkjum sem Airbnb og fleiri aðila. Það var umfjöllun hér á dögunum þar sem kom fram hjá blaðamanni sem hafði verið að kíkja eftir þessu að bara á klukkutíma hafði hann getað safnað saman 100 íbúðum sem eru þarna undir. Það er auðvitað skelfilegt og við erum með eitt hæsta hlutfall af íbúðum í skammtímaleigu í Evrópu. Það eru í kringum 2.400 íbúðir í Reykjavík sem eru falar á skammtímaleigumarkaði, fyrir utan þessar mörg hundruð íbúðir sem eru nýttar undir gististarfsemi lögaðila hjá þessum íbúðafyrirtækjum og öðrum aðilum. Það er auðvitað óásættanlegt að það sé í rauninni heimilt að svona stór hluti íbúða á ákveðnum svæðum, í borgum eða bæjum, sé undir eins og hér er og þetta er eitt af því sem ég veit að verið er að vinna að og á að reyna að bregðast við.

Síðan langaði mig aðeins að tala um kynjaða fjárlagagerð og jafnréttisvinkilinn og nýsköpun í fjárlögunum, af því að þó að við sjáum talsverða uppbyggingu nýrra atvinnuvega er atvinnulíf einsleitt víða í hinum dreifðu byggðum. Uppbygging starfa í nýsköpunargreinum byggir oftar en ekki á aðkomu fjársterkra aðila. Slík uppbygging getur haldist í hendur við fiskeldi og sjávarútveg eins og við þekkjum dæmi um. Hins vegar er staðan þannig að styrkjaumhverfið í nýsköpunargeiranum er mjög karllægt. Það er því rétt að fjalla aðeins um þetta nýsköpunarumhverfi og þegar kemur að því að ráðstafa fjármunum ríkisins í fjárlögum finnst mér mikilvægt að við lítum til ólíkrar stöðu kynjanna og til þess hvaða breytur hafa áhrif þegar við erum að vinna með fjárlögin almennt. Konur eru til að mynda um tveir þriðju hlutar starfsfólks ríkisins og mun það bitna meira á konum ef störfum fækkar á þeim vettvangi. Það var horft til þess við gerð fjárlaganna og heilbrigðis- og öldrunarstofnanir undanþegnar kröfum um almennt aðhald þar sem konur eru í meiri hluta. Þá er líka vert að hafa í huga hvers konar störfum innan stofnana er líklegt að fækki og hver gegnir þeim.

En það er líka að fleiru að hyggja eins og ég sagði. Aðgerðir í menntamálum og menningarmálum hafa mismunandi áhrif á karla og konur. Kynjahalli er til að mynda mikill í rannsóknum í heilbrigðisvísindum og hinum svokölluðum STEAM-greinum, sem stendur fyrir stærðfræði, vísindi, tækni, verkfræði og listir. Það er mikilvægt að starfa af árvekni þegar fjármagni er beint inn í þær greinar og hafa kynjajafnrétti alltaf að leiðarljósi. Hér má t.d. nefna endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar en þar eru þrjár af hverjum fjórum umsóknum á vegum karla og flest fyrirtækin sem njóta þess háttar endurgreiðslna eru tæknifyrirtæki þar sem karlar eru meiri hluti starfsmanna. Það er mikilvægt að taka á kynjahalla í þessum geirum en ekki síður að endurskoða viðmið um hvað fellur innan ramma þess sem telst styrkhæft því verkefni leidd af konum falla oft utan þess ramma og má nefna sem dæmi verkefni í menntageiranum, samfélagsmálum og heilbrigðiskerfinu. Það er alveg spurning hvort við eigum að velta því fyrir okkur að ráðast í sértækar aðgerðir til að styðja við nýsköpun kvenna og jafnvel annarra minnihlutahópa.

Virðulegi forseti. Fjölbreytt menning styrkir íslenskt samfélag og er þáttur í lífsgæðum í landinu. Öflug menningarstarfsemi á landsbyggðinni styður við byggðastefnu stjórnvalda og gerir hinar dreifðu byggðir landsins að fýsilegri búsetukosti með fjölbreyttari tækifærum og líflegri samfélögum. Það vill nefnilega stundum gleymast að menning á heima alls staðar, hún býr jafnt úti um land og hérna á suðvesturhorninu. Sjálf hef ég í gegnum tíðina talað talsvert um menningu hér á Alþingi, beitt mér fyrir framgangi í málum henni tengdri og aðgengi að menningu og ég fagna því sérstaklega að fjallað er um menningu í áliti meiri hlutans. Ég tek undir þau sjónarmið sem þar eru viðruð, listir og menning efla félagsleg tengsl fólks sem annars kynni að fara á mis við það. Þau styrkja líka þekkingarleit og nýsköpun í samfélaginu. Blómlegt menningarlíf dregur úr hættu á félagslegri og menningarlegri einangrun en styrkir á sama hátt staðbundna menningu. Sömuleiðis eykur menningarstarfsemi fjölbreytni afþreyingar, fólk á öllum aldri tekur þátt í viðburðum og upplifir viðburði sem gefa hversdeginum lit. Ég verð að minnast á það hér hversu mörg fögnuðu í kórónuveirufaraldrinum þegar okkur bauðst að njóta tónleikanna Heima með Helga einu sinni í viku, sem og annars efnis. Þá held ég að mörg hafi áttað sig á því, þegar við vorum búin að vera dálítið ein og innilokuð, hversu margt við teljum sjálfsagt þegar kemur að margskonar menningu. Það er nefnilega ekki sjálfsagt og við þurfum að styðja við það.

Það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að fjölmargar óskir hafi borist um styrkveitingar í þessum málaflokknum, m.a. frá ýmsum söfnum og menningarstofnunum víða um land. Þetta eru stofnanir, söfn, listasetur og fleira sem eru aflvaki menningar hvert á sínu svæði og skipta sköpum fyrir söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknir og miðlun sögunnar og menningararfsins, hvort heldur er til gesta eða íbúa. Ég tek undir og legg áherslu á mikilvægi þess að styðja við fjölbreytt og öflugt menningarlíf úti um land allt.

Þær breytingartillögur sem lagðar eru til af nefndinni eru til marks um þetta og mig langar að taka nokkur dæmi, ekki síst úr mínu kjördæmi. Þar er Tækniminjasafn á Austurlandi að fá 15 milljónir, Útgerðarminjasafnið á Grenivík 4 milljónir, Safnasafnið á Svalbarðseyri 3 milljónir, Flugsafnið á Akureyri 10 milljónir, Heimskautsgerðið á Raufarhöfn 5 milljónir, Skaftfell á Seyðisfirði 15 milljónir, Sköpunarmiðstöðin í Stöðvarfirði 12,5 milljónir, Sigurhæðir á Akureyri tæpar 9 milljónir og Pálshús í Ólafsfirði 3 milljónir. Þetta eru ekki stórar fjárhæðir en þær skipta eins og áður sagði gríðarlega miklu máli fyrir samfélögin. Það er nefnilega mikilvægt að hafa í huga að þetta tryggir oft störf og búsetu sem annars væri ekki til staðar. Það hefur oft verið gagnrýnt að fjárlaganefnd sé að veita slíka styrki og talað um að fjármunirnir hafi farið inn til ráðuneytanna. Ég hef hins vegar stutt það að fjárlaganefnd hafi tækifæri til þess að hafa örlitla fjármuni um að véla þar sem hægt er að styðja við starfsemi sem ekki hlýtur náð fyrir augum ráðuneytisins á hverjum tíma.

Virðulegi forseti. Ég nefndi hér um daginn í ræðu að mér þætti við hæfi að Grímseyjarkirkja fengi stuðning frá hinu opinbera og því get ég ekki annað en fagnað því að sjá hér tillögu um 47 millj. kr. til að klára endurgerðina eftir brunann. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir Grímseyinga, þetta litla samfélag, að geta klárað kirkjuna sína þar sem gríðarleg sjálfboðavinna hefur líka verið í gangi. Þannig að þetta er mjög vel gert.

Það er líka tillaga um að Kvíabekkjarkirkja fái 3 milljónir, til að hægt sé að halda áfram viðhaldi á þessari gömlu kirkju. Gert er ráð fyrir að Tækniminjasafnið á Austurlandi, sem fór illa í aurskriðunum eins og við vitum, fái 15 milljónir og náttúrustofurnar fá áfram 48 milljónir. 400 milljónir eru settar í ofanflóðavarnir við Bjólf á Seyðisfirði sem er gríðarlega mikilvægt því að fram undan eru líka talsvert miklar framkvæmdir í Botnum þar sem aurskriður féllu í desember 2020. Það er því mikilvægt að klára framkvæmdirnar við Bjólf svo hægt sé að hefjast handa við Botna.

Að vanda eru heilbrigðismálin fyrirferðarmikil í frumvarpinu og að auki er hér lagt til að bæta við tæpum 4 milljörðum vegna lyfjakostnaðar. Það er lögð til viðbót við SÁÁ og endurhæfingarþjónustu, Reykjalund, Ljósið og Parkinsonsamtökin, svo eitthvað sé nefnt. Allt eru þetta aðilar sem eru að hjálpa til við ýmislegt sem viðkemur heilbrigðis- og endurhæfingarmálum.

Hvað varðar kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í málefnum fatlaðs fólks þá langar mig að víkja aðeins að því að búið er að vinna ítarlegar greiningar á kostnaði og tilurð kostnaðar mismunandi þátta sem snúa að vinnu við fatlað fólk. Þessi vinna hefur, eins og við þekkjum, verið í gangi talsvert lengi og hefur starfshópur ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarskiptingu í málaflokknum unnið hörðum höndum. Ríkið er að mæta þeim kostnaðarauka sem orðið hefur vegna breytinga á fjölda fatlaðs fólks sem gert var ráð fyrir að myndu falla undir málaflokkinn vegna laga- og reglugerðarbreytinga sem kallað hafa á breytingar á þjónustu á heimili fólks og annarri þjónustu. Þá mætir ríkið áhrifum á grunnþjónustu, þ.e. þessara 15 tíma á viku, en þar leggur ríkið sveitarfélögunum meira til en verið hefur. Þá felur kostnaðarauki ríkisins í sér að 25% hlutdeild ríkisins í 172 NPA-samningum er uppfyllt í samræmi við breytingalög frá 2018 og 2022.

Þá verður, og það er mikilvægt, sett inn fjármagn til þróunarkostnaðar í þjónustu við fatlað fólk. Það opnar nýja og spennandi möguleika á að nálgast aukna, bætta eða breytta þjónustu við fatlað fólk út frá frekari gögnum og rannsóknum. Þannig má byggja stefnumótun í málaflokki fatlaðs fólks á betri grunni en verið hefur. Þessu tengt hækka bifreiðastyrkir loksins vegna hreyfihömlunar um áramótin en þeir hafa ekki hækkað síðan í nóvember 2015, en hámarksfjárhæð styrkja vegna sérútbúinna bifreiða hækkað í júní 2020. Hækkunin í fjárlagafrumvarpinu tekur mið af hækkun vísitölu neysluverðs frá þeim tíma sem síðustu hækkanir urðu. Þannig verða fjárhæðir uppbóta vegna bifreiðakaupa 500.000 kr. og vegna kaupa á fyrstu bifreið 1 milljón og styrkur til bifreiðakaupa mun nema um 2 milljónum og hámarksfjárhæð vegna kaupa á sérútbúnum bílum verður 7,4 milljónir. Þetta er í samræmi við loftslagsmarkmið íslenskra stjórnvalda og félagslega sjálfbærni. Þá taka breytingarnar mið af því markmiði að hreyfihamlaðir einstaklingar geta auðveldar tekið þátt í orkuskiptum og verða útfærslur skoðaðar í samhengi við aðgerðir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins varðandi styrki til rafbílakaupa.

Virðulegi forseti. Þá ætla ég aðeins að víkja að einmitt rafmagnsbílunum og breytingu á gjaldtöku af vegakerfinu. Veigamikill þáttur í hækkun fjárheimilda vegna orkumála hafa verið styrkir til kaupa á rafmagnsbílum, átaksverkefni og innviðauppbygging í þágu orkuskipta á síðustu árum. Fyrirkomulag skattstyrkja í þágu kaupa á hreinorkuökutækjum hefur ekki verið án gagnrýni. Þau sjónarmið komu fram að kerfið hampaði því fólki sem var í góðri efnahagslegri stöðu og hlaut niðurgreiðslu á rafmagnsbílum sem oftar en ekki eru dýrari ökutæki. Sömuleiðis var tekjumissir ríkissjóðs af tekjuöflun af samgöngum gagnrýndur og við því er nú verið að bregðast. Kerfið verður tekið upp í tveimur áföngum vegna umferðar og orkuskipta í formi m.a. kílómetragjalds vegna notkunar bifreiða. Sem dæmi má nefna að fyrir rafmagnsbíl sem ekið er sem svarar til meðalaksturs einkabifreiða hér á landi, eða í kringum 14.000 km á ári, verða greiddar 84.000 krónur á ári eða 7.000 krónur á mánuði sem er svipað og er verið að greiða fyrir bensínbíl.

Mig langar núna, virðulegi forseti, aðeins að vitna í stöðu bænda og stöðuna í landbúnaðinum. Það er í þessu frumvarpi gert ráð fyrir tæplega 200 millj. kr. til aðgerða sem eiga að stuðla að auknu kynbótastarfi og innviðauppbyggingu ásamt beinum stuðningi við kornframleiðslu í samræmi við áherslur aðgerðaáætlunarinnar Bleikir akrar. Þá er fjármögnun vegna vinnu gagnvart verndandi arfgerð gegn riðuveiki í íslenska sauðfjárstofninn tryggð en eins og vitað er þá er unnið að hraðari ræktun riðuþolins sauðfjárstofns á ræktunarsvæðum sem eru skilgreind sem áhættusvæði.

Sérstaklega er vikið að stöðu ungra bænda í nefndaráliti meiri hlutans, líkt og fram kom í máli formanns nefndarinnar. Staða bænda er alvarleg, það dylst engum. Það má m.a. rekja til innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu og þeirra áhrifa sem hún hefur haft á verðhækkanir á aðföngum eins og áburði, kjarnfóðri og öðrum nauðsynjum. Þá hefur fjárfesting í greininni leitt til slæmrar stöðu, sér í lagi hjá þeim sem eru að koma undir sig fótunum eða hafa staðið í umfangsmiklum breytingum og uppbyggingu á sínum búum. Vegna þessa var settur á hópur ráðuneytisstjóra sem unnið hefur að tillögugerð og greiningu á stöðunni.

Í dag tilkynntu hæstv. matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og hæstv. innviðaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson tillögur að aðgerðum til stuðnings þeim bændum sem eiga í fjárhagserfiðleikum vegna núverandi efnahagsástands. Þær byggja á mati þess hóps sem ég var hér að fjalla um, ráðuneytisstjórahópnum, og er lögð áhersla á að stuðla að nýliðun og kynslóðaskiptum í greininni með aðstoð við yngri bændur. Það er líka lögð áhersla á að stuðningskerfið styðji við atvinnugreinina með skilvirkum hætti í samræmi við áherslur stjórnvalda og gagnist fjölskyldubúum sem eiga í hvað mestum vanda, sérstaklega til skemmri tíma. Talað er um í tilkynningu sem kom frá Stjórnarráðinu í dag að áætlað er að stuðningurinn verði greiddur til 982 bænda fyrir árslok á þessu ári, alls 1,6 milljarðar. Ég tel að þetta sé gríðarlega mikilvægt og hljóti að verða til þess að hjálpa verulega til. Hér er farið yfir hvað það er; ungbændastuðningur, viðbótarfjárfestingarstuðningur, viðbótarbýlisstuðningur, viðbótargripagreiðslur á holdakýr og aðgerðir sem miða að því að styrkja stöðu landbúnaðarins til framtíðar og þar er verið að tala m.a. um lánakosti Byggðastofnunar o.fl. Síðan er verið að tala um að ráðast í vinnu við heildarendurskoðun og stefnumótun í stuðningskerfinu eins og við þekkjum. Þetta finnst mér afar mikilvægt, virðulegi forseti, að nú komi fram niðurstaða í þessu máli sem við vitum að mjög margir hafa beðið eftir.

Ég ætla aðeins að halda áfram. Samkvæmt frumvarpinu eru áætlaðar tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum um 12 milljarðar árið 2024 en stefnt er að því að hækka gjaldið samkvæmt gildandi fjármálaáætlun. Rúmir 2 milljarðar koma til vegna verðmætagjalds af fiskeldi en aukningin er að mestu til komin vegna hækkunar verðmætagjaldsins úr 3,5% í 5%. Það er vel, enda réttlætismál að aflögufærar atvinnugreinar leggi sitt til þjóðarbúsins. Þá vil ég sérstaklega fagna því að fjölga eigi stöðugildum í fiskeldisdeild Matvælastofnunar, enda hefur röð umhverfisslysa sýnt að það þarf og er mjög mikilvægt að styrkja eftirlit með greininni. Fjárheimild málaflokksins hækkar um 126 milljónir til að auka eftirlit Matvælastofnunar með sjókvíaeldi og tryggja fullnægjandi eftirlit með skráningum og innra eftirliti sjókvíaeldisfyrirtækja. Gert er ráð fyrir að framlagið muni hækka á komandi árum og verði í kringum 230 milljónir frá og með 2026. Tillagan er liður í því að efla stjórnsýslulega umgjörð í málaflokknum, enda hefur fiskeldi svo sannarlega vaxið fiskur um hrygg.

Ég verð aðeins að koma inn á framhaldsskólana. Ég held að við munum öll eftir því, svo stutt sem það er síðan, þegar við ræddum sameiningu framhaldsskólanna í haust. Það kom í ljós þegar á leið að helsta ástæðan með þeim tillögum var fjárvöntun. Meiri hluti fjárlaganefndar bregst við þessu og gerir ráð fyrir um 300 millj. kr. hækkun til framhaldsskólanna vegna fjölgunar nemenda. Það er líka lögð til 500 millj. kr. hækkun vegna aukinna áskoranna framhaldsskólanna vegna samsetningar nemenda, ekki síst til að ná til nemenda með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn og til nemenda utan vinnumarkaðar og framhaldsskóla. Ég held að þetta sé gríðarlega mikilvægt. Það er líka lagt til áframhaldandi 150 millj. kr. framlag til íslenskukennslu fyrir útlendinga sem og að auka, bæta og þróa möguleika og tækifæri sem innflytjendum bjóðast til að læra íslensku.

Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að nefna að lagt er til að löggæslan sæti ekki sérstöku aðhaldi líkt og gert var við síðustu fjárlög, enda myndi það einungis þýða fækkun í lögreglunni og vera algerlega á skjön við þær áherslur sem ríkisstjórnin hefur. Það á sama við um Landhelgisgæsluna, þar er aðhaldskrafan dregin til baka og fram undan er að skoða vel þann rekstur og alveg ofan í kjölinn.

Hér er líka lagt til að sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra fái 11 milljónir til að halda starfsmanni á Þórshöfn. Ég tel mikilvægt að dómsmálaráðherra taki þetta til sín og gerir þetta starf varanlegt enda mikilvæg þjónusta á svæði sem er m.a. að sækja þjónustuna annars um hundruð kílómetra. Ég vil líka nefna að Persónuvernd opnaði með pompi og prakt árið 2021 skrifstofu á Húsavík og vert að vekja athygli á því að það voru 106 manns sem sóttu um tvær stöður, allt vel menntað fólk. Þessar stöður verða lagðar niður nú um áramót ef ekki verður brugðist við og ég hvet fjárlaganefnd til að bregðast við fyrst að ráðuneytið hefur ekki séð ástæðu til þess. Ég vil líka segja að þessi tilhneiging til að leggja niður störf úti á landi virðist alltaf vera fyrsti kostur og mér finnst það algjörlega óviðunandi. Við sem búum í hinum dreifðu byggðum þekkjum að þetta hefur ítrekað gerst. Það er eins og það sé auðveldara að leggja niður störfin sem eru fjær, alveg sama hvaða verk er verið að vinna, heldur en í nærumhverfinu, á þeirra móðurstöð, getum við kannski sagt, sem undir er.

Virðulegur forseti. Ég ætlaði ekki að tala mjög lengi, enda er ég að verða hálf raddlaus, þannig að ég er að hugsa um að láta þetta duga. Það er margt gott í þessu frumvarpi sem ég tel að við getum verið ánægð með og ég segi það hér að ég kem að sjálfsögðu til með að styðja það af því að ég tel að við séum að taka utan um þá þætti sem við þurfum helst að taka á.