154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

Störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að halda mig við alvarlega stöðu í raforkumálum okkar. Fiskimjölsverksmiðjur brenna 2.300 lítrum af dísilolíu á klukkustund þegar þær eru í gangi. Þetta er ansi mikið magn þegar allt er saman talið. Orkubú Vestfjarða brenndi 2 milljónum lítra til raforkuframleiðslu á árinu 2022 og það verður vart minna núna. Við getum rætt fjálglega um orkuskipti en það er algerlega fjarstæðukennt við þessar aðstæður. Við erum líka með öll tækifærin. Menn tala mikið um landeldi í laxeldi og eru hlynntir því og tala þar með niður sjókvíaeldi. Laxeldi á Suðurlandi sem er í pípunum þarf 300 MW. Á Vestfjörðum og Austfjörðum þarf laxeldið í tilfallandi atvinnugreinum um 300 MW. Fiskimjölsverksmiðjurnar þurfa aðgang að 100–200 MW. Þarna eru ótalin gagnaverin og annar sá græni iðnaður sem getur byggst upp í raforkumálum. Þau eru gríðarlega mörg tækifærin í grænum iðnaði þar sem við höfum kallað eftir erlendri fjárfestingu. Við erum að verða sem samfélag af milljörðum ef ekki tugmilljörðum í tekjur á hverju einasta ári vegna þeirrar stefnu sem hefur verið rekin.

Það sem við ættum að vera að ræða, virðulegur forseti, hér á þingi eru neyðarráðstafanir, ekki bara til þess að tryggja heimilum raforku, tryggja að það komi ekki til skerðinga í vetur á raforkuafhendingu til heimila og menn þurfi að slökkva ljósin á ákveðnum tímum sólarhringsins, við ættum að vera að ræða það hvernig við setjum raforkuframleiðslu og dreifingu raforku í forgang í þessu landi. Það er stærsta áskorunin að mínu mati sem þetta samfélag stendur frammi fyrir. Um leið og við gerum það þá förum við að sjá hér mögulega tekjumyndun inn í framtíðina sem gerir það að verkum að menn, í tengslum við umræðu um fjárlög, geta hætt að ræða hér um alls konar skattahækkanir út og suður og við getum farið að lækka skatta í íslensku samfélagi og við getum farið að afla tekna með alvöruverðmætasköpun á grundvelli grænnar orku sem er nóg til af á Íslandi. Við erum með einstök tækifæri meðal þjóða.