154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður kom einnig inn á velferðarkerfið og að við vildum gera vel við alla og fyrir alla og ég hef svo sem ekki orðið var við annað en að það sé almennt séð vilji til þess. En einhverra hluta vegna gerist það síðan ekki því að eins og kom fram í skýrslunni sem var birt bara núna í dag þá ná 75% fatlaðs fólks illa endum saman, þriðjungur býr við fátækt. Getum við við þær aðstæður sagt að við séum með gott velferðarkerfi? Hvert er viðmiðið við gott velferðarkerfi? Er það að það sé einhver fátækt, lítil fátækt, smá fátækt, engin fátækt? Hvar setjum við alþingismenn mörkin, sem vinnum bara samkvæmt stjórnarskrá, eftir sannfæringu okkar, þegar við segjum: Við viljum gera vel fyrir alla? En samt er svo auðvelt að benda á, ekki bara suma heldur þó nokkuð marga sem má held ég með sanni segja að hafa það ekkert rosalega gott. Fátækt barna hefur aukist samkvæmt endurtekinni greiningu Barnaheilla frá 6.000 upp í 10.000 í síðustu mælingu. Og eins mikið og við viljum kannski gera þá segja tölurnar okkur það ekki. Það er alltaf verið að reyna að benda á meðalútkomuna, meðalmanninn og hann hefur það kannski ágætt á Íslandi, en fyrir neðan meðalmanninn er helmingur þjóðarinnar með lægri framfærslu og fyrir ofan hann er helmingur þjóðarinnar með hærri framfærslu. Við þurfum kannski að spyrja okkur fleiri spurninga um þau sem eru með lægri framfærslu.