154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:24]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ja, kerfi sem stendur og fellur með jólabónus er ekki gott velferðarkerfi, það er nokkuð ljóst. Við viljum, að kerfið sé þannig að fólk lifi við mannsæmandi kjör allt árið. Það var nú hugsunin að nýta það frekar þannig að jólabónus væri bara inni í því þannig að fólk væri að fá jafnt tekjurnar yfir allt árið en ekki í þetta eina skipti. Þess vegna var það þannig að desemberuppbótin átti að dreifast yfir alla mánuðina og vera þannig aukið framlag.

Velferðarkerfið snýst ekki bara um tekjurnar, fyrir þá sem eru í veikari stöðu sem getur verið af ýmsum ástæðum. Þá þurfum við að hafa kerfið þannig að þar er jú viss framfærsla tryggð. Við þurfum líka að tryggja að það að sé aðgangur að nauðsynjum eins og matvælum og húsnæði eða öðru á viðráðanlegum kjörum. Til þess höfum við nú gert margt, eins og við höfum nefnt hérna nokkrum sinnum í þessari umræðu, eins og með almenna íbúðakerfið, við höfum komið með hlutdeildarlánin og við höfum komið með stofnframlög til óhagnaðardrifinna íbúða til að reyna að tryggja að húsnæðiskostnaðinum sé ekki að taka frá því fólki sem er í veikari stöðu. Eins þegar við lækkuðum virðisaukaskattinn, 80% af útgjöldum þessa fólks var einmitt þar. Svo var endurskoðun á lyfjagreiðslukerfinu, heilbrigðiskerfinu og svo er búið að setja lægra skattþrep til að draga úr skattbyrði fólksins. Það er búið á vísitölutryggja persónuafsláttinn plús 1% og svo mætti lengi telja, þannig að þetta snýst allt um að fólkið lifi við mannsæmandi kjör og kerfin grípi þau og bregðist við á réttum stöðum.