154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:48]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir andsvarið. Í fyrsta lagi gleðst ég mjög yfir því að hann skuli ætla að hoppa á vagninn með okkur í sambandi við breytingartillögurnar okkar, enda var ég í rauninni að senda tóninn á ríkisstjórnarflokkana því við höfum oftar en ekki staðið saman, stjórnarandstöðuflokkarnir, ef það er eitthvað svona bitastætt sem við erum með þó að við séum ekki alveg öll að deila heila. En hvað lýtur að bankaskattinum, 0,838% og 30 milljörðunum, þá skil ég vel áhyggjur hv. þingmanns af því hvort þetta myndi hugsanlega bíta í skottið á sér. Þá hef ég hugsað mér að lofa neytendum og aðilum sem þurfa að nýta sér bankakerfið að njóta vafans og ætla þeim að vera það skynsamir að ef það ætti að refsa okkur fyrir það að vera í viðskiptum við þessa banka sem eru að hala inn núna hátt í 100 milljarða í arð á árinu — mér fyndist bara sanngjarnt að við fengjum 30 milljarða af því, mér fyndist það bara allt í kei, allt í lagi — þá höfum við ýmis vopn. Við erum kannski ekki að fara að fylla götur af tómötum eins og bílstjórarnir gera í Frakklandi þegar verið er að mótmæla hinu og þessu. En við getum verið öflug ef við ætlum okkur það. Við þurfum ekki að vera með peningana okkar á einum stað í bönkunum og láta þá koma fram við okkur eins og ekkert. Ef einhvern tíma við myndum standa saman, ef einhvern tíma við myndum virkilega gera það, þá er okkur í lófa lagið að láta þessa hækkun á bankaskatti ekki bíta í skottið á sér. Það ætla ég að segja. Við getum kannski komið með ýmsar tillögur og gert ýmislegt en við verðum líka stundum að óska eftir aðstoð við það frá samfélaginu og segja: Við erum hér bara 63 einstaklingar og mun færri í stjórnarandstöðunni náttúrlega, við erum bara sex í Flokki fólksins sem erum að berjast fyrir þessum fjármunum til þess að reyna að gera hlutina án þess að skaða okkur enn þá frekar efnahagslega af því að við getum ekki verið að eyða endalaust. Í fyrsta lagi eyðum við ekki sömu krónunni tvisvar en ég vil lofa notendum þjónustu að njóta vafans (Forseti hringir.) og tel að við getum látið kné fylgja kviði ef þeir ætla að vera með einhverja stæla við okkur.