154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:53]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir síðara andsvar. Það hefur ekki farið fram hjá mér frekar en öðrum hvernig verkalýðsleiðtogar og aðrir hafa verið að hoppa á þann vagn og mér finnst það bara eðlilegasti hlutur í heimi að við fáum óháða aðila. Þá er ég ekki að tala um einhverja Íslendinga á markaðnum sem eru litaðir af öllu þessu spillingarumhverfi sem við fáum svo gjarnan beint í ennið. Þá verður það líka að vera hlutlaus úttekt sem segir allan sannleikann um gjaldmiðilinn. Við sjáum t.d. með Dani sem eru að tengja sína krónu og slíkt og ég veit að Viðreisn talaði oft um myntráð. Við höfum ekkert verið á móti því að skoða það, alls ekki. En það sem er sárast af öllu að viðurkenna er að þeir aðilar sem stýra landinu vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara og ég er næstum því hrædd um að það skipti ekki máli hvort við værum með japanskt jen eða evru eða dollara eða hvaðeina annað í fanginu, þeir gætu alltaf komið okkur í klandur ef við ætlum ekki að reyna að skipta um í brúnni. En jú, ég tek alveg heils hugar undir það að við þurfum að gera eitthvað í sambandi við alvöru hlutlausa úttekt á kostum og göllum íslensku krónunnar. Í sambandi við samkeppnina og fákeppnina á peningamarkaðnum og bankamarkaðnum þá eigum við enn þá Landsbankann og að hugsa sér, stjórnvöld hafa í engu gert neitt í því að reyna að koma þannig umgjörð um þann banka þar sem við eigum að koma á einhverri samkeppni á peningamarkaði. Þeir gera það bara alls ekki. Svo þegar við erum að tala um að bíta í skottið á okkur með því að hækka bankaskattinn upp í 0,8.338% þá er okkur í lófa lagið að setja lög hér á Alþingi sem segja hreinlega: Þið farið ekki með húsnæðisvextina hærra en þetta, punktur. Það erum við sem setjum reglurnar hér, ekki bankarnir. Um leið og við og stjórnvöld áttum okkur á því hver það er sem er löggjafinn, þá mun okkur farnast mun betur heldur en raun ber vitni.