154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:12]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að biðja herra forseta afsökunar. Ég sagði víst frú forseti hér áðan, en tók ekki eftir forsetaskiptunum. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir andsvarið og ég er að mörgu leyti alveg sammála. En það sem við stöndum frammi fyrir, og það á sérstaklega við um höfuðborgarsvæðið, er að árin 2010–2017 voru framkvæmdaaðilar ekkert að framkvæma og byggja íbúðir á þessum árum eftir hrun. Þeir voru að byggja hótel og gistiheimili. Á meðan sat íbúðauppbygging algjörlega á hakanum. Ég held ég fari rétt með, það er í raun og veru ekki fyrr en 2017 að íbúðauppbygging á þessu svæði byrjar af einhverjum krafti og þá rísa upp heilu og hálfu hverfin. En þá er þörfin orðin uppsöfnuð, við erum komin með umframeftirspurn á markaði sem leiðir auðvitað til þess að verðið hækkar og hækkar og við förum í þetta ástand sem við þekkjum. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að við virðumst — nú kemur áfall, nú erum við með háa vexti, fjármagnið er dýrara, Seðlabankinn herðir lánþegaskilyrði þannig að þetta hefur aftur letjandi áhrif á framkvæmdaraðila. Ég óttast það, og hef ítrekað sagt það, að nú komi stöðnun í uppbyggingu húsnæðis. Við byggjum ekki nóg. Á meðan erum við með snjóhengju kynslóða sem safnast upp úti á markaðnum og mun á einhverjum tímapunkti ryðja sér út og þá förum við í nákvæmlega sama ástand og við vorum í fyrir ekki svo mörgum árum. Því er mjög brýnt að taka höndum saman og liðka fyrir frekari húsnæðisuppbyggingu. Ég veit að þetta er línudans á þessum tíma en við munum fá vandann í andlitið síðar ef ekkert verður að gert.